Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:28:39 (1070)

1998-11-12 15:28:39# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þegar umræðu um þetta mál var frestað um eittleytið hafði hæstv. viðskrh. nýlega lokið ræðu sinni. Ég verð að segja að mér fannst ræða hæstv. viðskrh. nokkuð sérkennileg og satt að segja, herra forseti, ekki vera við hæfi hæstv. viðskrh. að bjóða þinginu upp á þennan málflutning sem mér fannst vera bæði ómerkilegur og barnalegur.

Hæstv. ráðherra byrjaði mál sitt á því að reyna að draga sjálfur ályktanir af því af hverju þetta þingmál væri flutt. Hver voru rök hans? Ályktanir hans voru þrjár. Í fyrsta lagi væri tilgangurinn með þessu að koma í veg fyrir áframhaldandi tap. Í öðru lagi, sagði hæstv. ráðherra, væri tilgangur minn hugsanlega að reyna að slá pólitískar keilur, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Í þriðja lagi nefndi ráðherrann að slík úttekt gæti hugsanlega kallað á rannsókn, og á grundvelli hennar refsingu.

Það hafði vissulega ekki hvarflað að mér. Ef það er mat ráðherrans að útlátatöpin séu með þeim hætti að þarna sé um refsivert athæfi að ræða finnst mér enn frekar ástæða til þess að knýja á um slíka úttekt.

[15:30]

En ráðherrann nefndi ekki fjórða atriðið sem er mjög mikilvægt í mínum huga og er það að fá fram þá úttekt sem beðið er um af þinginu er einmitt vegna eftirlitshlutverks þingsins. Þingið er að sinna eftirlitshlutverki sínu með því að biðja um skýringar og ástæður fyrir 14 milljarða kr. útlánatapi, herra forseti, sem er sama og allur nettótekjuskattur einstaklinga á einu ári. Þetta er bara partur af því verkefni sem við hv. þm. höfum. Fyrir utan það sem ég nefndi, herra forseti, að almenningur, fólkið í landinu, skattgreiðendur sem borga fyrir þessi útlánatöp sem sum hver voru ekki einu sinni með ábyrgð eiga auðvitað rétt á því að fá skýringu á svona miklum útlánatöpum vegna þess að þegar upp er staðið er það fólkið í landinu sem greiðir þetta í formi þjónustugjalda eða skatta.

Ég nefndi ómerkilegan og barnalegan málflutning hæstv. ráðherra. Til hvers var ég að vitna þar, herra forseti? Ég var að vitna til þess að ráðherrann sagði að ég hefði bara talað um útlánatöpin eftir að ég hætti sem ráðherra, að vísu sem félmrh. því aldrei var ég viðskrh., og ég hefði bara talað um útlánatöpin 1994--1998. Þetta er rangt, herra forseti. Ef hæstv. ráðherra hefur hlustað á mál mitt, þá fór ég mjög ítarlega yfir t.d. svar sem hv. þm. Magnús Stefánsson fékk sem sýndi útlánatöp á árinu 1990--1994 þegar sú sem hér stendur var félmrh. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það alltaf mjög sérkennilegur málflutningur þegar menn verða rökþrota, þegar ég er með gagnrýni á einstaka ráðherra eða einstaka málaflokka, að þá er alltaf vitnað til ráðherratíðar minnar jafnvel þó það sé mál sem hefur ekki heyrt undir mig sem ráðherra og sagt: Ja, hv. þm. gerði ekkert í málinu þegar hún var ráðherra. Þetta er auðvitað ómerkilegur málflutningur. Hæstv. ráðherra veit að hver ríkisstjórn er fjölskipað stjórnvald og það er hver ráðherra sem ber ábyrgð á sínum málaflokki og hæstv. ráðherra veit líka að það er aldrei vel liðið þegar einstakir ráðherrar í ríkisstjórn eru að gera athugasemdir eða tillögur við aðgerðir eða aðgerðaleysi annarra ráðherra þannig að ég fór vissulega inn á þetta 1990--1994.

En mér fannst ráðherrann hætta sér ansi langt, herra forseti, þegar hann fór að tala um og bera þessi útlánatöp sem enda á skattgreiðendum saman við það að eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna hafi rýrnað um 7 milljarða í tíð þeirrar sem hér stendur sem félmrh. Bæði er þessi málflutningur rangur og fyrir utan það er samanburðurinn villandi og ekkert hægt að líkja því saman þegar saman dregst eigið fé eða þegar um er að ræða útlánatöp. Í fyrsta lagi varðandi Byggingarsjóð verkamanna, þá veit ráðherrann að hér er um niðurgreitt fjármagn að ræða. Vextir voru lágir þannig að fjármagnið var niðurgreitt og rýrnun á eigin fé er ekki sama og útlánatöp. Það var auðvitað fyrir fram vitað að ef ekki væri nægjanlegt ríkisframlag þá yrði gengið á eigið fé sjóðsins. En með hvaða hætti var það gert? Ráðherrann nefndi 7 milljarða. Það er rangt. Eigið fé rýrnaði úr 8 milljörðum niður í 3,5 milljarða. Það eru ekki nema 4--4,5 milljarðar þannig að þarna skakkar um 3 milljarða.

