Þingfararkaup

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 16:32:06 (1081)

1998-11-12 16:32:06# 123. lþ. 23.22 fundur 104. mál: #A þingfararkaup# (laun, endurgreiðsla kostnaðar o.fl.) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason beindi til mín nokkrum spurningum varðandi prófkjör. Ég tel að prófkjör eigi mikinn rétt á sér. Það er nauðsynlegt að fá fram vilja kjósenda um uppröðun á lista flokkanna. Hins vegar hafa komið í ljós miklir vankantar í sambandi við prófkjörin. Einn aðalvankanturinn er þessi mikla auglýsingaherferð í kringum prófkjörin. Það liggur við að hægt sé að kaupa sér sæti á listum. Ef einhver kæmi til landsins, vildi eyða í það 20 millj. og byrjaði tveimur árum fyrir kosningar að vinna kerfisbundið að því að koma sér á þing, þá væri það mögulegt þótt frambjóðandinn hefði ekki þá mannkosti sem til er ætlast. Hann gæti því keypt sér atkvæði og það er mikill ókostur við prófkjörin.

Það sem hægt væri að gera er að takmarka kostnaðinn við prófkjörin og gera þann kostnað opinberan. Þetta gæti hver flokkur ákveðið fyrir sig. En á þessu er sá annmarki að kostnaðurinn er oft og tíðum falinn. Oft og tíðum getur frambjóðandinn ekki gert að því þótt eitthvert fyrirtæki úti í bæ tæki upp á því að auglýsa hann. Hann gæti reyndar bannað það en fyrirtækið sagt að honum komi það bara ekkert við og haldið áfram að auglýsa manninn.

Það eru ákveðin vandkvæði á að setja efri mörk á kostnaðinn. Ég held samt sem áður að menn ættu að taka það ráð og mér þætti ekkert óeðlilegt að menn settu efri mörk upp á 500 þús. kr. í heildarkostnað við prófkjörin og þá yrði þetta á miklu lægri nótum heldur en er í dag. Þetta gæti verið ein lausn.

Varðandi Dagsbrúnartaxtann er ég hræddur um að það verði heldur leiðigjarnt að telja mínúturnar sem þingmenn eru á fundum o.s.frv.