Framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:15:20 (1069)

1998-11-12 15:15:20# 123. lþ. 23.21 fundur 100. mál: #A framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar# þál., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um framleiðslu íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Egill Jónsson, Svanfríður Jónasdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Halldórsdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Sigríður Jóhannesdóttir. Það eru því þingmenn úr öllum flokkum, sem sæti eiga á þingi, sem standa að tillögunni. Ég hlýt nú í þriðja skipti sem tillagan er flutt að óska eftir því við hæstv. forseta að hann sjái svo til, þar sem þáltill. hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun, jákvæðar móttökur hvar sem er þar sem leitað hefur verið eftir umsögn, að hv. landbn. ljúki umfjöllun um málið. Það þarf reyndar að fjalla örlítið um tillöguna í sjútvn. En málið er orðið mjög aðkallandi því að hagsmunaaðilar og alþjóðlegt umhverfi kalla eftir að farið verði í þessa vinnu, þ.e. að öll íslensk matvæli verði vottuð, hvort sem þau koma frá landi eða sjó.

Herra forseti. Undanfarin ár hefur verið vaxandi umræða um gæðavottun íslenskra matvæla. Vottun snýst fyrst og fremst um að framleiðslan sé umhverfisvæn, hvað varðar veiðar og vinnslu sjávarafurða, og hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða, ræktun og úrvinnslu.

Einn þeirra aðila sem staðið hefur að víðtækri kynningu varðandi þessi mál er átaksverkefnið Áform, sem unnið hefur að markaðssetningu og stefnumótun í lífrænni og vistvænni ræktun íslenskra matvæla og annarra náttúruafurða. Þess vegna er svohljóðandi þáltill. flutt, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að stefna beri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla skuli vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar fyrir árið 2001. Á framangreindum forsendum skal stefnt að því að 20% landbúnaðarframleiðslunnar verði vottuð lífræn.

Þá skal unnið að því ötullega að koma á vottunarkerfi sjávarafurða sem byggist á stjórnunarkerfi og vinnslu sjávarafurða þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi.``

Hvað skyldi vera í vændum í þessum málum? Hvað ætli það sé sem er að koma yfir íslenska þjóð? Staðan í þessum málum er þannig að æ fleiri gera sér grein fyrir því hvert stefnir. Verslunarkeðjur og erlendir viðskiptaaðilar eru að undirbúa markmið um að kaupa ekki inn eða selja vörur sem eru ekki lífrænt eða vistvænt vottaðar eða vottaðar sem matvörur sem verða til á sjálfbæran hátt.

Það gildir einu hvort um er að ræða matvæli úr sjávarfangi eða af landi. Það er komið þannig að neytendur gera æ meiri kröfur um gæði á mörkuðum, sem Íslendingar geta átt viðskipti við vegna verðlags, og þeir eru reiðubúnir að greiða verulega hærra verð fyrir upprunavottaðar afurðir.

Veltum því fyrir okkur, herra forseti, hvað er að gerast, af hverju málið er orðið svo aðkallandi. Í vor var haldin ráðstefna í Bandaríkjunum um nýtingu sjávarauðlinda, stjórnun fiskveiða og vistkerfa hafsins. Niðurstaða þeirrar ráðstefnu var eftirfarandi:

,,Vistkerfi hafsins eru í háskalegra ástandi en vísindamenn hafa talið hingað til og er jafnvel enn meira áhyggjuefni en spilling andrúmsloftsins af völdum gróðurhúsaáhrifa.``

Þessi orð eru með tilvitnun í ræðu aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Strobe Talbotts. Við Íslendingar verðum að taka eftir þegar svona orð eru látin falla.

Meginstefna Sameinuðu þjóðanna var mótuð í hafréttarsáttmálanum 1982--94 og áttu þá strandríkin að bera hvert fyrir sig ábyrgð á eigin efnahagslögsögu. Þessi stefna hefur því miður ekki skilað árangri. Þessi vandi er alþjóðlegur og verður að sjálfsögðu að leysast á þeim vettvangi með samningum og dreifingu valds og eftirliti svæðisbundinna stjórna.

Þetta þýðir að Bandaríkin vilja beinlínis koma á fót stofnun eða stofnunum sem hafi á grundvelli alþjóðasamninga heimild til vottunar fiskafurða á markaðnum, t.d. um ástand stofnsins og hversu vistvæn veiðarfæri eru notuð. Slík vottorð munu ráða verði á mörkuðum og þar með afkomu fyrirtækja og fiskveiðiþjóða. Það er sem sagt verið að boða stefnu sem varðar lífshagsmuni Íslendinga og annarra sem eru í sömu stöðu og eru eins stórkostlega háð afrakstursgetu veiðistofna í hafinu.

Herra forseti. Íslendingar verða að bregðast við. Þess vegna viðhafði ég þau orð sem ég hóf mitt mál á, að ég hvet hv. landbn. til þess að afgreiða það mál sem er í þriðja skipti flutt á þingi og búið að fá allan tímann jákvæða umfjöllun en hefur ekki verið lokið því miður, líklega vegna anna í hv. landbn. Það er svo sannarlega komin þörf fyrir að þetta mál verði afgreitt.

