Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:58:56 (1075)

1998-11-12 15:58:56# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi sagt það við 2. umr. málsins að ég hef ekkert á móti því að málið verði tekið og skoðað í hv. efh.- og viðskn., ég tel það vera eðlilegt. (JóhS: Þó ekki væri.) Hins vegar ítreka ég það sem ég sagði áðan að ég er ekki viss um að það hafi þann tilgang sem hv. þm. ætlast til að málið hafi einfaldlega vegna þess að öllu þessu umhverfi hefur verið breytt. Formi ríkisviðskiptabankanna hefur verið breytt yfir í hlutafélög. Ábyrgð stjórnenda, ábyrgð bankaráðanna á bönkunum hefur verið aukin. Útlánaeftirlit viðkomandi fyrirtækja hefur verið styrkt. Innra eftirlit þessara fyrirtækja hefur verið styrkt. (JóhS: Það breytir ekki fortíðinni ...) Það er alveg hárrétt, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, það breytir ekki fortíðinni. En ef menn ætla alltaf að lifa í fortíðinni og geta aldrei horft fram á veg þá komast menn ekkert áfram og fortíðin hefur svo lítið með þetta að gera þegar öllu er búið að breyta sem ég er hér að lýsa. Fyrir utan það að við ætlum um áramótin að setja á stofn nýtt eftirlit með fjármálastofnunum, öflugra og sterkara en nokkru sinni fyrr, sameinað bankaeftirlit og tryggingaeftirlit sem á m.a. að hafa þann tilgang að auka enn eftirlitið með þessum stofnunum þannig að tryggt sé að minni fjármunir tapist en hafa verið að tapast á undanförnum árum. Og ekki síður það að treysta og styrkja stöðu þeirra sem eiga fjármuni inni í þessum fjármálafyrirtækjum þannig að það sé engin hætta á því að illa fari í rekstri þeirra og þeir einstaklingar sem eiga þar stórkostlega peninga inni tapi ekki þeim peningum.

Ef menn vilja hins vegar bara grafa í fortíðinni og geta aldrei litið fram á veg, þá verða menn bara því miður að fá að vera þar en það mun engu skila til betri bankastarfsemi.