Efnahagsráðstafanir í kjölfar haustskýrslu Seðlabankans

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:05:11 (1083)

1998-11-16 15:05:11# 123. lþ. 24.1 fundur 102#B efnahagsráðstafanir í kjölfar haustskýrslu Seðlabankans# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., sem er yfirmaður efnahagsmála ríkisstjórnarinnar, hvort og til hvaða efnahagsráðstafana ríkisstjórn hans hyggist grípa til í tilefni af haustskýrslu Seðlabankans. Skýrslan var birt í síðustu viku og þar koma fram fjölmörg varnaðarorð sem brýnt er að bregðast við.

Í fyrsta lagi telur bankinn að mikill og vaxandi viðskiptahalli sé alvarlegasti veikleiki í þjóðarbúinu. Hann stefnir í 40 milljarða og er þetta mesti halli í 15 ár.

Í öðru lagi er bent á að hagvöxtur er keyrður áfram af einkaneyslu og skuldir heimilanna hafa hækkað um 43 milljarða á þessu ári.

Í þriðja lagi er ónógur sparnaður og verður hann við sögulegt lágmark á þessu og næsta ári.

Í fjórða lagi er mikill vöxtur útlána bankakerfisins sérstakt áhyggjuefni Seðlabankans vegna hættu á verðbólgu og aukins viðskiptahalla.

Í fimmta lagi er hækkandi raungengi farið að þrengja að ýmsum atvinnuvegum.

Það er því ljóst, herra forseti, að staðan er hættulegri en áður var talið. Ég benti á sömu atriði og Seðlabankinn gerir nú í umræðu um fjárlagafrv. Ytri aðstæður eins og hátt verð á sjávarvörum erlendis og lágt heimsmarkaðsverð á olíu hafa stuðlað að hinni kröftugu uppsveiflu en þar geta hlutir fljótt breyst. Seðlabankinn segir því að dragi ekki úr viðskiptahallanum á næstunni geti það grafið undan fastgengisstefnunni og langtímastöðugleika. Ef til vill ætlar stjórnin að láta kyrrt liggja fram yfir kosningar. Það væri hins vegar að mínu mati óábyrgt og verðbólgueldurinn sem kraumar í hagkerfinu getur hvenær sem er orðið að báli ef haldið er áfram með lausatök á efnahagsstjórninni við þessar aðstæður. Í nágrannalöndunum hefðu viðvaranir seðlabanka kallað á viðbrögð og aðgerðir og því er spurning mín til hæstv. forsrh.: Hyggst ríkisstjórn hans grípa til sérstakra ráðstafana í efnahagsmálum í kjölfar varnaðarorða Seðlabanka Íslands í haustskýrslu hans?