Skaðabótalög

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:55:32 (1100)

1998-11-16 15:55:32# 123. lþ. 24.25 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:55]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er fram komið. Eftir því hefur lengi verið beðið og menn vita að það hefur tekið mjög langan tíma að undirbúa heildarendurskoðun á skaðabótalögunum eða allt frá árinu 1993. Hér er vissulega flókið og vandasamt mál á ferðinni, hér er kannski um flóknasta svið lögfræðinnar að ræða, skaðabótaréttinn, og málið því ekki einfalt.

Auðvitað er grundvallaratriði eins og hæstv. ráðherra kom inn á, og það tek ég svo sannarlega undir, að tjónþolar fái sanngjarnar og eðlilegar bætur. Kannski voru á sínum tíma skiptar skoðanir um hvort svo væri. Deildar meiningar voru t.d. um ákvörðun lágmarkslauna til viðmiðunar við bótaútreikning og um afmörkun bótaréttar við aldur fyrir varanlega örorku. Eins var álitamál hvort sú viðmiðun sem notuð var um framtíðartekjur og útreikning bóta þar að lútandi viðhéldi launamisrétti kynjanna. Jafnframt töldu menn athugunarefni hvort tillögurnar mundu leiða til ofbóta í ákveðnum tilvikum. Auk þessa voru skiptar skoðanir um við hvaða ávöxtun ætti að miða glataðar framtíðartekjur við líkamstjón. Síðast en ekki síst var deilt um áhrif aukins bótaréttar á iðgjöld trygginganna.

Ég held að þetta séu höfuðatriðin sem allshn. fjallaði um á sínum tíma. Af þessu er ljóst að málið var ekki einfalt viðfangs og allshn. þurfti því að viðhafa nokkuð óvanaleg vinnubrögð við meðferð þessa frv. þegar það kom fram á sínum tíma. Ein meginbreytingin sem gerð var 1996 fól í sér að margföldunarstuðullinn var hækkaður og lágmark miskastigs var lækkað úr 15 í 10% sem vissulega voru breytingar til bóta.

Mér hefur ekki, herra forseti, unnist tími til að fara yfir þær breytingar sem frv. þetta felur í sér frá því við fjölluðum síðast um þetta mál eða hvernig tekið hefur verið á þeim ágreiningsatriðum sem uppi voru á sínum tíma. Ég vil því í megindráttum geyma mér að láta uppi skoðanir mínar á því þar til síðar. Ég á sæti í allshn. sem fær málið til umfjöllunar og m.a. er ljóst að mjög vel þarf að kynna sér álit nefndarinnar sem greinilega var ekki einróma í sinni afstöðu. Einn af þremur nefndarmönnum skilaði séráliti sem hæstv. ráðherra fór nú ekki yfir. Ég hef ekki haft tíma til að kynna mér það til hlítar en við snögga yfirferð á málinu virðist mér dregið úr bótarétti, a.m.k. í ákveðnum tilvikum frá því sem var í fyrra frv. Með því er ég ekki að segja að það geti ekki átt rétt á sér en auðvitað þarf að skoða það vandlega í allshn., t.d. eitt atriðið sem komið var inn á, hvort hér væri um ofbætur að ræða í ákveðnum tilvikum.

