Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:12:28 (1146)

1998-11-16 19:12:28# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:12]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég ætla fyrst og fremst að þakka þátttöku í þessari umræðu en hefði nýtt þetta tækifæri ef hv. þm. Ágúst Einarsson hefði verið í salnum til þess að svara nokkru af því sem hann sagði og var að mínu viti alveg rakalaus málflutningur. Reyndar stóð ekki steinn yfir steini í öllu því sem hann sagði í sinni ræðu.

En það voru líka nokkur atriði í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem ég ætla að gera að umtalsefni. Ég sagði áðan að hún hefði efnislega verið góð. En auðvitað voru nokkrar rangfærslur í því sem ég las náttúrlega oft í sumar í leiðurum DV. Það er eðlilegt að hv. þm. komi hér núna og rifji upp sína leiðara frá því í sumar.

Þegar ég las það ágæta blað undir ritstjórn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þá áttaði ég mig betur á því hvað DV í raun og veru þýðir. Það stendur fyrir ,,daglegar villur`` því að undir ritstjórn hv. þm. voru í blaðinu eiginlega daglega villur. (ÖS: Það hafa bara verið prófarkavillur.) Nei, efnislegar villur. Það er alltaf hægt að fyrirgefa prófarkavillurnar en þegar efnislegu villurnar eru jafnmargar og raun ber vitni að þá --- ég ætla reyndar ekki að fara að leiðrétta það núna, það er engin ástæða til þess.

Hv. þm. gerði mikið úr því, og ég er honum sammála, að mikilvægt er að fá inn í íslenska bankakerfið erlenda þekkingu, erlenda reynslu á mjög mörgum sviðum. En hv. þm. hefur alveg skakka sýn á þetta SE-bankamál. Auðvitað veit hv. þm. miklu betur hvernig það mál allt saman var til komið en er að reyna útúrsnúnninga í þeim efnum. Það var kannski ekki eftir mjög miklu að sækjast varðandi SE-bankann, en það er eftir talsvert miklu að sækjast í því að fá inn í landið erlenda reynslu og þekkingu á fjármagnsmarkaðinn.

Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess, ef við tökum Svíþjóð sem dæmi, að vaxtamunur í Svíþjóð er innan við 2% af heildareignum. Á Íslandi er hann rétt innan 4%. Rekstrarkostnaður banka í Svíþjóð er 50% af rekstrartekjum þeirra. Á Íslandi er hann 70%. Og til þess að ná árangri í því að lækka vextina, sem er okkar meginmarkmið, þá hljótum við að þurfa að draga úr þessum kostnaði og lækka vaxtamuninn. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að fá inn erlenda þekkingu til okkar.

[19:15]

Það hefur aldrei staðið til að afhenda útlendingum meirihlutaeign í íslenskum bankastofnunum. (Gripið fram í.) Það stóð heldur aldrei til að afhenda þeim ráðandi hlut í þessum fyrirtækjum vegna þess að menn voru á algeru forstigi viðræðna við þennan aðila um hugsanleg kaup hans á einhverjum hlut í Landsbankanum.

Ætli það séu ekki í kringum 10 þúsund manns sem eiga hlut í Landsbankanum í dag eða aðrir aðilar en ríkið eiga 15% hlut í Landsbankanum og vonandi munu aðrir aðilar en ríkið eiga 15% hlut í Búnaðarbankanum fyrir lok þessa árs. Enginn getur bannað þessum 15% hluthöfum að selja sinn hlut, t.d. til útlanda. Þess vegna er þetta þröng umræða þegar menn tala um erlenda eignaraðild á íslenskum bönkum einfaldlega vegna þess að hún kemur fyrr eða síðar. Ríkið ræður því ekki neitt. Við erum að vinna á mjög litlum og þröngum markaði og í raun og veru er öll Evrópa í þeim efnum orðin sem heimamarkaður og það verðum við varir við núna dag frá degi þegar erlendir bankar eru að taka upp stóra lánasamninga við sveitarfélög og stórfyrirtæki í beinni samkeppni við íslenskar lánastofnanir. Þess vegna eigum við að hafa áhrif á þessa atburðarás með því að reyna að stýra henni en láta þetta ekki gerast allt saman fyrir eintómar tilviljanir.