Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:14:05 (1173)

1998-11-17 15:14:05# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gat þess í ræðu sinni að eftir seinni heimsstyrjöldina hefðu ríkisstjórnir farið inn á þá braut að afnema alls konar stuðningsaðgerðir við landsbyggðina. Hann sagði í framhaldi: Menn þurfa þess vegna ekki að ganga gruflandi að því hvers vegna fólkið hefur flutt af landsbyggðinni.

Þegar maður skoðar þessa þáltill. og greinargerð með henni, nánar tiltekið töflu á bls. 220, þá kemur í ljós að í nánast 50 ár eftir að stríðinu lauk heldur fólki áfram að fjölga á landsbyggðinni. Það er svo merkileg tilviljun að fólkinu tekur ekki að fækka fyrr en hv. þm. sest í ríkisstjórn en það er nú önnur saga. Ég vildi einungis benda á þetta, herra forseti, að afnám þessara stuðningsaðgerða við landsbyggðina virðist ekki hafa haft þau áhrif sem hv. þm. gat hér um.

Í annan stað, herra forseti, var þetta góð ræða. Hún var vel flutt, áheyrileg og skemmtilegt að hlusta á hana. Efnislegt inntak hennar var þetta: Það þarf að breyta andrúmsloftinu. Hvernig ætlar hv. þm. að breyta andrúmsloftinu? Hann var ekki með eina einustu tillögu um hvernig breyta ætti andrúmsloftinu. Það er ekki svo auðvelt að skipta um það. Hann drap að vísu á nokkra hluti sem hann sagði að væru marktækir ef hann sæi þeirra stað í fjárlagafrv. á næstu árum eða við fjárlagaafgreiðsluna. En hvernig ætlar hann að fara að því að breyta andrúmsloftinu? Ef hv. þm. tekur þessa skýrslu eins og mér þótti hann gera og fleygir henni út í buskann með þeim orðum að breyta þurfi andrúmsloftinu, þá verður hann að koma með tillögur og segja hvernig eigi að gera það.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að skýrsla sú sem hér liggur fyrir sé eitthvert merkilegasta plagg sem fram hefur komið um þessa hluti. Nú veit ég að vísu að hv. þm. talaði vel um þetta en eigi að síður fannst mér vanta í annars skelegga ræðu hans hugmyndir um að gera það sem hann telur þarfast, að breyta andrúmsloftinu. Hvernig ætlar hann að gera það?