Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 10:57:05 (1052)

1998-11-12 10:57:05# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., Flm. GuðjG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[10:57]

Flm. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um hvalveiðar. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson, Stefán Guðmundsson, Siv Friðleifsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni M. Mathiesen, Ólafur Örn Haraldsson, Árni Johnsen, Magnús Stefánsson og Pétur H. Blöndal.

Tillagan, sem er á þskj. 92, er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1999 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Sjávarútvegsráðherra er falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga.``

Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi og rædd að kvöldi síðasta vetrardags. Tillögunni var síðan vísað til sjútvn. sem afgreiddi hana ekki frá sér fyrir þinglok og er hún því endurflutt.

Það er réttur og skylda fullvalda þjóðar að nýta auðlindina á ábyrgan hátt og í anda þeirrar stefnu um sjálfbæra nýtingu sem Íslendingar hafa gerst talsmenn fyrir. Af því leiðir að rétturinn til að nýta hvalastofna sem þola veiði er ótvíræður og sjálfsagður. Íhlutunarsemi erlendra ríkja og samtaka sem miðar að því að koma í veg fyrir að sá réttur sé nýttur er því afskipti af innanríkismálum og gengur um leið gegn þeirri stefnu um auðlindanýtingu sem stjórnvöld hafa talað fyrir innan lands og á erlendum vettvangi.

Trúlega hafa bandarísk stjórnvöld gengið lengst í þessari íhlutunarsemi og beinlínis haft í hótunum við þær þjóðir sem hyggja á hvalveiðar og virt að vettugi ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar sem þeir hafa undirgengist. Á þessu ofríki Bandaríkjamanna kann að verða breyting á næstunni, ef marka má viðtal Morgunblaðsins í síðasta mánuði við William Nitze, sem er æðsti embættismaður Bandaríkjanna á sviði alþjóðlegra umhverfismála, en hann segir þar að Íslendingar og Bandaríkjamenn hafi lengi verið ósammála um hvalveiðar. Hann bendir hins vegar á að Bandaríkjamenn eigi nú undir högg að sækja innan Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna lagasetningar sem heimilar einhliða viðskiptaþvinganir gagnvart ríkjum sem stunda veiðar á sjávarspendýrum. Síðan segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við þurfum að öllum líkindum að skipta úr einhliða aðgerðum í marghliða aðgerðir; með öðrum orðum að leita samstarfs við önnur ríki. Ég tel að þetta muni leiða til þess að við munum frekar leita að málamiðlunarlausnum, sem önnur ríki geta sætt sig við.``

Þessi viðhorfsbreyting Bandaríkjamanna skiptir miklu máli því ég tel engan vafa á því að óbilgjörn afstaða þessa stórveldis, m.a. með hótunum um viðskiptaþvinganir, hefur átt stærstan þátt í því að hvalveiðar eru ekki stundaðar í ríkari mæli en gert er.

Ég verð alltaf jafnundrandi á andstöðu Bandaríkjamanna við hvalveiðar í ljósi þess að sjálfir drepa þeir sjávarspendýr í stórum stíl, að maður minnist nú ekki á að Bandaríkjastjórn virðist jafnan reiðubúin til loftárása með tilheyrandi mannfalli vítt og breitt um heiminn ef því er að skipta, samanber fréttir útvarps í morgun, en setur svo upp heilagsandasvip ef á að skjóta nokkra hvali norður í höfum. Þetta er náttúrlega yfirgengilegur tvískinnungur.

[11:00]

Ég tel að ótti manna við viðskiptaþvinganir sé ástæðulaus. Það hefur verið ein helsta röksemd þeirra sem tala gegn hvalveiðum að það muni bitna á útflutningi okkar og ferðaþjónustu ef við hefjum veiðar á ný. Þessu sama var Norðmönnum hótað þegar þeir hófu sínar veiðar á ný og því spáð að þetta mundi bitna mjög á þeim. Andstæðingar hvalveiða hófu mikla áróðursherferð gegn Norðmönnum og skoruðu á almenning víða um heim að kaupa ekki norskar vörur. Það var því fróðlegt að fá þær upplýsingar sem fram komu hjá fulltrúa norska útflutningsráðsins sem hér var á ferð í fyrra en hann sagði að síðan þeir hófu veiðarnar hafi útflutningur aukist, ferðaþjónusta eflst og aðsókn í hvalaskoðunarferðir vaxið. Þetta kom reyndar fram strax á fyrsta ári hvalveiða Norðmanna, en í blaðinu Evrópufréttir sem kom út árið 1994 var forsíðufrétt undir fyrirsögninni ,,Aðgerðir gegn norskum hvalveiðum árangurslausar``. Þar sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Norskir útflytjendur telja sig í engu hafa skaðast vegna áróðurs og aðgerða til að koma í veg fyrir að fólk kaupi norskar vörur, m.a. í Bandaríkjunum, innan Evrópusambandsins og í Ástralíu. Aðgerðirnar sem einkum voru á vegum samtaka grænfriðunga beindust annars vegar að norskum útflutningi og hins vegar að ferðalögum til Noregs. Að sögn norskra embættismanna var árið 1993 besta ár norsks útflutnings til þessa og 8% aukning varð á ferðamannastraumnum til Noregs frá árinu á undan.``

Mér finnst ástæða til að leggja áherslu á þessa reynslu Norðmanna því að við munum trúlega standa frammi fyrir sömu hótunum og Norðmenn þegar við hefjum hvalveiðar að nýju.

