Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:38:54 (1138)

1998-11-16 18:38:54# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:38]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða. (Gripið fram í: Skrýtinn ráðherra.) Það veit ég ekki. Það verða aðrir að dæma um. Hæstv. ráðherra er ekki á mína ábyrgð. En ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að ég kann ágætlega skil á íslenskum fjármagnsmarkaði. Ég rakti ekki mjög mikið í máli mínu röksemdir fyrir því að ekki ætti að stofna Fjárfestingarbankann vegna þess að við erum ekki að ræða það mál núna. Við erum að ræða sölu á 51%. Öll þau orð sem ég lét falla um hvað þetta væri röng stefna hafa komið fram að vera rétt. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra þarf á því að halda að ég endurtaki þau sérstaklega. Ég get alveg farið í það en þá vil ég gera það í réttri umgjörð í umræðunni, ekki þegar við erum að ræða sölu á þessu 51%. Það vita allir sem vilja vita um flokkspólitísk tök manna sem tengjast þessum bönkum hvort sem það er Fjárfestingarbankinn eða Nýsköpunarsjóðurinn. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð. Salan á 49% hefur misfarist. Það er alveg augljóst að fyrir liggur grunur um að verið sé að fara fram hjá lögum. Ég orðaði þetta mjög kurteislega og varfærnislega áðan. Þá kemur hæstv. ráðherra hér með skæting og talar út og suður um málið þegar ég er með málefnalega gagnrýni á hluti og fullyrði einmitt ekki, vegna þess að ég tek mál sem gerast á fjármálamarkaðnum mjög alvarlega, þvert ofan í það sem hæstv. ráðherra heldur fram eins og hann talar. Hann talar af fullkomnu ábyrgðarleysi. Það hefur margt gerst á íslenskum fjármagnsmarkaði undanfarin ár. Stærstu breytingarnar voru við lögfestingu EES-samningsins og það var ekki fyrir forgöngu hæstv. viðskrh. að það mál náði fram að ganga.

Meginmálið er, herra forseti, að þetta frv. er ónýtt. Reynslan hefur sýnt að fyrri löggjöf um söluna á 49% var illa útfærð. Þá getum við ekki verið að ræða þetta mál raunverulega á hinu háa Alþingi. Best væri að hæstv. ráðherra drægi frv. til baka og við mundum einhenda okkur í að reyna að vinda ofan af hinu fyrra máli.