Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 11:11:10 (1053)

1998-11-12 11:11:10# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[11:11]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka staðfestu þeirra sem hafa flutt þessa þáltill. ár eftir ár og ég vil lýsa yfir ánægju með að hafa fengið tækifæri til þess að vera meðflm. og lýsa því yfir að ég hef hvað eftir annað komið í ræðustól á þingi og rætt þessi mál og sýnt fram á að ég er fylgismaður tillögunnar.

Ár eftir ár hefur verið borin upp tillaga á Alþingi Íslendinga um að hefja skuli hvalveiðar sem er nokkuð merkilegt mál. Ár eftir ár hefur verið gerð könnun meðal þjóðarinnar um viðhorf til hvalveiða. Ár eftir ár hefur komið í ljós að mikill meirihlutastuðningur er við það að hvalveiðar skuli hafnar, bæði á Alþingi Íslendinga og meðal annarra þegna Íslands, líklega um og yfir 80% stuðningur meðal þjóðarinnar. Hvað stendur í veginum fyrir því að hrinda málinu í framkvæmd? Eru það tillögur Hafró? Er það vegna þess að tillögur Hafró séu gegn hvalveiðum? Nei. Hafró hefur lagt til veiðar á 100 langreyðum, reyndar eru engar sérstakar tillögur um sandreyðar en örugglega væri óhætt að taka 500--800 dýr af þeirri tegund og þar að auki 250--300 hrefnur á hverju ári.

Hvar er málið fast? Hvernig stendur á því að ár eftir ár skuli vera flutt tillaga um að hefja hvalveiðar og ekkert gerist? Herra forseti. Það er varla hægt að ræða þetta mál án þess að hæstv. sjútvrh. sé viðstaddur eða hæstv. forsrh. Ég er ekki að krefjast þess að þeir komi í salinn en það er nauðsynlegt að ríkisstjórn Íslands gefi yfirlýsingu um þetta mál, það er alveg bráðnauðsynlegt. Ég tel ekki að hún hafi verið gefin ótvíræð.

Hvalveiðar voru mjög mikilvæg atvinnugrein sem stóð á eigin fótum, þær voru mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi landsins. Af veiðunum urðu mjög miklar útflutningstekjur og í dag væri sennilega um að ræða 3 til 3,5 milljarða ef við litum til baka og framreiknuðum þær tekjur sem af þessum veiðum voru. Um 250--280 manns störfuðu við þessar veiðar á sínum tíma. Ég tel að þetta sé allt of stór þáttur í atvinnulífi til þess að menn líti fram hjá honum eins og í rauninni hefur verið gert.

Ég tel að við höfum orðið fyrir alvarlegum skaða af því að leggja af hvalveiðar og er því hvatamaður að því að þær verði hafnar að nýju og tel að það muni ekki valda okkur tjóni á erlendum mörkuðum frekar en þeim hvalveiðiþjóðum sem stunda hvalveiðar, eins og Norðmönnum og Færeyingum. Ef maður skoðar þessi mál eins og þau eru sett fram í þessari ágætu þáltill. og í samhengi þá blasir það við að öll rök hníga að því að hefja hvalveiðar innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til.

Herra forseti. Ég held að Íslendingar verði og eigi að nota eigin auðlindir. Íslendingar eiga að umgangast auðlindir á sjálfbæran hátt. Íslendingar eru í fremstu röð þjóða sem framleiða matvæli. Á grundvelli þekkingar eigum við að hefja hvalveiðar strax á næsta ári og við eigum að byrja á hrefnuveiðum.