Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:24:05 (1157)

1998-11-17 13:24:05# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:24]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er með ólíkindum hversu óhönduglega hæstv. dómsmrh. hefur tekist til við að endurskipuleggja stjórnskipulag lögreglunnar í Reykjavík. Líklega blandast engum hugur um hversu mikil þörf var á slíkri endurskipulagningu, það sanna dæmin, en niðurstaðan er ótrúlegt klúður.

Svo hörð orð hafa verið höfð um hið nýja skipulag af hálfu lögreglumanna sem eiga að vinna eftir því að vart er hægt annað en velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið betur heima setið en af stað farið. Lögreglustjóri er orðinn nokkurs konar stjórnarformaður, að því er best verður séð, og hefur verið gerður valdalaus. Varalögreglustjóra eru færð hin eiginlegu völd, allt eftir tillögum ráðgjafarfyrirtækisins VSÓ, á meðan ítarlegum tillögum Ríkisendurskoðunar var hafnað.

Ráðgjafarfyrirtækið, sem upphaflega var fengið til að skoða innheimtumál embættisins, var von bráðar farið að skoða stjórnskipulagið líka, þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hefði haft það verkefni með höndum. Tillögur Ríkisendurskoðunar voru allt annars eðlis en tillögur VSÓ. Hæstv. dómsmrh. hefur alls ekki skýrt nógu vel af hverju þær voru óbrúklegar.

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvers vegna var þeim tillögum ýtt til hliðar? Við því hefur ekki komið sannfærandi svar.

Þá er það fullkomlega óásættanlegt hvernig staðið var að málinu gagnvart starfsmönnum embættisins, sem voru ekki hafðir í samráði um skipan mála. Þeir hafa haldið því fram að með því skipulagi sem nú á að vinna eftir sé verið að brjóta lögregluna niður í stað þess að byggja hana upp. Þeir telja skýrsluna jafnvel byggða á röngum forsendum, sem verður að teljast háalvarlegt mál ef rétt er. Auk þess er ekki deilt um þá staðreynd að tillögurnar brjóta í bága við landslög.

Herra forseti. Það gengur ekki að fara í málið í blóra við lög, í ósátt við lögreglumenn og í andstöðu við samtök þeirra. Hæstv. dómsmrh. stuðlar ekki að uppbyggingu lögreglunnar í Reykjavík með þeim tillögum sem nú liggja fyrir. Þær eru til þess að auka enn á vandræðin innan þessa mikilvæga embættis og eru þau næg samt.