Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:52:39 (1127)

1998-11-16 17:52:39# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:52]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra tala afskaplega loðið um þessi mál. Hann talar um að endurskoða hlutina eða ná sátt. Ég get út af fyrir sig samþykkt að ná eigi sáttum og tek ekki undir þau sjónarmið að ekki megi nýta náttúruna til virkjana að neinu leyti. En það eru ákveðin mál á dagskrá þessa stundina sem fólkið í landinu hefur áhyggjur af og það er Fljótsdalsvirkjun sem mun leiða til þess að Eyjabakkar verða settir undir vatn og eyðir þá þeirri náttúruperlu sem allir eru sammála um í dag að sé það viðkvæmt og erfitt mál að ekki geti gengið öllu lengur að menn haldi áfram hugmyndum um Fljótsdalsvirkjun öðruvísi en að gjörbreyta þeim áformum að Eyjabakkar verði settir undir vatn. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh. við þetta tækifæri hvort hann hafi áform um að breyta Fljótsdalsvirkjun þannig að Eyjabakkarnir verði ekki settir undir vatn. Spurningin er afskaplega skýr og afmörkuð: Hefur hæstv. iðnrh. tekið afstöðu til Fljótsdalsvirkjunar og hefur hann tekið afstöðu til Eyjabakka sjálfra þannig að þeir verði verndaðir og passað verði upp á við þau virkjunaráform sem þarna eru að þeir verði alls ekki skemmdir með virkjunum?