Tóbaksverð og vísitala

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 17:18:30 (1045)

1998-11-11 17:18:30# 123. lþ. 22.15 fundur 207. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[17:18]

Flm. (Þuríður Backman):

Hæstv. forseti. Ég flyt till. til þál. um tóbaksverð og vísitölu. Ég hef áður flutt þessa tillögu og hún var síðast flutt á 121. löggjafarþingi árið 1996. Þingsályktunartillagan er á þskj. 225, 207. mál. Meðflutningsmenn eru Sigríður Jóhannesdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Þingályktunartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að semja frumvarp til laga sem miði að því að slitin verði tengsl tóbaksverðs og vísitölu sem notuð er um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Stefnt skal að því að leggja slíkt frumvarp fram hið allra fyrsta og verði gildistaka miðuð við 1. janúar 1999.``

Og grg. er svohljóðandi, en hún er endurflutt nær óbreytt frá 1996:

,,Í lok síðasta þings voru samþykktar allveigamiklar breytingar á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, ekki síst í því skyni að hamla gegn tóbaksneyslu barna og unglinga. Breytingar þessar voru vissulega til bóta og eru líklegar til nokkurs árangurs. Þar er þó ekki gripið til þess úrræðis sem telja má hvað áhrifaríkast til þess að minnka tóbaksneyslu ungmenna, þ.e. raunhækkunar á tóbaksverði.

Almennt er viðurkennt --- og styðst við fjölda athugana --- að sterk tengsl séu milli tóbaksverðs og tóbaksneyslu. Sé tóbaksverð hækkað er reglan sú að það leiðir til minni tóbaksneyslu. Svonefnd verðteygni, þ.e. þau áhrif sem ætla má að hækkun umfram almennar verðbreytingar hafi á neyslu, virðist hvað tóbak snertir vera á bilinu -0,3 til -0,6, en það merkir að hækki tóbaksverð um 10% verður neyslan frá 3% og allt að 6% minni en ella hefði orðið.

Ítarleg bresk rannsókn sýndi að tóbaksverð hafði áhrif á tóbaksneyslu í öllum tekjuhópum þjóðfélagsins en hlutfallslega því meiri sem tekjurnar voru lægri. Einnig hefur verið sýnt fram á að eftirspurn eftir tóbaki er í öllum aldursflokkum háð tóbaksverði. Mest eru áhrifin á tóbakskaup unglinga og ungs fólks, svo sem fram hefur komið í rannsóknum í Bandaríkjunum og Kanada. Athyglisvert er að verðið hefur ekki síður áhrif á það hve margir reykja en hitt hve mikið er reykt.

Ljóst er því að veruleg hækkun tóbaksverðs umfram almennar verðhækkanir getur verið áhrifamikið tæki til að draga úr tóbaksneyslu almennt og ekki síst til að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja.

Á þessu er byggt í íslenskri heilbrigðisáætlun frá 1991 þar sem mælt er með slíkum hækkunum tóbaks og áfengis í því skyni að draga úr neyslunni. Þar sem heildarneysla minnkar hlutfallslega minna en verð hækkar mundi verðhækkun auk þess ekki leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð heldur tekjuaukningar.

Í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis um frumvarp til áðurnefndra breytinga á lögum um tóbaksvarnir segir að rætt hafi verið um það í nefndinni ,,hvort æskilegt væri að hækka verð á tóbaki í forvarnaskyni`` en það sé ,,tæknilega erfitt vegna tengsla tóbaks við vísitölu neysluverðs`` og sé engin tillaga flutt af nefndinni um það.

Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að rjúfa slík tengsl með því að jafnhliða útreikningi hefðbundinnar vísitölu neysluverðs verði reiknuð sérstök vísitala án tóbaks til að nota við ákvarðanir um lánskjör. Þess má geta að þrjú Evrópulönd, Belgía, Frakkland og Lúxemborg, hafa þegar farið þessa leið, í samræmi við tilmæli frá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Getið skal að lokum könnunar sem Hagvangur gerði fyrir tóbaksvarnanefnd árið 1991. Meiri hluti þeirra sem afstöðu tóku lýsti sig fylgjandi því að tóbaksverð hefði ekki áhrif á framfærsluvísitölu. Jafnvel í hópi þeirra sem reyktu var meiri hlutinn þessu fylgjandi.``

Þjóðhagsstofnun hefur síðan, að beiðni tóbaksvarnanefndar, gert lauslega athugun á áhrifum verðhækkunar á tóbaki og tóbaksneyslu á tekjur ríkissjóðs og kemst mjög að sömu niðurstöðu. Ég vil fá að lesa hluta af greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Tóbaksneysla vegur um 1,5% í verðvísitölu neysluvöru, þ.e. 10% verðhækkun tóbaks mundi leiða til u.þ.b. 0,15% hækkunar hennar.``

Og síðan:

,,Tekjur ríkissjóðs af sölu tóbaks voru um 2,1 milljarður kr. á árinu 1996 og eru áætlaðar um 2,25 milljarðar 1997. Heildarvelta í tóbakssölu nam um 4,8 milljörðum árið 1996, svo hluti ríkisins er um 43% af sölunni. Á fyrsta ári verðhækkunar um 10% mundu því tekjurnar aukast um tæpar 120 millj. kr. á verðlagi og grunni ársins 1996, miðað við að neysla dragist að magni til saman um 4,1%. Langtímatekjuáhrif yrðu mun minni eða rétt um 100 millj. kr. en eins og nefnt var að ofan er erfitt að meta þau, og eins er líklegt að þau verði engin eða jafnvel neikvæð.`` --- Hér er vísað til fyrri kafla greinarinnar. --- ,,Það ber að sjálfsögðu að hafa það í huga að einnig koma til jákvæð langtímaáhrif á gjaldalið vegna minni heilbrigðisútgjalda, meiri starfsorku einstaklinganna o.s.frv. og skal í því sambandi bent á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1990, Þjóðfélagslegur kostnaður vegna reykinga árið 1990, um þetta efni.``

Um þetta mál og hvernig eigi að fara með það eru trúlega ekki allir þingmenn sammála. Það hefði þá náðst einhugur um málið þegar þetta var rætt í heilbr.- og trn. þegar lögin voru endurskoðuð fyrir tveimur árum. En þó eru menn sammála um það, og um það held ég að ríki næstum því einhugur, að þessi vitneskja um hækkun á tóbaksverði hafi veruleg áhrif á neyslu, og menn vilji hækka verð á tóbaki en ekki að hækkunin fari inn í lánskjaravísitöluna. Því þarf að leita leiða til að koma hækkuninni á svo um hana náist sátt. Þó talaði hv. formaður heilbrn., Össur Skarphéðinsson, fyrir því í umræðunni að hann mundi mæla með því að sú leið sem ég er að tala fyrir yrði farin. Ég vona að þessi tillaga verði skoðuð af mikilli alvöru og að þessi leið verði hluti af þeirri miklu varnarbaráttu sem ég tel að við séum í varðandi sterku fíkniefnin sem hafa náð hér fótfestu á markaðnum. Þetta sé ein leiðin af mörgum og því þurfa þingmenn að geta komið sér saman um það hvaða leiðir eigi að fara svo hægt sé að hækka verulega verð á tóbaki.

Ég legg til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og bæði til heilbr.- og trn. og viðskn.