Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 12:08:37 (1063)

1998-11-12 12:08:37# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[12:08]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og hefur auðvitað leitt það í ljós sem engum þurfti að koma á óvart að mjög víðtækur stuðningur er við þetta mál í sölum Alþingis. Hér hefur enginn mótmælt hugmyndinni um að hefja hvalveiðar, þvert á móti hafa allir sýnt fram á að sú krafa er réttmæt að þessar veiðar hefjist. Það er líka hárrétt ábending sem hv. þm. Pétur Blöndal kom með hér áðan að raddir andstöðunnar virðast vera að þagna á Alþingi. Það kom fyrir hér áður og fyrr að einn og einn þingmaður mótmælti þessu, en nú er staðan sú þau efnislegu rök sem menn töldu sig hafa fyrir því að hefja ekki hvalveiðar eru ekki fyrir hendi. Það var verið að burðast við það fyrir nokkrum árum að reyna að sýna fram á að ekki væri óhætt að hefja hvalveiðar. Ég tek eftir því að jafnvel einörðustu andstæðingar hvalveiða sem eru stundum að láta í sér heyra í blöðunum láta sig ekki dreyma um að skrifa á þennan hátt. Nú reyna menn að finna sér alls konar annað skjól eins og að þetta sé ekki óhætt vegna þess að við mundum granda túrismanum okkar og við mundum stuða vini okkar í vestrinu eða við mundum ekki geta flutt út afurðirnar o.s.frv. Allt þetta eru hins vegar rök af allt öðrum toga spunnin. Þess vegna held ég að við séum að koma að ákveðnum tímamótum í þessari umræðu, tímamótum sem krefjast þess að við förum að taka efnislega afstöðu til málsins.

Ríkisstjórnin gæti tekið ákvörðun um að hér hæfust hvalveiðar strax á morgun. Það krefst þess ekkert í sjálfu sér að Alþingi taki þessa afstöðu annað en það að það var Alþingi á sínum tíma sem illu heilli ákvað að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðráðsins. Við höfðum alla möguleika þá til að vera í sömu sporum og Norðmenn eru núna. En því miður, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hefði ákveðið á þeim tíma að mótmæla hvalveiðibanninu, tók Alþingi fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og knúði í gegn þessa aumingjalegu afstöðu okkar að mótmæla ekki hvalveiðibanninu sem hefur auðvitað tafið okkur býsna mikið í málinu. Nú eru hins vegar þær aðstæður uppi að okkur er ekkert að vanbúnaði í sjálfu sér að hefja veiðarnar. Engin stjórnskipunarleg rök eða nein rök sem lúta að samskiptum okkar við alþjóðasamfélagið gera það að verkum að við þurfum að bíða átekta. Þvert á móti er hægt að sýna fram á að Alþjóðahvalveiðiráðið sjálft sé að brjóta sinn eigin stofnskrársamning með því að stjórna ekki hvalveiðum á grundvelli vísindalegrar þekkingar sem er ein höfuðskylda ráðsins. Þess vegna eigum við ekkert erindi þangað inn og þess vegna liggur fyrir að ekki er hægt að vísa til þess að við séum ekki að hlíta ályktunum Alþjóðahvalveiðiráðsins og það er vegna þess að Alþjóðahvalveiðiráðið sjálft, eins og margoft hefur verið bent á, er að brjóta sinn eigin stofnskrársáttmála og það var meginástæða þess að við á sínum tíma kusum að yfirgefa Alþjóðahvalveiðiráðið.