Ef við lítum á eigið fé í krónutölu þá eykst það frá árinu 1987 fram til ársins 1994 þegar sú sem hér stendur hætti sem ráðherra. Það jókst í krónutölu. Rýrnunin á eigin fé er fyrst og fremst til komin vegna þess að árið 1987 var eigið fé 60% af útlánum sem voru miklu minni heldur en útlánin eins og þau jukust í ráðherratíð þeirrar sem hér stendur. Rýrnunin felst fyrst og fremst í því að eigið fé sem hlutfall af útlánum, sem voru miklu meiri á þeim tíma, hafði minnkað fyrir utan það að í því sem ráðherrann las upp hafði hann ekki fyrir því að nefna það sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ráðherrann vitnaði til, en þar stendur:

,,Á undanförnum árum hefur eigið fé sjóðsins haldist nokkuð stöðugt að raungildi.``

Síðan segir að í fjárlagafrv. hafi komið fram framlög sem áttu að tryggja eigið fé sjóðsins og ýmsar aðgerðir sem gripið var til og síðan er ályktunin dregin: ,,Ofangreindar aðgerðir hafa líklega haft nokkur áhrif á hvað eiginfjárstaða sjóðsins hélst nokkurn veginn í horfinu fram til ársins 1994.``

Og af því að við erum á árinu 1998 þá er athyglisvert að í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég bað Ríkisendurskoðun um út af villandi svörum hæstv. félmrh. á sínum tíma, þá fer Ríkisendurskoðun inn í hver sé eiginfjárstaða Byggingarsjóðs verkamanna nú. Og þar segir, með leyfi forseta:

,,Að óbreyttu mun þessi staða`` --- og þá er verið að geta um hvað ríkisframlögin hafa minnkað í tíð framsóknarráðherranna --- ,,leiða til þess að eigið fé sjóðsins þrýtur þegar til lengri tíma er litið.``

Hvorki meira né minna. Og af því að ráðherrann hætti sér út í það að fara að tala um og bera saman Byggingarsjóð verkamanna og bankana þá ætla ég að vitna til talna frá Ríkisendurskoðun þegar sú sem hér stendur tók við félmrn. á sínum tíma og var að gera tilraun til að losa þjóðina út úr biðraðakerfinu, 86-kerfinu, af því að það stefndi í gjaldþrot. Hver var þá dómur Ríkisendurskoðunar? Ég ætla að leyfa mér að lesa hann fyrst ráðherrann er að opna þessa umræðu, herra forseti. Þar er sagt um báða sjóðina, þegar sú sem hér stendur tekur við: ,,Hætti sjóðirnir strax útlánastarfsemi sinni jafnframt því sem framlög ríkissjóðs féllu niður þyrfti í árslok árið 2028 að leggja sjóðnum til um 62 milljarða kr.`` Síðan segir: ,,Haldi sjóðirnir áfram starfsemi sinni að óbreyttu frá því sem nú er til ársloka árið 2028 jafnframt því sem framlög A-hluta ríkissjóðs haldist óbreytt frá því sem þau eru í ár og þörf sjóðanna fyrir lánsfé verður það sama allan tímann, mun þá vanta um 400 milljarða kr. til þess að geta gert að fullu upp við lánardrottna sína í árslok 2028.``

Síðan er talað um að forsendurnar í 86-kerfinu hafi brugðist og er dregin ályktun af niðurstöðu varðandi eigið fé og þar segir, með leyfi forseta, og við skulum bara halda því til haga í þessari umræðu fyrst hæstv. ráðherra hætti sér út í að bera saman tiltölulega litla rýrnun á eigin fé Byggingarsjóðs verkamanna sem á sér sína skýringu sem ég hef farið inn á, þá segir Ríkisendurskoðun, með leyfi forseta:

,,Þá sýna útreikningar að eigið fé gangi til þurrðar 1996.`` --- Þetta var Byggingarsjóður ríkisins út af 86-kerfinu. --- ,,Eftir það hlaðast upp skuldir vegna aukinnar lántöku til að standa undir útlánum að viðbættum vaxtamun og rekstrarkostnaði þar sem ekki er neitt eigið fé til staðar til að ganga í. Eigið fé í árslok 2028 verður neikvætt um 641 milljarð kr.``

Berum það saman við málflutning ráðherrans áðan fyrst honum fannst það passa að bera þetta á borð eins og hann gerði. Og svo segir í lokin: ,,Til að mæta árlegum rekstrarhalla þyrftu framlög ríkissjóðs að vera að meðaltali rétt rúmir 7 milljarðar kr. á ári.`` Hér er verið að lýsa kerfinu sem hv. framsóknarmenn vildu viðhalda. Mér fannst nauðsynlegt að draga þetta fram, herra forseti.

