Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:40:30 (1123)

1998-11-16 17:40:30# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:40]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Í fyrsta lagi varðandi stjórnarmálið erum við ekki sammála og breytum því örugglega ekki með löngum umræðum hér.

Í öðru lagi varðandi fjármunina held ég að ágætt væri að fá þessar hugmyndir sem hv. ráðherra rakti um fjárflæðið á næstu árum og ég sé ekki í frv. sjálfu þannig að það væri fínt að geta skoðað það í nefndinni.

Í þriðja lagi ætlaði ég að segja að ég tek undir það með hæstv. ráðherra að hér er um stórt mál að ræða sem skiptir mjög miklu máli og er faglega mjög skynsamlegt. Ég tel hins vegar að jafnframt ákvörðun um mál af þessu tagi ættu menn auðvitað að velta því fyrir sér að taka ákvörðun um að umhverfisrannsóknunum í tengslum við orkurannsóknirnir verði mjög örugglega fyrir komið.

Í fljótu bragði gætu menn velt því fyrir sér hvort í 2. gr. frv. og þar með laganna, ef þetta verður samþykkt, ætti að vera einhvers staðar einhver skírskotun til umhverfisins en kannski á það ekki að vera vegna þess að þetta eru eingöngu orkumál. Út af fyrir sig kann ég því vel að hlutirnir séu aðskildir. En ég segi bara um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin að ég tel auðvitað koma til greina að jafnhliða ákvörðun um fjármögnun orkurannsókna til framtíðarinnar væri komið upp með svipuðum hætti eða til hliðar við það kerfi þar sem umhverfisrannsóknirnar væru skýrt fjármagnaðar og gætu þannig haft í fullu tré við orkurannsóknirnar sem stýrast mjög oft af miklu þyngri hagsmunum augnabliksins en umhverfisrannsóknirnar gera.