Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:44:10 (1071)

1998-11-12 15:44:10# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór yfir nokkrar af þeim spurningum sem ég velti upp um hver væri tilgangurinn með tillöguflutningnum. Í þeim spurningum fólust engar fullyrðingar af minni hálfu. Fyrst og fremst voru það spurningar. Ég velti því fyrir mér af hverju hv. þm. væri að leggja fram tillögu sem þessa. Ein af þeim spurningum sem ég velti upp var einmitt hvort tilgangurinn væri sá að fara út í rannsóknir til að hv. þm. næði fram einhverjum refsingum. Allur málflutningur hv. þm. í þessum bankamálum yfirleitt hefur byggst á því að það væri refsigleðin sem væri yfirvofandi og væri það sem koma skyldi.

Ég hef ekkert á móti því að þessi tillaga fari til skoðunar í nefnd og það verði metið þar hvort rétt sé að ráðast í slíkar rannsóknir eins og þarna er gert ráð fyrir. Það sem ég var hins vegar að benda á og segja er að það er gjörbreytt landslag frá því sem var á sínum tíma þegar bankarnir voru reknir í öðru formi en þeir eru reknir í dag, þegar aðrir stjórnendur voru og nýjasta útboð í Landsbanka og núna í Fjárfestingarbankanum muni staðfesta það að þjóðin hefur trú á þessum stofnunum. Slíkur málflutningur er því ekki til að styrkja þær stoðir sem þurfa að vera undir þessum fyrirtækjum í eigu þjóðarinnar til að þjóðin fái sem mesta fjármuni fyrir sínar eignir. Hv. þm. er að mínu viti að skaða slíka hluti með málflutningi sem þessum til þess að halda vakandi einhverri óvissu í kringum þessi fyrirtæki og það er tilgangur tillögunnar. Og að saka mig síðan um að ég hafi farið að velta upp samanburði á því hver væri mismunur á milli þeirra sjóða sem hv. þm. nefndi eins og Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins og bankanna. Það var hv. þm. sjálf sem við fyrri umræðu um þetta mál fór að bera saman og ég kom þá og sagði: Það er óréttmætt að bera slíka hluti saman, annars vegar útlánatöp bankanna og hins vegar útlánatöp sjóðanna einfaldlega vegna þess að bæði Byggingarsjóður verkamanna og Byggingarsjóður ríkisins hafa fyrsta veðrétt í öllum þeim eignum sem þeir taka og lána út á á sama tíma og bankarnir eru að taka út á eignir og sjálfskuldarábyrgðir og taka þar af leiðandi miklu meiri áhættu.

[15:45]

Það var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sjálf sem við framsögu sína um þetta mál úr þessum ræðustól vakti sérstaka athygli á því hvernig þessu væri háttað og ég sagði að það væri ómerkilegur málflutningur að bera slíka hluti saman. Það var það sem ég var að leiðrétta. Ég ætla þess vegna að halda því enn til streitu og vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1996 þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Alvarleg staða blasir á hinn bóginn við Byggingarsjóði verkamanna, en útreikningar benda til þess að sjóðinn vanti um 4--5 milljarða kr. til að standa undir skuldbindingum ... Útreikningar benda jafnframt til þess að eigið fé sjóðsins verði upp urið skömmu eftir næstu aldamót miðað við að útlán sjóðsins yrði hætt.``

Það var þessi mynd sem ég var að benda á frá 1986 þegar eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna voru 9 milljarðar kr. Þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem gumar af því húsnæðiskerfi sem hún hafi byggt upp, fór frá var eigið fé sjóðsins komið niður í kringum 3 milljarða kr. Á þessum tíma hefur sjóðurinn með öðrum orðum tapað 6 milljörðum kr. af eigin fé. Eigið fé er ekkert annað en annaðhvort sá hagnaður sem verður til eða ávöxtun af því fé sem í sjóðnum er. Það sem gerðist og hefur gerst á þessum tíma er að gengið var á eigið fé sjóðsins með sífelldum töpum. Þess vegna varð að breyta þessu fyrirkomulagi og það var hlutverk núverandi félmrh. að breyta um stefnu í húsnæðismálum enda staðfest í skýrslu Ríkisendurskoðunar að héldu menn áfram á sömu braut, þá gæti sjóðurinn ekki staðið undir sínum skuldbindingum. Það var þetta sem ég var að benda á áðan.