Andstaða stjórnvalda í Bandaríkjunum og víðar við hvalveiðar er undanlátssemi við áralanga áróðursherferð ýmissa öfgasamtaka sem kenna sig við umhverfisvernd. Sum þessara samtaka sem hafa halað inn stórfé á áróðri sínum gegn hvalveiðum hafa nú tekið upp baráttu gegn fiskveiðum. Taki fiskveiðiþjóðir ekki höndum saman gegn þessum áróðurssérfræðingum getum við næst horft fram á stórkostlega takmörkun á fiskveiðum okkar og það fyrr en margan grunar. Þess vegna verðum við að taka slaginn við þessi öfl.

Hæstv. forsrh. kom inn á þessi mál í ræðu sinni á þingi Norðurlandaráðs sl. mánudag þegar hann flutti stefnuræðu norrænu forsætisráðherranna en þar benti hann á að vestnorræna svæðið væri órjúfanlegur hluti Norðurlanda en hefði einnig nokkra sérstöðu. Afkoma íbúanna byggðist á náttúrunni, á auðlindum hafsins, á landgæðum og sjálfbær nýting þeirra væri lykilatriði. Sú nýting væri einnig nátengd menningu og hegðun vestnorrænu þjóðanna. Orðrétt sagði hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,Stundum vill skorta á skilning umheimsins á þessum tengslum og réttinum til að nýta auðlindirnar, þar með talin sjávarspendýr. Framkoma ýmissa alþjóðlegra umhverfisverndarsamtaka er til vitnis um þetta.``

Eftir ræðuna sagði hæstv. forsrh. í blaðaviðtali að í þessum málum ættu þjóðirnar í baráttu við óæskileg öfl. Áhyggjuefni væri að öfl andsnúin hvaleiðum væru nú að færa sig upp á skaftið í átt að fiskveiðum. Málflutningur þeirra væri að allar fiskveiðiþjóðir færu illa með fiskstofnana. Þetta væri hættuleg stefna sem þyrfti að vinna gegn.

Það er ástæða til að fagna því að hæstv. forsrh. skuli tala svo afgerandi um þetta mál á vettvangi Norðurlandaráðs og ástæða til að fylgja því eftir í öðrum alþjóðastofnunum, svo og við þær ríkisstjórnir sem verst hafa látið gegn nýtingu sjávarspendýra á undanförnum árum.

Í blaðinu Fiskifréttum sem kom út í síðustu viku er grein með yfirskriftinni ,,Áframhaldandi hvalveiðibann gæti kostað okkur milljarða króna vegna samdráttar í þorskafla``. Þar er vitnað í niðurstöður Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings á Hafrannsóknastofnun. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ef hvalveiðar verða ekki leyfðar að nýju á næstu árum og hvölum verður leyft að fjölga sér óhindrað á hafsvæðinu við Ísland gæti farið svo að innan fárra ára þyrfti að draga úr þorskveiðum um 10--20% miðað við það sem ella hefði orðið. Þetta jafngildir 30--60 þús. tonnum á ári miðað við 300 þús. tonna ársafla eða sem svarar 4--7 milljörðum íslenskra króna í útflutningsverðmæti.``

Gísli tekur fram að niðurstöðurnar séu háðar óvissu sem m.a. byggist á stærð hvalastofnanna, en hann gerir ráð fyrir að stærð hvalastofnanna um þessar mundir sé 70% af hámarksstærð. Verði hvölunum leyft að fjölga sér áfram er áætlað að áhrifanna á fiskveiðar fari að gæta strax eftir nokkur ár og fari vaxandi. Hrefnan er sú hvalategund sem étur langmestan fisk á Íslandsmiðum eða eina milljón tonna á ári samkvæmt niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar. Þar kemur fram að í hrefnumögum hafa fundist m.a. loðna, síli og þorskur, svo og kvarnir og aðrar leifar af ýmsum þorskfiskum. Að áliti Gísla gæti þorskur verið allt að 6% af fæðu hrefnunnar en hann minnir á að aðeins hafi fengist sýni úr 60 hrefnumögum og því brýnt að auka þessar rannsóknir. En það er óhægt um vik meðan ekki má veiða þessar skepnur. Þá telur hann að áhrif vaxandi hvalastofna gætu verið umtalsverð á loðnu.

