Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 14:22:36 (1164)

1998-11-17 14:22:36# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að þakka hv. síðasta ræðumanni málefnalega umræðu. Hins vegar vil ég leyfa mér að gera athugasemdir við það sem hann sagði að ekki hefði verið fylgt sérstaklega tillögum Stefáns Ólafssonar prófessors um framgangsmáta að þessari tillögugerð. Reyndin er nú sú, eins og ég mun víkja að síðar, að það var sérstaklega gert og rannsóknir hans leggja grundvöll að þessari tillögu sem hér hefur verið fram sett.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að blaðagreinar hans, sem hv. ræðumaður kýs að túlka sem slíkar, og eru reyndar afar mikilvægt innlegg í umræðuna og ánægjulegt að menn hafi kynnt sér fyrir þessa umræðu, þær ganga lengra og eru meira í blaðastíl en kom fram í skýrslu hans, bæði þeirri sem fylgir hér sem fylgiskjal og líka þeirri sem birtist í bókarformi. Hér er því alls ekki hægt að setja samasemmerki á milli. Og þar fyrir utan vil ég líka vekja athygli á því að hv. ræðumaður fer fullfrjálslega með þá túlkun sem er í texta Stefáns Ólafssonar í áðurnefndri grein í Morgunblaðinu.