Ég ætla þá aftur að koma að því --- sem ég heyri á hv. þm. að enginn ágreiningur er um milli okkar --- hver sé ástæðan fyrir því að dregið hefur núna úr útlánatöpunum. Það er betra ástand í atvinnulífinu (JóhS: Það hefur ekki breyst.) og betra ástand heimilanna. Kaupmáttur heimilanna hefur verið að stóraukast. Þegar hv. þm. segir að það hafi ekki breyst þá vitna ég aftur í skýrslu Ríkisendurskoðunar en oft og tíðum er --- og það veit hv. þm. --- beint samband á milli þess annars vegar sem lagt er í afskriftarsjóðina og hins vegar sem endanlegar afskriftir verða þó að ekki sé hægt að koma því nákvæmlega heim og saman miðað við hvert ár og bera saman.

Árið 1991 er lagt 1,22% í afskriftarsjóð Landsbankans. Árið 1992 4,67%, 1993 2,26%, 2,3% 1994. Hvað gerist 1995? Fer niður í 1,45% og lækkar enn 1996 niður í 1,3% og lækkar enn 1997 niður í 1,02%. Sama hreyfing er nákvæmlega í Búnaðarbankanum nema það að Búnaðarbankinn er kominn niður í afskriftarsjóð 0,84% 1997. Sama er að gerast í Íslandsbanka og sama er að gerast í sparisjóðunum. Með öðrum orðum, meginhluti tapsins sem verður er á árunum frá 1990 til ársins 1995 vegna þess að þá var atvinnulífið á heljarþröm og kaupmáttur launa í landinu hafði hríðfallið um 20%. Fólkið og fyrirtækin gátu ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Þetta er sá tími sem hv. þm., fyrrv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir, er að guma af. Það er ekki hægt að guma af þessum tíma.

Breytingin sem núna hefur orðið er sú að kaupmáttur heimilanna mun vaxa frá 1995 til ársins 2000 um sennilega 23--25%. Flest fyrirtæki í landinu á þessum tíma munu verða rekin með bullandi hagnaði og það þýðir að þessir aðilar eiga auðveldara með að standa undir skuldbindingum sínum á þessum tíma en áður var. Þetta er meginástæðan fyrir því að núna hefur dregið úr afskriftaframlögum í afskriftarsjóði bankanna og þar af leiðandi hefur tap viðkomandi banka líka snarminnkað sem betur fer. Ég vonast til þess að við séum bæði sammála um að þetta þýði að við séum á réttri leið í þessum efnum. Ég held að þessar tölur tali alveg sínu máli um stöðuna í atvinnulífinu, hjá heimilunum og í töpum bankanna sem allt hangir nákvæmlega saman. Svo geta menn haldið áfram þessum leik og þeim tortryggnislegu ummælum sem hv. þm. er sífellt með um bankakerfið. Það er sjálfsagt að halda þeim leik áfram fyrir þá sem vilja reyna að verðfella þær eignir sem þjóðin á og er núna að reyna að koma í verð til þess að draga úr skuldum sínum og lækka vaxtakostnaðinn. Það er megintilgangurinn með því að selja þessar eignir að ná fram lækkandi skuldum ríkisins, lægri vaxtakostnaði í heild sinni en til þess að við getum það þurfum við að fá sem mest fyrir þessi fyrirtæki og það gera menn ekki með tortryggilegri umræðu eins og hér er í gangi um starfsemi þessara fyrirtækja.