Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 11:23:12 (1055)

1998-11-12 11:23:12# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[11:23]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Þetta er mjög stórt mál sem við erum að ræða hér og ég er reyndar einn af flutningsmönnunum. En ég vil taka undir hvert einasta orð sem fram kom í ræðu 1. flm., hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, sem hefur eins og hér hefur komið fram verið mjög ötull í þessu máli og haldið því vakandi um árabil.

Það er alveg ljóst að hverri þjóð er mjög mikilvægt að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt. Við nýtum okkar sjávarfang, sem er aðallega fiskur, og það er undirstaða afkomu okkar að nýta fiskinn og þá aðallega þorskinn. Þetta teljum við vera svo sjálfsagt að ekki þarf að útskýra það neitt frekar. Það er bara eðlilegt að nýta á sjálfbæran hátt fiskstofna okkar. Þess vegna er það jafnsjálfsagt að nýta hvalinn. Það er enginn sérstakur munur á hval og þorski, það er enginn grundvallarmunur. Þetta eru auðlindir, náttúruauðlindir, og enginn munur á þessu tvennu. Að sjálfsögðu eigum við að nýta hvalinn á sjálfbæran hátt. Það er okkar sjálfsagði réttur.

Það eru einnig rök með því að veiða hval að ef hann er ekki veiddur og fær að vaxa óhindrað, þá þýðir það samkvæmt rannsóknum vísindamanna að um 10% af þorskstofninum fer í að næra hvalinn. Og það er spurning hvort við höfum efni á því. Og er það eðlilegt? Mér finnst það ekki. Mér finnst ekki eðlilegt að leyfa hvalastofninum einum að vaxa óhindrað meðan við nýtum aðrar tegundir á sjálfbæran hátt og sérstaklega ekki þegar við erum ,,í samkeppni við hvalinn um þorskinn og um fiskstofnana``.

Á sínum tíma sögðum við okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og stofnuðum ásamt Noregi, Færeyjum og Grænlendingum NAMMCO, sem er skammstöfun fyrir Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið. Af hverju gerðum við það? Norðmenn sögðu sig ekki úr Alþjóðahvalveiðiráðinu en við gerðum það vegna þess að við töldum á þeim tíma að það væri betri leið til að geta hafið hvalveiðar að nýju. Reyndar var mjög mikið tekist á um þetta mál á sínum tíma í þinginu og munaði mjög litlu í atkvæðagreiðslu hvernig niðurstaðan yrði, en meiri hlutinn réð og þetta varð niðurstaðan.

Hvað hefur gerst síðan? Það má eiginlega segja að nánast ekki neitt hafi gerst. Við höfum ekki hafið hvalveiðar þó að við færum út í allt þetta ferli til þess að geta veitt hval. Þetta gekk því ekki eftir. Hér hefur ekki verið veiddur hvalur í tíu ár á næsta ári. Við getum haldið upp á tíu ára afmæli hvalaleysis hjá okkur, við höfum ekki veitt hval í tíu ár.

Það er eitt sem hefur komið fram núna hið allra síðasta sem mér finnst aðeins breyta þessu máli og það tengist NAMMCO. Á aðalfundi NAMMCO í byrjun september sl. kom fram mat vísindanefndar samtakanna að veiði á 292 hrefnum hefði ekki skaðleg áhrif á stofninn. Stjórnunarnefnd NAMMCO staðfesti síðan á þessum fundi þetta stofnmat vísindanefndarinnar, þ.e. að veiðar á tæplega þrjú hundruð dýrum væru sjálfbærar veiðar. Þetta var endanleg umfjöllun í NAMMCO sem þýðir að ekki er meiri vísindalegan rökstuðning að fá, þetta er niðurstaðan. Þannig að núna hefur NAMMCO, sem við stofnuðum ásamt fleirum á sínum tíma til þess að hefja hvalveiðar, komið því mjög skilmerkilega á framfæri að hægt sé að hefja hér sjálfbærar veiðar með því að taka um þrjú hundruð dýr úr stofninum.