Það er vissulega rétt að meginatriðið er að tjónþolar fái sanngjarnar og eðlilegar bætur en áður en Alþingi afgreiðir málið verður að skoða vandlega hvaða áhrif megi ætla að aukinn bótaréttur hafi á iðgjaldagreiðslur. Mér fannst, herra forseti, hæstv. dómsmrh. skauta nokkuð léttilega yfir það og ekki hafa tiltakanlega miklar áhyggjur af áhrifum ákvæðanna, sem vissulega eru réttarbætur, á iðgjaldagreiðslurnar. Það var einmitt eitt þeirra atriða sem við fórum mjög ítarlega yfir í nefndinni og hefur valdið miklum deilum milli tryggingafélaganna og Vátryggingaeftirlitsins og m.a. orsakað þann mikla drátt sem orðið hefur á framlagningu þessa frv. Því hafði ég nú ætlað að hæstv. dómsmrh. mundi gera þessu betur skil í framsögu. Ef það er rétt eins og fram hefur komið, t.d. í meðförum nefndarinnar, og það var þá auðvitað miðað við bótaréttinn eins og hann var þá í frv., að þetta orsakaði um 30--50% hækkun á iðgjöldum trygginganna þá erum við að tala um veruleg útgjöld fyrir heimilin. Ég hefði haldið, herra forseti, að það væri varla forsvaranlegt fyrir þingið að afgreiða málið án þess að þingið hefði a.m.k. einhverjar hugmyndir um áhrif þessa á iðgjaldagreiðslurnar

[16:00]

Ég vil t.d. rifja upp að 1996, þegar frv. um þetta efni var lagt fyrir Alþingi, treysti allshn. sér ekki til að afgreiða málið þar sem ýmsar forsendur lágu ekki fyrir til að taka afstöðu til þess, eins og hvaða áhrif breyttur bótaréttur hefði á iðgjöld tryggingafélaganna. Upplýsingar sem fram komu í nefndinni voru vægast sagt mjög misvísandi, annars vegar frá tryggingafélögunum og hins vegar frá Vátryggingaeftirlitinu um áhrif á tjónakostnað bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna, og töldu t.d. tryggingafélögin að þær breytingar sem þá lágu fyrir mundu leiða til 50% hækkunar á iðgjöldum. Aftur á móti hélt Vátryggingaeftirlitið því fram að ekki væri þörf á neinni verulegri hækkun á iðgjöldum. Menn sjá því á þessu hvað menn greindi mikið á um iðgjöldin.

Mikið var fjallað um bótasjóðina, svo ég rifji það upp, þ.e. bótastjóði tryggingafélaganna, en á þeim tíma var áætlað að um 11 milljarðar væru í bótasjóðunum. Tryggingafélögin héldu því fram að þeir 11 milljarðar sem voru í sjóðunum væru eingöngu skuldbindingar vegna tjóna sem ekki væri búið að ganga frá en Vátryggingaeftirlitið hélt því aftur á móti fram að a.m.k. 3--4 milljarðar væru í þessum bótasjóðum sem hægt væri að nýta til að mæta kostnaði sem hlytist af tillögum sem lágu fyrir um breytingu á skaðabótalögum. Menn deildu því ekki einungis um áhrifin, hvort þau yrðu nokkur, veruleg, lítil eða mjög mikil á iðgjöldin heldur hvort einhver verulegur afgangur væri í bótasjóðum tryggingafélaganna til þess að standa undir þessum breytingum og aukna rétti. Ég hef ekki lesið frv. ítarlega og vel má vera að eitthvað sé um þetta að finna í greinargerðinni. Ég veit ekki til þess að við séum nokkru nær núna tveimur árum seinna en við vorum í allshn. á sínum tíma þegar við fjölluðum mikið um þetta mál og áttum marga og ítarlega fundi með fulltrúum tryggingafélaganna og Vátryggingaeftirlitsins. Og það er mjög miður ef svo væri.

Mér finnst að hæstv. dómsmrh. hefði átt að eyða nokkrum orðum í þetta sem er kannski ein meginástæða þess að málið hefur tafist allan þennan tíma. Þetta sýnir ljóslega hve vandi allshn. var mikill á sínum tíma og hve nauðsynlegt var að greiða úr þessu máli og fá réttar forsendur til að hægt væri að leiða málið farsællega til lykta á Alþingi.