Hér er dómurinn varðandi Byggingarsjóð ríkisins á árinu 1995 þegar sú sem hér stendur hætti sem ráðherra, en þá segir: ,,Að mati Ríkisendurskoðunar bendir fátt til annars en að eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins muni varðveitast á næstu árum og staða sjóðsins halda traust.`` Þetta er eftir upptöku húsbréfakerfisins og berum það saman við það sem ég sagði áðan um 640 milljarða kr. halla á nokkrum árum ef 86-kerfið hefði haldist. Þetta fannst mér nauðsynlegt að draga hér fram, herra forseti, þó að ég verði að viðurkenna að við séum komin nokkuð út fyrir þann málflutning sem þessi tillaga ætti að gefa tilefni til, en ráðherrann hagaði orðum sínum þannig að nauðsynlegt var að draga þetta fram.

Ráðherrann reyndi ekkert að eyða þeim tíma sem hann hafði áðan í að útskýra það sem hann sagði við þjóðina. Hann sagði að 14 milljarða útlántöp væru eðlileg og fullyrti að það væri þumalputtaregla hjá bönkum um allan heim að taka þá áhættu að tapa 1% af útlánum. En þetta var ekki 1% af útlánum. Það sem ég sýndi fram á í málflutningi mínum t.d. varðandi Landsbanka Íslands var að á árunum 1995, 1996 og 1997 eru útlánatöpin 2,2--2,5% af heildarútlánum. Ekki 1% eins og ráðherrann sagði að væri eðlilegt. Fyrst þetta eru 2--2,5% miklu meira en sú þumalputtaregla sem ráðherrann nefndi, þá spyr ég ráðherrann: Er þá ekki ærin ástæða til að láta fara fram þá úttekt sem hér er óskað eftir?

Ég vil líka taka fram út af orðum ráðherrans að ég veittist ekki að hæstv. ráðherra. Ég sagði ekki við hæstv. ráðherra að hann bæri ábyrgð á þessum útlánatöpum eins og hann sagði að ég bæri ábyrgð á því að eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna hefði rýrnað. Ég sagði að þeir sem héldu um útlánastefnuna, sem væri bankastjórn og bankaráðið, bæru auðvitað ábyrgðina. Og það er náttúrlega með sama hætti og húsnæðismálastjórn sem bar ábyrgð á útlánunum þar.

Ég vil líka halda því til haga af því að ráðherrann fullyrti með tilvísun í hvað lagt hefði verið í afskriftarsjóð, að útlánatöp hefðu verið miklu meiri á árunum 1990--1994 og sagði að 12 milljarðar hefðu verið lagðir í afskriftarsjóð á þeim tíma en á árunum 1995--1997 minnir mig að ráðherrann hafi nefnt 3 milljarða. Það er ekki hvað er lagt í afskriftarsjóð sem skiptir máli, heldur endanleg útlánatöp sem lenda á skattgreiðendum. Ég var með tölur máli mínu til stuðnings í því efni að útlánatöp á árunum 1990--1994 eru 228 millj. 1990, 1.271 millj. 1991 og 1.597 millj. 1992 á meðan á árunum 1993--1997 eru þau 2,2--3,1 milljarður og það þó í betra árferði fyrir atvinnulífið en var á þeim tíma sem ég nefndi varðandi árin 1990--1994.

Ráðherrann nefndi, og þá var hann að rökstyðja að óþarfi væri að fara í þessa úttekt á útlánatöpum og margt hefði gerst síðan. Það hefði orðið formbreyting á bönkunum. Rétt er það. Starfsreglur hefðu breyst, nýir stjórnendur komið til og þjóðin hefði orðið trú á fyrirtækjum. Það má vera að allt þetta sé satt og rétt að þetta séu betri stjórnendur og komnar séu starfsreglur. Formbreytingin er staðreynd. Engu að síður liggur fyrir og er óumbreytanlegt að það voru útlánatöp upp á 14 milljarða. Og hvað eigum við að gera? Við getum aldrei fengið þetta til baka. En við eigum að læra af reynslunni hvað fór úrskeiðis. Vissulega er skýringin sem ég nefndi og hæstv. ráðherra gerði einnig að atvinnulífið stóð tæpt þá, einkum í sjávarútvegi. En það réttlætti það ekki að stjórnendur bankanna kæmu sér hjá því að taka tryggingar fyrir útlánum eins og ég sýndi fram á í þó nokkuð mörgum tilvikum sem birtist í svari ráðherrans áðan. Þannig að allt það sem ég hef sagt og allt sem ráðherrann sagði í ræðu sinni gerir það enn þá nauðsynlegra en það var áður en ég lagði fram þessa tillögu að slík úttekt fari fram og ég vona að hæstv. ráðherra sjái að sér og styðji þingið í að fá slíka úttekt.