Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:26:12 (1158)

1998-11-17 13:26:12# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:26]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu mjög alvarlegt mál. Það er alvarlegt vegna þess að segja má að öryggi borgaranna sé stofnað í hættu, það er í uppnámi. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér hvert gildi lögreglunnar er á sama tíma og fíkniefnaglæpamenn vaða hér uppi og afbrot fara vaxandi. Hlutverk lögreglunnar er að tryggja öryggi borgaranna í því umhverfi. Til þess þarf að styrkja lögregluliðið með öllum tiltækum ráðum.

Til þess að lögreglan nái árangri í vandamiklu starfi sínu þarf að ríkja samhljómur í röðum hennar. Nú má segja að sá samhljómur hafi verið rofinn. Hann hefur verið rofinn með skipuriti sem kynnt hefur verið án þess að yfirstjórn lögreglunnar hafi verið höfð með í ráðum eða hinn almenni lögreglumaður. Það leiðir augljóslega til tortryggni og veikir þar af leiðandi lögregluna sem eina heild.

Að undanförnu hefur sú stefna verið ríkjandi að auka sjálfstæði einstakra stofnana ríkisins í anda svonefndrar gæðastjórnunar. Það er ekki í þeim anda að skipurit komi aðsent utan frá, án nokkurs samráðs við þá sem þar starfa. Ég tek undir þá fyrirspurn og óska eftir því að hæstv. dómsmrh. svari: Hvers vegna var úttekt Ríkisendurskoðunar hafnað? Ég vil hvetja hæstv. dómsmrh. til að endurskoða þá ákvörðun sem virðist liggja fyrir. Öryggi borgaranna er í húfi.