Núna spyr maður: Hvað þarf meira til þess að hefja hvalveiðar? Að mínu mati þarf ekkert meira. Nú er spurningin einungis pólitísk. (PHB: Það þarf hugrekki.) Það þarf pólitískt hugrekki, það er hárrétt. Að mínu mati er tækifærið núna. Það nýjasta sem hefur gerst er að NAMMCO hefur gefið grænt ljós, stofnunin sem við stóðum að ásamt fleirum til þess að hefja hvalveiðar. Eftir hverju erum við að bíða núna? Engu væntanlega.

En menn hafa vissar áhyggjur af því hvað viðskiptalönd okkar muni taka til bragðs ef við hefjum hvalveiðar, að þau gætu farið í einhvers konar viðskiptaþvinganir og annað slíkt. Ég hef ekki trú á því, ég held að það muni ekki neitt sérstakt gerast þó að við hefjum hér hvalveiðar. Þetta eru hótanir og þær vofa yfir okkur, en Norðmönnum var líka hótað á sínum tíma og þær hótanir gengu ekkert eftir. Það hefur ekki orðið nein breyting á útflutningi þeirra, hann hefur aukist ef eitthvað er. Og þeir hafa heldur ekki tapað neinu í hvalaskoðun. Menn hafa sýnt fram á að það séu ekki tengsl þar á milli, þ.e. það er hægt að veiða hval og vera með hvalaskoðun samtímis.

Sumir segja að ekki sé tímabært að hefja hvalveiðar af því að ekki sé hægt að selja hvalinn. En ég spyr: Er það svo? Samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekki reynt á þetta til fullnustu, hvort hægt sé að selja afurðina. Og ég spyr líka: Þó að það væri ekki hægt, eigum við samt ekki að hefja hvalveiðar? Er ekki rétt að grisja þennan stofn? Á hann að fá að vaxa óheftur og taka 10% úr þorskstofninum? Ég velti því fyrir mér, er það rétt?

Mér finnst það líka vera rök í málinu að ef við hefjum ekki hvalveiðar, hvað verði næst? Ég tel að þá verði þroskurinn næstur. Það verður næsta markmið ýmissa umhverfissamtaka að einbeita sér að fiskveiðum. Ég tel því að ef við stoppum ekki við hvalveiðarnar og reynum að hefja þær aftur þá muni menn bara halda áfram og beita sér næst gagnvart fiskveiðum. Ég vil benda á að í Bandaríkjunum eru talsvert háværar raddir núna um það að afnema eigi ákvörðunarrétt strandríkja á nýtingu fiskstofna og það eigi að stofna einhvers konar alþjóðlegt fiskveiðiráð sem eigi að úthluta veiðiheimildum. Ef þetta yrði niðurstaðan yrði það auðvitað mjög alvarlegt fyrir Íslendinga sem er sú þjóð sem mest byggir á fiskveiðum.

Mig langar líka að draga inn í þessa umræðu að Norðmenn eins og t.d. Steinar Andersen sem er fræðimaður við stofnun Fridtjof Nansens í Noregi hefur sett fram mjög sérstaka skoðun á að okkur skorti pólitískan kjark og ég held að hægt sé að taka undir það að vissu leyti. En núna held ég að komið sé að því að við tökum skrefið.

Það nýjasta sem hefur gerst í þessu máli, virðulegi forseti, vegna þess að tími minn er búinn, er að Davíð Oddsson hefur komið því mjög skilmerkilega á framfæri á þingi Norðurlandaráðs að skort hafi á skilning umheimsins í tengslum við réttindi á því að nýta auðlindir, þar með talin sjávarspendýr og hann nefndi framkomu ýmissa umhverfissamtaka til vitnis um þetta. Að mínu mati er hæstv. forsrh., Davíð Oddsson að, gefa pólitísk skilaboð, að hefja áróður um að byrja hvalveiðar.