Við Íslendingar verðum að bregðast við, og við eigum að hefjast þegar handa um að votta framleiðslu okkar úr hafi og landi á okkar forsendum. Við höfum alla burði til að votta eigin framleiðslu á forsendum okkar og með því að fá viðurkenningu, eins og þegar er að koma, um að við séum í fararbroddi þeirra ríkja sem byggja auðlindanýtingu á grundvelli sjálfbærrar þróunar og ábyrgrar fiskveiðistjórnunar. Við eigum að vera í forustu, við höfum alla burði til þess. Því verða þeir sem vald hafa á þessum málum að bregðast skjótt við, annars vitum við ekki hvaða valdi við getum þurft að lúta eins og ég minntist á.

Nágrannalönd okkar hafa flest sett sér markmið hvað varðar framleiðslu lífrænna landbúnaðarafurða. Þau búa þó við þann ókost á mörgum svæðum að jörð er mengaðri af völdum áburðarnotkunar en þekkist hér á landi. Íslendingar geta lært margt af nágrannaþjóðunum í þessu efni en möguleikar okkar eru ekki síðri, sérstaklega vegna legu landsins. Hins vegar getur Ísland verið forustuland hvað varðar vottun sjávarafurða og við þurfum ekki að gera annað en að byggja á því stjórnkerfi sem er nú unnið eftir í landinu og er meðal þeirra fremstu í heiminum.

Þó ég segi þessi orð þá er það ekki þannig að ég gagnrýni ekki það stjórnkerfi sem við búum við. Hitt er annað mál að það stjórnkerfi hefur lagast á ýmsan hátt og þá á ég við brottkast á fiski. Hver ætli hafi getað ímyndað sér að verð á fiski, sem var sópað í sjóinn í stórum stíl fyrir þremur árum, fiski eins og skráplúru, að er komið upp í 70 kr. hvert kíló? Togarar sem hafa verið að hirða þennan afla núna hafa fengið á ársgrundvelli sem nemur heilu fullfermi af þorski í verðmætum í stað þess sem var hent í sjóinn áður. Það hefur því ýmislegt jákvætt gerst. Það er vegna þess að sjómenn hafa sjálfir tekið forustuna.

Að mínu mati getum við ekki beðið eftir því að aðrar þjóðir setji okkur leikreglur um hvernig skuli fara með sjávarafurðir heldur eigum við að setja upp vottunarkerfi á þeim grunni sem við höfum byggt upp í landinu. Það má ljóst vera, eins og ég hef áður komið að, að neytendur munu gera kröfur og æ meiri kröfur um vitneskju um uppruna þeirra matvæla sem þeir kaupa. Alveg sama hvort við erum að tala um fisk eða það sem verður til á landi.

Nú eiga sér stað miklar breytingar á aðferðum við framleiðslu matvæla. Það er vegna þessara krafna neytenda til umhverfisþátta og siðferðisþátta í umgengni við dýr svo og um aukin gæði framleiðslunnar og hollustu fæðunnar. Það er mjög mikilvægt að koma á jafnvægi milli náttúruverndarsjónarmiða, gæða með tilliti til heilsufars og góðrar meðferðar á skepnum og þjóðhagslegra sjónarmiða sem lúta að arðbærum rekstri atvinnugreinanna.

Herra forseti. Að öðru leyti vitna ég sérstaklega til þessarar tillögu til þál. á þskj. 100, 100. mál, þar sem farið er yfir grunnþættina, hvað er lífrænn landbúnaður, og rökin fyrir stuðningi við lífrænan landbúnað. Þar er farið yfir markaðsbreytingar og þróun, kostnað við umbreytingar og síðan er hluti úr skýrslu frá Evrópu þar sem menn hafa sett sér markmið og hvernig þeir ætla að vinna að þessum málum.

Ég held, herra forseti, að ástæðulaust sé að fjalla meira um málið að þessu sinni. Það hefur verið gert rækilega hér, eins og ég sagði áður, á tveimur þingum og öll gögn liggja fyrir. Það liggja fyrir allar staðreyndir um málið, hvernig þarf að vinna það. Því hvet ég eindregið til að það verði klárað.

Að svo mæltu vonast ég til að þessu máli verði vísað til umfjöllunar hv. landbn. og e.t.v. sjútvn., og að hv. landbn. ljúki sem fyrst afgreiðslu málsins vegna þess að það ríkir um það sátt. Grundvöllurinn að þeirri kröfu minni að þetta mál verði klárað er vegna þeirrar tilvitnunar sem ég bar upp og vitnaði til aðstoðarutanrrh. Bandaríkjanna, Strobe Talbott, þar sem verið er að leggja línurnar um að það eigi að segja strandríkjunum fyrir verkum um hvernig þau eigum að standa að veiðum.

Ég tel að það þurfi að afgreiða þessa tillögu, herra forseti, fyrir áramót. Ég segi til vara: Helst sem fyrst.