Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:46:08 (1109)

1998-11-16 16:46:08# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:46]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. dómsmrh. vakti athygli á að gert er ráð fyrir því að menn geti sótt um vegabréf hjá sýslumannsembættum eftir sem áður. Afgreiðslan fer síðan fram hjá ríkislögreglustjóra eftir reglum sem nánar er kveðið á um í frv.

Ég vil hins vegar sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að menn skoði það í hv. allshn. hvort möguleiki sé á því að staðsetja framleiðslu á vegabréfum annars staðar en hjá ríkislögreglustjóra í Kópavogi. Ég held að hér hafi verið sýnt fram á að auðvelt er að koma þessu við. Þetta er ekki, eins og ég sagði áðan, eitt af stóru málum þingsins, þetta er ekki eitt af átakamálunum og mun ekki skipta sköpum í stjórnmálaumræðunni. En þetta er eitt af þeim litlu málum sem getur skipt dálitlu og getur haft pínulitla þýðingu og gæti orðið til þess að efla tiltekin sýslumannsembætti sem til að mynda tækju þetta að sér og þá atvinnustarfsemi sem er til staðar á litlum stöðum og sem munar satt að segja mjög mikið um. Eitt og eitt slíkt sérhæft starf getur styrkt verulega atvinnustarfsemi á viðkomandi stöðum þar sem um fá slík störf er að ræða. Ég fagna því mjög yfirlýsingu hæstv. ráðherra og vænti þess að hv. allshn. Alþingis taki vel í þessa hugmynd.