Skaðabótalög

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:14:25 (1102)

1998-11-16 16:14:25# 123. lþ. 24.25 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Okkur hæstv. dómsmrh. greinir ekkert á um tilgang þess að breyta skaðabótalögunum og tryggja betur skaðabótaréttinn. Ég held að það hljóti að vera alveg skýrt. Ég tel, eftir því sem hæstv. dómsmrh. segir, að hann hafi skilning á því að nefndin þurfi á þessum upplýsingum að halda til þess að geta metið heildarmyndina. Hæstv. dómsmrh. segir að hann muni leggja nefndinni það lið sem hann getur til þess að hún geti aflað sér þeirra upplýsinga.

[16:15]

Ég er satt að segja, herra forseti, ekkert sérstaklega bjartsýn vegna þess að við meðferð málsins á síðasta þingi --- til þess að knýja Vátryggingaeftirlitið til þess að veita umbeðnar upplýsingar og það er furðulegt að Vátryggingaeftirlitið skuli ekki aðstoða stjórnvöld betur en raun ber vitni í þessu máli --- þá eru kallaðir fram bæði hæstv. dómsmrh. og hæstv. viðskrh. En það virðist ekki hafa dugað nú þegar við fjöllum um málið í annað sinn. Þess vegna spurði ég, herra forseti, hæstv. dómsmrh. áðan þeirrar spurningar hvort hann telji það þá ekki rétt fyrst málin standa þannig að nefndin geti fengið sér til halds og trausts --- og það á vegum ráðuneytisins af því að það er raunverulega ríkisstjórnin sem leggur málið fram sem ætti að skila þessum upplýsingum til þingsins --- óháðan aðila, tryggingasérfræðing, til þess að ná fram þeim upplýsingum sem Vátryggingaeftirlitið virðist heykjast á. Ég tel að hæstv. dómsmrh. ætti að veita okkur þann atbeina að sjá til þess að óháður aðili, tryggingasérfræðingur, fari eðlilega ofan í málið. Það var raunverulega spurning mín. En ég tel að það sé borin von miðað við að tveir ráðherrar gengu í málið á síðasta þingi til þess að fá tryggingaeftirlitið og tryggingafélögin til að veita þessar upplýsingar, þá gekk það ekki betur en þetta. Bein spurning mín laut að því hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn til að aðstoða nefndina og að óháður sérfræðingur kæmi til liðs við okkur í þessu máli.