Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 14:52:17 (1168)

1998-11-17 14:52:17# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[14:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ræða hæstv. forsrh. fyrr í umræðunni grundvallaðist á mjög vandaðri úttekt sem gerð hefur verið á orsökum byggðaröskunar í landinu og mér finnst að draga mætti saman kjarnann í ræðu hæstv. forsrh. með því að segja að aðdráttarafl höfuðborgarsvæðisins felist í tveimur orðum: Fjölbreyttari lífsgæði. Það kom fram að það sem einkum virtist draga fólk hingað væri t.d. margbreytilegri menningarneysla.

(Forseti (ÓE): Er þetta andsvar við ræðu hv. þm. eða forsrh.?)

Ég er að koma að því. --- Mér fannst að í ræðu hæstv. forsrh. gætti þess einkum að það væri margbreytilegri menningarneysla, það væru meiri möguleikar á viðskiptum og þjónustu hér og ýmislegt annað sem því tengdist. En hv. síðasti ræðumaður, Magnús Stefánsson, ef ég má koma að honum, óskaði eftir því að þegar á næsta ári mundi í fjárlögum sjá þess stað að gripið væri til annarra aðgerða, þ.e. hv. þm. vildi að farið yrði í að auka námsstyrki, lækka rafmagnskostnað og húshitunarkostnað. Ég dreg ekki í efa að þetta eru aðgerðir sem eru íhugunar virði en með tilliti til kjarnans í ræðu hæstv. forsrh. og hvernig hann greindi vandann telur þá hv. þm. að þær sértæku aðgerðir sem hann var að reifa áðan dugi til að stemma stigu við fólksflóttanum?