Þessi ágreiningur varð til þess að allshn. lagði til að skipuð yrði nefnd til að skoða tiltekin atriði sem ágreiningur var um. Þetta er vissulega ekki eini ágreiningurinn eða eina deiluefnið og fór ég yfir það í upphafi máls míns. Nefndin átti að ljúka störfum 1997, en þá átti málið að koma aftur til þingsins. Nefndinni sem ráðherra skipaði tókst ekki að ljúka málinu vegna tregðu tryggingafélaganna til að veita henni nauðsynlegar upplýsingar sem hún gæti byggt niðurstöðu sína á, m.a. um það hvort nauðsynlegt væri að hækka iðgjöldin hjá tryggingafélögunum vegna breyttra bótagreiðslna.

Hæstv. dómsmrh. lagði því fyrir Alþingi frv. þess efnis að nefndin fengi enn ársfrest til þess að ljúka málinu. Við meðferð þess frv. í allshn. lýsti endurskoðunarnefndin því yfir að fengi hún þær upplýsingar frá nefndinni sem hún var að kalla eftir frá tryggingafélögunum til þess að geta haft einhverjar forsendur til að meta iðgjöldin, gæti hún á stuttum tíma lokið sínu verki. En málin fóru á þann veg að bæði hæstv. dómsmrh. og hæstv. viðskrh. þurftu að blanda sér í málið til þess að fá Vátryggingaeftirlitið og tryggingafélögin til að veita umbeðnar upplýsingar. En allt virðist hafa komið fyrir ekki, ef marka má það sem fram kemur í grg. með þessu frv.

Ég sagði á sínum tíma þegar við ræddum þetta á síðasta þingi, að niðurstaðan sem fékkst í því máli, jafnvel eftir að hæstv. dómsmrh. og hæstv. viðskrh. blönduðu sér í málið, að ég teldi málið enn mjög óljóst og misvísandi og alls óvíst hvort tryggt væri að endurskoðunarnefndin fengi umbeðnar upplýsingar til að geta lagt mat á iðgjaldaþátt þessara breytinga. Einmitt þess vegna, og ég held að það sé ástæða til þess að rifja það upp, lagði ég til í allshn. og við umræðu um þetta mál að vegna tregðu tryggingafélaganna til að veita upplýsingar, tregðu Vátryggingaeftirlitsins til samvinnu um málið og til að afla þeirra upplýsinga sem endurskoðunarnefndin taldi nauðsynlegar, að réttast væri að kallaður yrði til óháður aðili, t.d. tryggingasérfræðingur, til þess að fara ofan í málin og að hann fengi tilskilin umboð og leyfi til að kafa ofan í málið til að endurskoðunarnefndin gæti lokið sinni vinnu og fengið þær upplýsingar sem hún þyrfti til þess.

Nú er komið í ljós, herra forseti, að þær viðvaranir sem ég setti fram í því efni og ótti minn um að nefndin mundi ekki fá þessar upplýsingar virðist hafa verið á rökum reistur og vil ég vísa í bls. 21 í frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Að mati frumvarpshöfunda hefur ekki tekist að fá fram svör við þeim spurningum sem nefndin leitaði svara við, að þær upplýsingar sem að framan eru raktar nægi ekki til þess að álykta um iðgjaldaþörf bifreiðatrygginganna eftir setningu skaðabótalaganna. Niðurstaðan er því að ekki sé unnt að veita svar við því erindi allsherjarnefndar Alþingis.``

Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. dómsmrh. eða ríkisstjórnin í heild sem stendur að þessu frv. telji ásættanlegt að Alþingi afgreiði málið, sem örugglega er til bóta og beðið hefur verið eftir eins og ég sagði, án þess að vita hvort það leiði til kannski 30--50% hækkunar á iðgjöldum bifreiðatrygginga vegna þess að það er verulega þungur baggi fyrir ýmis heimili. Ég skal aftur undirstrika, og vona að menn misskilji það ekki, að ég tel bótaréttinn, alveg eins og hæstv. dómsmrh., vera aðalatriðið í þessu máli. En hitt skiptir auðvitað miklu máli líka.

