Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 11:48:08 (1058)

1998-11-12 11:48:08# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[11:48]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Enn einu sinni er tekin fyrir tillaga á hv. Alþingi um að leyfa nú þegar hvalveiðar. Af einhverjum ástæðum hefur tillaga svipaðs efnis eða sama verið flutt undanfarin ár án þess að hún hafi verið afgreidd frá þessari virðulegu stofnun.

Ég vil taka fram í upphafi að ég tek í einu og öllu undir öll þau rök aðalflm. og þeirra sem hafa talað á undan mér um að það er engin líffræðileg ástæða til þess að hefja ekki hvalveiðar á ný. Einu ástæðurnar sem geta verið fyrir því eru annars eðlis, að öðru leyti tek ég undir röksemdir allra þeirra sem hafa talað á undan mér, hv. þingmanna Guðjóns Guðmundssonar, Péturs Blöndals, Sivjar Friðleifsdóttur, Gísla S. Einarssonar, Magnúsar Stefánssonar og Einars Kristins Guðfinnssonar.

Þessi rök eru öllum kunn og ég held að við þurfum ekki einu sinni að eyða miklu púðri á það. En ég held að það hafi verið í hittiðfyrra sem ég sat alþjóðlega ráðstefnu um hvalveiðar, sem haldin var hér á landi að tilhlutan Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands, og þar heyrði ég í fyrsta sinn þau rök sem kunna að vera á móti hvalveiðum. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á áðan eru þau rök eingöngu viðskiptalegs eðlis. Þó að ég ætli ekki að gerast talsmaður þeirra sjónarmiða sem þar komu fram í þessum efnum tel ég rétt að þingheimur viti a.m.k. af þeim rökum.

Þá er þar fyrst til að nefna að til er alþjóðleg stofnun sem heitir CITES og er alþjóðaráð um viðskipti með afurðir af dýrum í útrýmingarhættu. CITES tekur upp athugasemdalaust og rannsóknalaust skrár frá öðrum alþjóðastofnunum eins og Alþjóðahvalveiðiráðinu og setur á sinn lista og bannar síðan öll viðskipti með þessar afurðir. Það var kannað fyrir nokkrum árum og kom fram hér að það væri ekkert í lögum í Japan sem kæmi í veg fyrir það að þeir keyptu hvalafurðir okkar. Bæði Japan og Noregur eru í CITES. Við vorum það ekki til skamms tíma. Ég held að við höfum í fyrsta skipti sent fulltrúa sem áheyrnarfulltrúa á ráðstefnuna í Zimbabwe í fyrra eða hittiðfyrra. Þeir hafa ákveðið að hlíta þeim ákvæðum sem CITES setur með þeim afleiðingum t.d. að Norðmenn hafa ákveðið að éta sína hvali. Spik og rengi hefur safnast upp hjá þeim þannig að þeir eiga þar fimm hundruð tonn. Óskir hafa komið frá Íslandi um að kaupa þetta spik og rengi en Norðmenn selja okkur það ekki vegna þess að þeir vilja ekki fara í deilur við alþjóðasamfélagið um þessar afurðir.

Þegar við vorum upp á okkar besta þá veiddum við um 150 hrefnur, ef ég man rétt, og hrefnuveiðimenn hafa sagt mér að neyslan innan lands hafi verið um 50 dýr. Spurningin er: Viljum við hefja hvalveiðar upp á þessi býti, á þeim forsendum sem réttilega komu hér fram, að það er kannski ástæða til þess að hefja grisjun á hvalastofnunum? En hvaða einkafyrirtæki vill taka það að sér ef það getur ekki selt afurðirnar? Telja má líklegt að við getum torgað 50 hrefnum og mér finnst alveg sjálfsagt að við hefjum veiðar fyrir innanlandsneyslu svipað og Norðmenn gera. Það er eiginlega lágmark sem við gætum byrjað með að meina okkur ekki um þá hluti. En þó verðum við að taka tillit til þess sem mig minnir að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hafi orðað fyrir nokkrum árum eitthvað á þá leið að við verðum að vera okkur meðvitandi um það hverju verði við viljum kaupa okkur réttinn til þess að hafa hvalkjöt í sunnudagsmatinn.

Auðvitað höfum við rétt fullvalda þjóðar til þess að nýta lögsögu okkar. Það er viðurkennt af alþjóðasamfélaginu að sú sjálfbæra nýting er í samræmi við allar venjur og alþjóðareglur. En það er okkur ekki nóg, við neytum sjálf ekki hvalkjöts í verulegum mæli og við yrðum því að selja það og við þurfum að geta komið afurðunum frá okkur. Þetta eru einu rökin sem til eru gegn því að við hefjum hvalveiðar og mér finnst rétt að þau komi fram hér. Mér hefði fundist rétt að sjútvrh. og ráðherrar í ríkisstjórn gerðu okkur grein fyrir því hvort það er þetta sem heldur aftur af okkur í þessu máli eða hvort það er eitthvað annað.

Þó vil ég nefna í lokin að samanburður við Norðmenn í sambandi við kvíða um að alþjóðaumhverfisverndarsinnar muni ekki geta staðið fyrir viðskiptaþvingunum á Ísland, það er ekki alveg sambærilegt. Ísland er eyja úti í Atlantshafi þar sem tiltölulega fáar aðgönguleiðir eru fyrir allar okkar vörur að og frá landinu. Það er tiltölulega einfalt mál að hefja slíkar fjöldaaðgerðir ef alþjóðleg umhverfisverndarsamtök kjósa. Ég hef heyrt frá þeim herbúðum að þeir telji Ísland alveg ídealt land fyrir umhverfisverndarsinna að reyna að brjóta á bak aftur ef til þess kæmi að við hæfum hvalveiðar á ný.

Eins og ég sagði hafa Norðmenn kosið að éta sinn hval eða þann hluta af honum sem þeir geta nýtt. Spiki og rengi hafa þeir safnað upp þannig að þar munu vera 500--1.000 tonn í geymslum. Þeir hafa t.d. neitað okkur um að kaupa þetta. Þannig hafa þeir ekki gefið alþjóðasamfélaginu tilefni til mótmælaaðgerða gegn þeim. Þeir fara með löndum í þessu máli eins og öðrum þó þeir brýni okkur fyrir skort á hugrekki og öðrum göfugum dyggðum sem okkur skorti í þessu efni.

Ég verð líka að taka það fram að NAMMCO hefur valdið vonbrigðum. (Forseti hringir.) Það hefur ekki reynst sá vettvangur sem gat fleytt okkur til niðurstöðu í því að hefja hvalveiðar og ég tel fulla ástæðu til þess að við skoðum þessi viðskiptalegu rök --- eða a.m.k. að þau komi fram í málinu áður en við ákveðum að hefja hvalveiðar. (Forseti hringir.) Við verðum að gera það í fullri vitund þess hverju við gætum verið að fórna með því.