Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:49:17 (1111)

1998-11-16 16:49:17# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:49]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn ættu aðeins að reyna að átta sig á hagstærðunum í þessu máli. Hvað ætli það mundi kosta að setja eitt lítið umslag utan um vegabréf og hvað ætli sendingarkostnaðurinn yrði mikill? Ef ég man rétt kostar frímerki utan á umslag 35 kr. Ég á ekki von á því að það mundi kollvarpa fjárhag heimilanna í landinu. Mér finnst því afar ólíklegt að það eitt og sér mundi tefja fyrir eða gæti verið almenn viðbára ef menn eru að velta því fyrir sér að koma þessari litlu framleiðslustarfsemi fyrir úti á landi. Fyrir utan það að ég geri ráð fyrir að fólk úti á landi fari einhvern tíma til útlanda og þurfi því að fá vegabréf og þyrfti þess vegna að borga þennan gríðarlega kostnað, 35 kr. fyrir að fá þetta í pósti. Ég held að þetta sé ekki viðbára sem menn geti komið með. Það geta verið einhver önnur rök og þá skulum við bara ræða þau. En ég held að öll rök önnur mæli með því að slík framleiðslustarfsemi geti farið fram hvar sem er á landinu í ljósi nútímapóstsamgangna sem hafa verið að breytast mjög mikið á undanförnum árum og tryggja það að til og frá flestum stöðum berst póstur nú daglega og tekur um það bil sólarhring að berast á milli fjarlægustu landshluta.