Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 10:32:31 (1046)

1998-11-12 10:32:31# 123. lþ. 23.15 fundur 110. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðjöfnunargjald af kindakjöti o.fl.) frv., Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[10:32]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. frá landbn. um frv. til laga um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson frá landbúnaðarráðuneyti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að verðmiðlunargjald sem lagt er á kindakjöt verði lækkað. Þá er lagt til að verðskerðingargjöld sem lögð eru á kindakjöt og tekin hafa verið af verði til bænda og af sláturleyfishöfum verði afnumin. Loks er lagt til að verðskerðingargjald af nautgripakjöti í UN og K gæðaflokkum verði lækkað, sem og gjald sem lagt er á hvern sláturgrip í sömu flokkum frá 1. september til 31. desember ár hvert.

Verðskerðingargjald er ætlað til markaðsaðgerða og til að leiðrétta birgðastöðu kjöts, en verðmiðlunargjald á kindakjöt er hins vegar m.a. ætlað til verðmiðlunar á milli afurðastöðva. Eru umræddar breytingar lagðar til að beiðni Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssambands kúabænda og með hliðsjón af núverandi birgðastöðu kinda- og nautgripakjöts.

Nefndin telur að hér sé um eðlilegar breytingar að ræða og mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Árni M. Mathiesen, Sigríður Jóhannesdóttir, Hjálmar Jónsson og Jörundur Guðmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta skrifa Guðni Ágústsson, Egill Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson og Guðjón Guðmundsson.

Meira hef ég ekki um þetta mál að segja, hæstv. forseti. Þetta eru heldur góðar fréttir.

(Forseti (ÓE): Og stutt og góð ræða.)