Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:52:01 (1113)

1998-11-16 16:52:01# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst ekki hægt að láta hv. 1. þm. Vestf. einan um að halda uppi þeirri málsvörn sem hann gerir fyrir að hægt væri að dreifa atvinnustarfsemi um landið og einnig þeirri sem er á vegum hins opinbera. Ég hafði ekki skoðað þetta frv. mjög vandlega fyrr en í dag undir umræðunni og mér datt fyrst í hug þegar ég sá frv. til laga um vegabréf þau vandræði sem hafa verið á undanförnum missirum við að fá yfir höfuð vegabréf. Mér skilst að að einhverju leyti hafi það stafað af því að skortur hafi verið á eyðublöðum eða formum undir þau fyrirbæri og á sjálfsagt að bæta úr því í leiðinni.

Varðandi rafræn eða rafrænt lesanleg vegabréf þá er það lengi búið að vera á dagskrá. Það kann vel að vera að af tæknilegum ástæðum í þessu tilviki sé heppilegt og hagstætt að færa þessa útgáfu sem slíka, hina fýsísku útgáfu saman á einn stað. Ég ætla ekki að andmæla því. Ég þekki ekki nógu vel til málsins til að fullyrða neitt um það.

En hitt vil ég segja að það var þarft hjá hv. 1. þm. Vestf. að vekja máls á þessu því það er akkúrat þetta sem er að gerast á svo fjölmörgum sviðum, hægt og hljótt og enginn tekur eftir því. Fyrir dyrum stendur umræða hér á morgun um byggðamál og mér segir svo hugur að í ræðustólinn muni geysast hver skörungurinn á fætur öðrum, ekki síst úr stjórnarliðinu, og tala fjálglega um hin göfugu og háleitu markmið ríkisstjórnarinnar hvað varðar byggð í landinu og ekki vantar skýrslurnar og markmiðin. En hvað er að gerast á þessu ári? Það stefnir í að um þrjú þúsund manns flytji af landsbyggðinni til Reykjavíkur og það er m.a. vegna þess að á fjölmörgum sviðum sambærilegum við þetta eru að gerast smávægilegar breytingar þar sem straumurinn er yfirleitt allur í eina átt. Það er orðin sjálfvirk vanahugsun að þegar verið er að breyta einhverju fyrirkomulagi, stokka eitthvað upp, þá sé best að sameina allt í Reykjavík sem áður var kannski boðið upp á vítt og breitt um landið.

Ég ætla að nefna annað lítið dæmi sem er mjög hliðstætt þessu. Í fyrra kom frv. til efh.- og viðskn. um breytingar í skattamálum þar sem átti að fela ríkisskattstjóra einum alla álagningu vörugjalda, færa þá starfsemi af skattstjóraumdæmunum úti um landið alla til Reykjavíkur. Það var sömuleiðis ekkert stórmál. Það var samt talsvert meira í ársverkum eða umsvifum en þetta vegabréfamál en það var algerlega hliðstætt að þessu leyti út frá þeirri sjálfvirku vanahugsun að einfaldast væri að safna þessu öllu saman í Reykjavík og helst hjá einhverjum ríkisskattstjóra, ríkistollstjóra, ríkislögreglustjóra eða ríkisvegabréfastjóra eða hvað það nú heitir og þá er þetta gert si svona. Ef menn spyrna aldrei við fótum sígur þetta hægt og hægt í þessa átt. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að menn horfi með gagnrýnum augum á möguleikana sem eru fólgnir m.a. í tækninni til að snúa slíkum straumum við.

Af hverju er aldrei leitað eftir því eða það sett í forgang að skoða fyrst hvort starfsemin geti verið unnin úti á landi? Reynist það ekki hægt af tæknilegum ástæðum eða einhverjum öðrum hindrunum, þá sætta menn sig við það og að enn aukist á samþjöppun þjónustunnar, starfanna og umsvifanna sem eru á höfuðborgarsvæðinu.

Menn hafa rætt mikið um möguleikana sem fólgnir væru í nýrri tækni, í fjarvinnslu og öðru slíku. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það vera allt saman meira og minna innihaldslaust kjaftæði þangað til eitthvað gerist. Af hverju auglýsa t.d. ekki ráðuneytin störf og segja: Vakin er athygli á að möguleikar kunna að vera á því að sinna þessum störfum úti á landi með fjarvinnslu. Af hverju er það aldrei gert? Er enginn með hugsun í þessum efnum? Þarf alltaf að vera með algerlega sjálfvirkar formúlur af því tagi að allar breytingar séu í þessa átt?

Það sem ég óttast líka t.d. hvað varðar þjónustu sýslumannsembættanna sem eru þrátt fyrir allt eða hafa verið mikilvæg embætti, að ef verkefnin eru reytt af þeim eitt af öðru þannig að umsvifin minnka, fólk á sjaldnar og sjaldnar erindi til embættanna, þá fjarar auðvitað undan þeim og þau verða lögð niður, það endar þannig. Og þá skerðist sú þjónusta sem þau hafa hingað til boðið upp á. Ef þetta gerist meira og minna á öllum sviðum hinnar opinberu stjórnsýslu og þjónustu af þessu tagi, þá vitum við auðvitað hvað það hefur í för með sér.

Ég fagna því að hv. 1. þm. Vestf. tók þetta upp alveg sérstaklega sem prinsippmál þó ekki sé það mjög stórt í sniðum. Ég fagna líka þeim orðum sem hæstv. dómsmrh. hafði um að það væri sjálfsagt að beina því til allshn. að skoða möguleikana á að þetta starf færi fram annars staðar. Ég gef satt best að segja ekkert fyrir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að flutningserfiðleikar yrðu á þessari vöru á milli landshluta. Ég held að besta fyrirkomulagið væri að mínu mati það að embættin sjálf sæju um að miðla þessu á milli sín þannig að fólk gæti gengið að vegabréfinu eftir að það hefði verið gefið út innan skamms tíma á þeim stað sem það lagði inn umsókn hjá sýslumannsembætti í heimabyggð sinni. Útgáfuaðilinn sæi þá einfaldlega um að pakka sendingunum og koma þeim áleiðis og ekki nokkur ástæða til að óttast að sendingarkostnaðurinn yrði umtalsverður, ekki heldur á pökkum sem bærust daglega með vegabréfum til Reykjavíkur sem dreifðust þar eða yrðu lögð fram til að sækja þau á útgáfustöðvum, nema menn veldu þann kost ef það reynist ábyggilegt og traust að hægt væri að senda vegabréfin beinlínis heim til fólks sem væri líka mögulegt. En sennilega mundi það verða að gerast með ábyrgðarpósti og er það kannski litlu minni fyrirhöfn og jafnvel meiri kostnaður heldur en ef fólk gæti eftir t.d. 2--3 daga eða þess vegna enn styttri tíma ef hægt væri gengið að vegabréfinu vísu á sama stað og það lagði inn umsóknina.

Ég held að það væri besti kosturinn og þá gæti slík starfsemi prýðilega farið fram á Ísafirði, Akureyri eða Patreksfirði, sem hér var nefndur, og væri sá staður auðvitað vel að því kominn.