Staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:26:33 (1098)

1998-11-16 15:26:33# 123. lþ. 24.1 fundur 105#B staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Sjálfsagt er að kanna þetta og vafalaust geta nemendur í hagnýtri fjölmiðlun lagt sitt af mörkum til þess að fylgja rannsókn sinni eftir. Útvarpsréttarnefnd, sem stóð að málræktarþinginu með Íslenskri málnefnd á laugardaginn, mun vafalaust taka þennan þátt til skoðunar þegar hún metur störf sín þegar fram líða stundir. Ég á von á því að menn muni einnig ræða þetta á hinu háa Alþingi þegar frv. til nýrra útvarpslaga kemur til umræðu og menn skoða þau ákvæði sem þar er að finna um eflingu íslenskrar tungu í öllum útvarpsstöðvum. Sjálfur starfaði ég á fjölmiðli þar sem menn gátu ekki fengið vinnu nema ganga undir próf í íslensku og höfðu einnig sýnt vissa grunnþekkingu á íslensku samfélagi. Ég veit að hjá sumum útvarpsstöðvum gilda þær reglur að menn eru ráðnir eftir að hafa gengist undir slík próf.

En það er mikilvægt að við höldum vöku okkar í þessu efni og sérstaklega vil ég vekja athygli á því nú á degi íslenskrar tungu að í öllum grunnskólum landsins er nú lögð meiri áhersla en áður á upplestur og hið talaða mál og einmitt í dag mun hefjast ný lestararkeppni í öllum grunnskólum landsins sem hvetur til þess að menn vandi sig í hinu talaða máli.