Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:42:32 (1124)

1998-11-16 17:42:32# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:42]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. að það hefur margoft komið fram í umræðu á hv. Alþingi að við erum ekki sammála um það hvernig þessum stjórnarsetum skuli fyrir komið en ætli við getum ekki sagt að þetta sé sæmileg samkomulagsatriði milli okkar þar sem annars vegar framkvæmdarvaldið og hins vegar löggjafarvaldið skipar í stjórnina.

Sjálfsagt mál er að fulltrúar ráðuneytisins, sem ég býst við að verði kallaðir á fund hv. iðnn. um þetta mál, geri nákvæmlega grein fyrir því hvernig þessari fjármögnun verði hugsanlega fyrir komið í framtíðinni. Ég segi ekki hugsanlega vegna þess að ég tel það vera samkomulag milli fjmrh., mín og þess sem greiðir sem kannski kemur ekki við, í þessu tilfelli Landsvirkjunar, þeir hafa gefið út skuldabréf nú þegar fyrir þeirri upphæð sem við töldum að þeir skulduðu fyrirtækinu, hins vegar með fyrirvara um að ef virkjanaleyfi á Fljótsdalsvirkjun yrði tekið af þeim þá sé það auðvitað ríkisins að endurgreiða það.

Varðandi það að greiða fyrir, og ég skil hvað hv. þm. er að fara, er ég hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það eigi akkúrat að vera inni í þessu frv. varðandi greiðslu fyrir umhverfisrannsóknum sem slíkar. Sú skylda hvílir núna á fyrirtækjunum samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum að þau eiga að kosta þessar rannsóknir við undirbúning skýrslu og fram eftir götunum. Komi menn hins vegar til með að breyta því fyrirkomulagi, þ.e. að framkvæmdaaðilinn sé látinn gera slíka skýrslu þurfa menn náttúrlega að hugsa líka nákvæmlega fyrir því hvernig ætla menn að standa undir þessum kostnaði. Hins vegar mun verða í frv. um raforkulög sem síðar verður lagt fram kveðið skýrt á um það hvernig að slíkum rannsóknum skuli staðið þannig að ég tel að það muni ganga til móts við þær óskir sem hv. þm. er með en ég held að við eigum ekki að rugla þessu tvennu saman.