Staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:22:37 (1096)

1998-11-16 15:22:37# 123. lþ. 24.1 fundur 105#B staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessa fsp. Ég var á málræktarþingi sl. laugardag og hlýddi á kynningu á þessari könnun og niðurstöðum hennar. Að vísu var tekið fram af kynnendum að það væru miklir fyrirvarar um að þessi könnun gæfi rétta mynd af því sem er í fjölmiðlunum, miðað við hvernig að könnuninni var staðið. En þau dæmi sem voru tekin sýndu að vissulega er þörf á því að gera átak til þess að bæta meðferð íslenskrar tungu í talmiðlum, eins og menn vilja gjarnan kalla ljósvakamiðlana og kom fram á þessu málræktarþingi að eðlilegt væri að tala um talmiðla þegar menn fjalla um hljóðvarp og sjónvarp.

Til hvaða úrræða er best að grípa til gagnráðstafana og tryggja að menn vandi málfar sitt í þessum miðlum er ekki auðvelt að sjá í fljótu bragði. En ég er viss um að í þeim miðlum þar sem metnaður er til þess að starfsmennirnir vandi íslenska tungu er hægt að gera verulegt átak með því að hrinda slíkum vilja fram í skipulagðri starfsmannastefnu.

Einnig kom fram á málræktarþinginu að mikill munur er eftir því hvort um er að ræða viðmælendur í þáttum eða stjórnendur þátta og það er vafalaust mjög erfitt að setja reglur um viðmælendur í þáttum, að þeir gangist undir íslenskupróf eða sýni hæfni sína í íslensku áður en þeir fara í þessa talmiðla. En það þarf að gera lágmarkskröfu til starfsmanna á þessum miðlum að þeir kunni íslensku og fari með íslensku og noti íslensku í störfum sínum með þeim hætti að öllum sé skiljanlegt því að það kom einnig fram að margt af því sem talað væri í sumum þessara miðla væri þess eðlis að mjög erfitt væri að skilja hvað fólk væri að fara þegar það segði þar hluti sem ættu að vera til kynningar á einhverju efni.