Ég verð því að lýsa, herra forseti, miklum vonbrigðum mínum með að við séum samkvæmt þessu litlu nær um áhrif breytingar á skaðabótalögunum á iðgjaldagreiðslur og vil lýsa raunverulega furðu minni á að ekki sé hægt að ná þessu fram. En það virðist vera, a.m.k. í mínum huga og mér fannst líka í hugum nefndarmanna í allshn., að tiltölulega auðvelt ætti að vera að afla þeirra upplýsinga sem nefndarmenn báðu um. Maður veltir því fyrir sér af hverju tryggingafélögin eru svona treg til þess að veita þessar upplýsingar. Hvað býr að baki því að tryggingafélögin eru svona treg til þess?

Það sem um var beðið var að yfirfara rúmlega 900 slysamál sem urðu á árinu 1993 og Samband ísl. tryggingafélaga byggði mat sitt á um rúmlega 30% hækkun á iðgjöldum vegna breytinga á skaðabótalögunum, en niðurstaða í langflestum þessara liðlega 900 mála liggur nú fyrir samkvæmt því sem hér kemur fram. Af hverju er það svona mikið verk að fara yfir þessi 900 mál aftur þegar þau liggja nú fyrir? Af hverju má ekki fara ofan í þau? Það vekur ákveðna tortryggni, herra forseti.

Það skulu vera mín lokaorð að mér finnst það varla boðlegt eftir alla þessa töf á málinu að ekki liggi fyrir upplýsingar um þessi áhrif á iðgjaldagreiðslurnar sem ég hef hér gert að umtalsefni og að Alþingi skuli eftir þennan tíma vera litlu nær um þörfina. Ég spyr um þetta, herra forseti, af því mér finnst þetta mikilvægur þáttur. Allshn. fer yfirleitt vel yfir þau mál sem hún fær til meðferðar og vinnur sína vinnu samviskusamlega og því veit ég af vinnu minni í allshn. á undanförnum árum og við umfjöllun um þetta mál að allir nefndarmenn voru sammála --- ég gat ekki heyrt annað en að stjórnarliðar í nefndinni væru líka sammála um það --- um að þessi hlið á málinu, þó hún væri vissulega ekki aðalatriðið, skipti máli og væri nauðsynleg til þess að hv. allshn. gæti glöggvað sig á málinu. Þess vegna lagði allshn. til á sínum tíma þá málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið í þessu efni allt frá 1996.

Ég vil í lokin, herra forseti, spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann telji forsvaranlegt að afgreiða málið frá Alþingi án þess að áhrifin á iðgjaldagreiðslur liggi fyrir. Og ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann muni leggja nefndinni það lið sem þarf til þess að afla þessara upplýsinga þannig að nefndin geti lagt mat á málið í heild sinni út frá eðlilegum forsendum, t.d. ef nefndin telur nauðsynlegt að fá óháðan aðila eins og tryggingasérfræðing til að fara ofan í málið meðan það er til meðferðar í allshn. Hvaða leið telur hæstv. ráðherra að sé fær til þess að allshn. geti metið áhrifin af þessum breytingum um hækkun á iðgjöldum af ökutækjatrygginga sem á sínum tíma voru metin 30--50% eftir því hvaða forsendur voru notaðar, sem vel má vera að hækki verulega eða lækki, væntanlega lækki, miðað við þær nýju breytingar sem hér eru lagðar til?

Herra forseti. Þetta er vel meint af minni hálfu. Ég er einungis að kalla eftir tilstyrk hæstv. dómsmrh. til þess að hv. allshn. þingsins geti lokið vinnu við málið á eðlilegan og sómasamlegan hátt. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að þetta mál geti náð fram að ganga sem fyrst og orðið að lögum fyrir jól, eins og ég veit að hæstv. dómsmrh. stefnir að, en til þess tel ég að við þurfum alla aðstoð sem við getum fengið frá hæstv. dómsmrh.