Efnahagsráðstafanir í kjölfar haustskýrslu Seðlabankans

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:07:31 (1084)

1998-11-16 15:07:31# 123. lþ. 24.1 fundur 102#B efnahagsráðstafanir í kjölfar haustskýrslu Seðlabankans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel ekki að haustskýrsla Seðlabankans sem slík kalli á sérstakar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins. Ég tel augljóst að sú efnahagsstefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt og lýsir sér m.a. í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og í aðgerðum til að hvetja til aukins sparnaðar í landinu sé mjög til þess fallin að halda í horfi og tryggja áframhaldandi efnahagsstöðugleika í landinu. Við vissum að viðskiptahallinn á þessu ári yrði mikill. Við vissum líka að að verulegum hluta er hann byggður á miklum fjárfestingum sem eiga sér stað í landinu, fjárfestingum sem síðar munu skila sér í auknum tekjum. Við vitum að vísu líka að hluti hans er byggður á verulega mikilli neyslu sem kemur í kjölfar þess að þjóðin hefur búið við kyrrstöðu og þegar vænkast hagur í efnahagsmálum er ekkert óeðlilegt þó að slíkur kippur eigi sér stað. Við vitum líka að allir helstu sérfræðingar spá því að úr þessum viðskiptahalla muni draga.

Eitt er ég þó sannfærður um að sá hv. þm. sem kom hér upp áðan hefur hvergi komið nálægt því að semja frægan málefnasamning vinstri flokkanna vegna þess að allt sem þar var gert gekk í þveröfuga átt við það sem ég er að lýsa núna og stefndi að algerri sprengingu eins og menn vita í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég býst því við að hv. þm. hafi liðið illa meðan einhverjir settust niður og settu saman slíkan samsetning eins og þar var kynntur.