Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:30:57 (1160)

1998-11-17 13:30:57# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:30]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. staðhæfði að þær breytingar sem nú væri verið að framkvæma hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík væru í fullri sátt við lögreglustjóra og yfirstjórn lögreglunnar. Þetta er rangt.

Í öðru lagi vísar hæstv. dómsmrh. til vandaðra vinnubragða VSÓ, verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar. Skýrslan er ekki vönduð. Ég hvet menn til þess að kynna sér efni hennar til að ganga úr skugga um það. Vandinn er sá að í þessari skýrslu eru settar fram ýmsar staðhæfingar sem eru ekki á rökum reistar, sem eru rangar, og hæstv. dómsmrh. vísaði í máli sínu til nokkurra þessara staðhæfinga. Ég fullyrði að af 10--12 staðhæfingum sem fram komu í skýrslunni um það sem aflaga fer hjá lögreglunni í Reykjavík séu allflestar, 10--11, rangar. Eina staðhæfingu veit ég um að er rétt og hún er sú að skilgreining á stöðu varalögreglustjóra hafi verið óljós. Annað er hreinlega rangt.

Það alvarlega í þessu máli er að niðurstöður skýrslu VSÓ, verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar, voru kynntar 30. október en það var farið að framkvæma þær 2. nóvember. Málið er enn alvarlegra vegna þess að tillögur VSÓ stangast á við landslög. Þær gátu og geta orðið vinnugagn í besta lagi, en þær geta aldrei orðið að framkvæmdaáætlun.

Lögreglustjórinn stýrir sínu liði samkvæmt 6. gr. lögreglulaga, annað er rugl. Alvarlegar upplýsingar komu fram í máli hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar þar sem hann vísar í ummæli (Forseti hringir.) aðstoðarmanns dómsmrh. um að Landssambandi lögreglumanna komi þessi mál ekki við. Hér er aðstoðarmaður hæstv. dómsmrh. að taka sér vald yfir lögreglunni, vald sem honum ekki ber. Menn eru hér komnir í vafasaman lögregluleik og ég spyr hvort ekki sé eðlilegt að stórir strákar í lögguleik hverfi úr starfi ábyrgra manna.