Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:24:40 (1149)

1998-11-16 19:24:40# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Út af því síðasta sem hæstv. ráðherra sagði vil ég einfaldlega að það komi fram að skoðun mín er sú að það geri ekkert til þó að þarna séu einhverjir aðilar að reyna að ná ráðandi hlut. Mér er alveg sama og ég tel að það sé jafnvel betra að annaðhvort sparisjóðirnir eða Búnaðarbankinn nái ráðandi hlut í Fjárfestingarbankanum. Hvers vegna? Ég er þeirrar skoðunar að það mundi auka hagræði í íslensku bankalífi og það mundi þegar til lengdar lætur verða til þess að minnka vaxtamun í landinu ef þessi banki mundi renna saman við annan hvorn þessara tveggja banka. Hvers vegna? Vegna þess að innan beggja þessara stofnana er að finna deildir sem falla mjög vel saman að hlutverki Fjárfestingarbankans. Það er skoðun mín.

Hæstv. ráðherra gat þess að það væru ýmsar leiðir og menn væru kannski að selja banka með mismunandi markmið í huga og jafnvel væru fleiri en eitt markmið uppi á teningnum þegar menn ráðast í svona. Það er ekkert óeðlilegt við það. Ég ímynda mér að tvennt vegist á í huga hæstv. ráðherra. Annars vegar að ná sem mestu fjármagni fyrir bankann inn í ríkissjóð og hins vegar að tryggja sem dreifðasta eignaraðild. Hæstv. ráðherra hefur tekið þann kost að reyna, hann segir það a.m.k., að freista sem dreifðastrar eignaraðildar og þá gerir hann það á kostnað þeirra tekna sem hann aflar með sölunni. Hvers vegna? Ef hæstv. ráðherra hefði viljað fá hámarksupphæð fyrir bankann hefði hann selt hann í einu lagi. Ég hygg að hæstv. ráðherra hefði getað fengið kannski 60--80% hærra verð ef hann hefði selt meiri hluta í bankanum í einu til einhvers eins aðila vegna þess að menn eru einfaldlega reiðubúnir til þess að greiða það umframverð til þess að ná þeim völdum og áhrifum sem því fylgja. Þess vegna, herra forseti, er líklegt að margir smáir fjárfestar geti hagnast nákvæmlega á þessari keppni, t.d. milli þeirra tveggja stofnana sem ég hef nefnt því að það væri í beggja þágu að ná sterkum hlut í bankanum og þess vegna er það í þágu hinna smáu fjárfesta, þeir fá meira fyrir sinn hlut.

Ég fagna því að lokum, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur sagt það að hann muni nú staldra við og meta reynsluna upp á nýtt í ljósi þess hvernig tókst til með þessa sölu núna. Ég treysti því að það leiði til þess að hann fari þá leið að selja sem flesta og smæsta hluti. Það er í þágu þeirra sem standa undir ungum hlutabréfamarkaði og við þurfum að efla hann.