Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:00:44 (1115)

1998-11-16 17:00:44# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði hv. þm. engin slík orð í munn að hann væri á móti hinum dreifðum byggðum. Þegar ég sagðist ekki gera mikið með málflutninghans þá vísaði ég beint til þess sem sneri að þessu með kostnaðinn af því ég tel að það sé auðleysanlegt mál og ekki það stórt í sniðum að ástæða sé í sjálfu sér að hafa af því áhyggjur. Mér fyndist eðlilegast að embættin sæju um þann kostnað og ekkert að því þó að það væri ekkert sérstaklega reiknað heldur væri það bara hluti af þeirri þjónustu sem þarna er innt af hendi. Auðvitað er eðlilegt að leita hagkvæmra leiða til þess að gera þetta og ég er viss um að þær er hægt að finna jafnt þó að þetta sé gert úti á landi.

Ég var alls ekki að leggja til, og lýsti einmitt efasemdum um að menn mundu treysta sér til, að senda bréfin heim til fólks. Það mundi væntanlega aldrei gerast nema þá í gegnum ábyrgðarpóst eða með öðrum slíkum hætti og þá er eftir vandamálið með undirritunina. Ég held að heppilegasta fyrirkomulagið sé að útgáfuaðilinn eða embætti sýslumannanna og lögreglustjórans sendi þetta sín í milli og síðan geti fólk gengið að því á þeim stað þar sem það lagði inn umsókn sína um vegabréf og þá undirritað í leiðinni ef einhver slík undirritun fer fram á þessum vegabréfum, sem ég veit reyndar ekkert um, þessari nýju útgáfu eða nýju tegund af vegabréfum. Ég held að það sé einfaldasta fyrirkomulagið og það sem verður væntanlega ofan á. Ég bið því hv. þm. að misskilja ekki orð mín þó að ég nefndi þetta. Ég lýsti einmitt í leiðinni efasemdum um að það væri praktískt fyrirkomulag þannig að þessar spaklegu orðræður flokksbræðra áðan um frímerki og hvað kosti undir bréf eru sennilega bara fræðilegar en ekki praktískar því ég býst ekki við því að vegabréf verði send í stykkjatali í bréfum heldur verði þau einhvers konar pakkasendingar og síðan til afhendingar hjá embættunum.