Þá kemur það fram að Hafrannsóknastofnunin áætlar að fæðunám hvala á Íslandsmiðum sé 6,2 millj. tonna á ári, þar af rúmlega 2 millj. tonna af fiski. Munar þar langmestu um hrefnuna sem talin er éta um 1 millj. 55 þús. tonn, en leiftur, marsvín, háhyrningur, höfrungur og hnúfubakur milli 100 og 200 þús. tonn hver tegund og aðrar hvalategundir minna. Þó erfitt sé að meta þetta magn nákvæmlega sýna þessar tölur nokkurn veginn hve gríðarlegt magn hvalirnir éta af fiski og sé það rétt metið að hvalastofnarnir geti stækkað um 43% á næstu árum sést auðvitað glöggt hversu nauðsynlegt er að hefja hvalveiðar á ný og stemma stigu við óheftri fjölgun þessara skepna.

Hafrannsóknastofnunin metur árlega stofnstærð og veiðiþol helstu hvalastofna. Í ritinu Nytjastofnar sjávar 1998--1999 fjallar stofnunin um hrefnu-, langreyðar- og sandreyðarstofninn. Þar kemur fram að undanfarin ár hefur stofnunin lagt til að aflamark fyrir hrefnu verði 200 dýr á ári, en í ljósi úttektar vísindanefndar NAMMCO leggur Hafrannsóknastofnunin til að aflamarkið verði aukið í 250 hrefnur á ári. Þá kemur einnig fram varðandi langreyðina að stofnunin telur að langreyðarstofninn á þessu svæði þoli umtalsverðar veiðar eða a.m.k. 100--200 hvali á ári og að nýjar talningarniðurstöður staðfesti þetta. En þar sem engin fastmótuð aflaregla gildir fyrir langreyðarveiðina við Ísland þá leggur Hafrannsóknastofnunin til í varúðarskyni að ekki verði veiddar fleiri en 100 langreyðar á ári.

Í þessari skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar kemur fram að yfir 80 þúsund hvalir hafi verið í hafinu kringum Ísland fyrir þremur árum. Það er talið að þeir fjölgi sér um 5--10% á ári, misjafnt eftir tegundum, og trúlega eru þeir því orðnir yfir 100 þúsund núna, enda segja sjómenn að hvalamergðin á fiskimiðunum hafi aldrei verið eins óskapleg og að undanförnu. Ég spjallaði nýlega við þaulreyndan togaraskipstjóra á Snæfellsnesi sem var að koma að landi úr veiðiferð og hann sagði mér að þegar hann lagði af stað af miðunum út af Vesturlandi hefði hann talið 24 stróka frá stórhvelum í námunda við skipið. Hann sagðist hafa talað við skipstjóra á öðrum togara sem var 4--5 sjómílum grynnra á slóðinni og sá hafi haft sömu sögu að segja. Þessi ágæti skipstjóri sagði við mig að það yrði að hefja hvalveiðar að nýju og það strax. ,,Við erum í beinni samkeppni við þessar skepnur sem éta sjálfsagt meira af fiski en við veiðum``, sagði þessi reyndi aflamaður og var mikið niðri fyrir.

Herra forseti. Þjóðin vill að hvalveiðar verði hafnar að nýju. Um það vitna ítrekaðar skoðanakannanir ár eftir ár sem hafa sýnt a.m.k. 80% fylgi þjóðarinnar við það að þessar veiðar hefjist að nýju. Nýjasta könnunin sem Gallup gerði núna í október sýndi að stuðningur þjóðarinnar við hvalveiðar hefur aldrei verið meiri en um þessar mundir, en 88% þeirra sem tóku afstöðu vildu hefja veiðarnar á ný.

Þá er ástæða til að minna enn á ítrekaðar áskoranir fjölda félaga og hagsmunasamtaka um allt land þar sem hvatt er til hvalveiða. Fylgiskjal með þessari tillögu er auglýsing sem birst hefur í Morgunblaðinu þar sem skorað er á Alþingi að sjá til þess að hvalveiðar við Ísland verði heimilaðar strax. Þeir sem standa að þessari áskorun eru öll 11 útvegsmannafélög landsins, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands, Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Dagsbrún og fjöldi annarra verkalýðsfélaga og sjómannafélaga, Bændasamtök Íslands, Iðnnemasamband Íslands og mörg sveitarfélög. Þá hafa Landssamband smábátaeigenda, Landssamband ísl. útvegsmanna og fleiri samtök ályktað í þessa veru. Einnig má minna á allar þær mörgu jákvæðu umsagnir sem bárust til sjútvn. Alþingis í vor þegar þessi tillaga var send út til umsagnar. Það er ekki tími til að vitna í þær hér, tíma mínum er að verða lokið, en flestar eru þær mjög jákvæðar og afgerandi.

Alþingi getur ekki látið eins og því komi þetta ekkert við. Alþingi verður að taka afstöðu til þessa máls. Fyrsta skrefið til að hvalveiðar hefjist á ný er að Alþingi samþykki að leyfa veiðarnar og þess vegna er þessi tillaga lögð fram.

Ég legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. sjútvn.