Ástæðan fyrir því að ég kaus að koma upp aftur var ekki sú að ég vildi vera að fara neitt nánar ofan í þessi efnislegu rök. Mér finnst að þau hafi langflest komið ágætlega fram. Það sem ég vildi hins vegar aðallega draga fram er hin pólitíska staða málsins og hvernig málið stendur núna í þinginu. Stundum hefur verið reynt að ljúga því að tillögur af þessu taginu hafi komið fram mjög seint og þess vegna hafi Alþingi ekki haft möguleika á að afgreiða þetta mál. Það er ekki þannig. Alþingi hefur margoft haft möguleika á að ljúka þessu þegar þessi mál hafa verið lögð fram. Ég held að þetta sé í annað skipti sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson er 1. flm. að slíku máli, í fyrsta skipti með Matthíasi Bjarnasyni og síðan í fyrra með okkur nokkrum öðrum þingmönnum. Einnig hafa komið fram einhverjar aðrar tillögur sem ekki hafa náð fram að ganga. Málið er hins vegar komið miklu lengra núna en nokkru sinni fyrr. Það var lagt fram um miðjan vetur í fyrra. Þá tókst ekki að ljúka málinu. Hins vegar var mælt fyrir því. Það hlaut efnislega meðhöndlun við 1.umr. líkt og þetta mál er að fá núna. Það hlaut afar góðar viðtökur þingmanna. Því var vísað til sjútvn. Alþingis. Sjútvn. Alþingis hafði ekki tök á að ræða það sjálf efnislega en málið var hins vegar sent út til umsagnar ýmissa aðila. Nú þarf ekki að gera slíkt aftur. Fyrir liggur að engar forsendur hafa breyst frá því í vor. Sjútvn. Alþingis er núna með öll gögn sem hún þarf til að taka efnislega afstöðu til málsins. Við þekkjum öll rökin með og á móti hvalveiðum. Tillagan liggur þinglega fullbúin eftir þessa umræðu hjá sjútvn. Fram undan hefur nefndin sérlega gott tóm til að fara ofan í þessi mál, kalla eftir álitamálum eins og þeim sem hv. þm. Ólafur Hannibalsson vakti athygli á áðan og þeir aðilar sem skila málinu frá sér inn í Alþingi þurfa auðvitað líka að ræða. Ég tel mikilvægt að það sé gert með þeim hætti sem hv. þm. kallaði eftir og að því búnu er ekkert að vanbúnaði fyrir hv. sjútvn. Alþingis að ljúka þessu máli.

Ég ætla ekkert að fullyrða það hér og nú hvort sjútvn. Alþingis komist að einhverri annarri niðurstöðu en við tillögumenn þegar hún fer að skoða þessi mál. Það kæmi mér hins vegar afar mikið á óvart ef svo væri því ég þekki það vel til innan nefndarinnar að þar sitja menn sem hafa haft mjög ákveðnar skoðanir í þessum efnum og byggt þær örugglega á þekkingu og rökum. En staðan er sú að Alþingi getur í raun og veru ekki með neinum frambærilegum hætti komið sér undan því að afgreiða málið og gildir það jafnt um þá alþingismenn sem sitja í ríkisstjórn og okkur hina. Staðan er ekki flóknari en svo. Hin efnislega umræða málsins er núna einfaldlega komin miklu lengra en áður.

[12:15]

Í fyrra var hægt að þvæla málið þannig fyrir okkur, að vísu með mjög vandræðalegum rökum, að það fékk ekki efnislega afgreiðslu í þinginu. Í dag er það í raun og veru ekki hægt nema að menn beiti ofbeldi og ég á eftir að sjá það að menn ætli sér að fara í slíkar aðgerðir, að koma í veg fyrir að eftir 15 ára hvalveiðibann sé Alþingi Íslendinga neitað um að taka afstöðu til máls sem vitað er að nánast allir þingmenn hafa mjög stríðar og ákveðnar meiningar um og komið hefur fram í umræðum að langflestir þeirra vilja að veiðarnar hefjist. Og mál sem hér um bil allir Íslendingar, fjórir af hverjum fimm, vilja að sé afgreitt á þann veg sem tillagan kveður á um. Það eru aðeins leiðarahöfundar dagblaðanna, þessara þriggja dagblaða, Dags, Morgunblaðsins og DV sem eru í hópi hins örlitla minni hluta og mjög einkennilegt að hugsa til þess að leiðarahöfundar blaðanna skuli vera svona sérkennileg ,,representasjón`` af þjóðinni, að þessir þrír herramenn sem stjórna þar leiðarapennunum skuli vera á móti ásamt einhverjum örfáum öðrum einstaklingum íslensku þjóðarinnar, 1/5 af íslensku þjóðinni eða þar um bil, og vilji fara öðruvísi í að nýta auðlindir okkar en hér er kveðið á um.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, fyrst og fremst leggja áherslu á og vekja athygli á því að staða málsins er allt öðruvísi núna og miklu hagfelldari fyrir okkur en hún hefur verið nokkru sinni fyrr. Í ljósi þess að málinu verði vísað til hv. sjútvn. og fram undan er nefndavika þar sem gott tóm gefst til að fara ofan í þessi mál, þá á ég ákaflega erfitt með að sjá hvernig í dauðanum menn ætla sér að skauta fram hjá því að taka afstöðu til málsins á Alþingi á haust- eða vormánuðum.