Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:20:22 (1176)

1998-11-17 15:20:22# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að tala fyrir því að moka út peningum á einhvern gamaldags hátt í eitthvert sukk og svínarí, eins og mér finnst hv. þm. vera að gera mér upp skoðanir um. Ég er ekki bara að tala um fjárútlát í þessu sambandi. Ég er að tala um kerfisbreytingar og ég er að tala um nýja hugsun í þessum efnum jafnframt og er alveg jafnlæs á skýrslur og hv. þm. En ég er líka að tala um það að taka á þeim ójöfnuði og því óréttlæti sem menn búa við í þessum efnum. Mér heyrist hv. þm. einmitt ætla að nota gömlu aðferðina og dæma það algjörlega frá að taka á t.d. mismunandi vöruverði, t.d. því að fólk sé án læknisþjónustu og annarra slíkra hluta í mörgum byggðarlögum landsins.

Er hv. þm. á móti því að taka upp staðaruppbætur til héraðslækna þannig að læknishéruðin yrðu mönnuð? Það kostar peninga. En er það gamaldags hugsun að menn skuli eiga rétt á því að komast til læknis? Er það gamaldags hugsun? (Gripið fram í: Og niðurgreiða vöruverð.) Já, niðurgreiða vöruverð. Við skulum taka vöruverðið á landsbyggðinni. Hvernig verkar virðisaukaskatturinn? Hefur hv. þm. kynnt sér það? Hann er 24,5% ofan á vöruverðið norður á Bakkafirði, ofan á flutningskostnaðinn, ofan á allan viðbótarkostnaðinn sem þessir neytendur bera. Hann ætti að vera 22% ef þessir aðilar ættu að vera jafnsettir gagnvart skatti því þeir eru að borga hærri virðisaukaskatt en ekki lægri. Það er ekki verið að biðja um ölmusur. Það er ekki verið að biðja um það. Það er verið að biðja um að menn séu jafnsettir. Það eru menn ekki. Menn borga miklu meira fyrir að koma börnunum sínum í skóla. Menn borga hærra vöruverð, þar með talið hærri virðisaukaskatt. Það er um þetta sem ég er að ræða, ekki einhverja sporslur eða styrki frá vel settum mönnum eins og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Hann má hafa sitt í friði og búa vel að því í Vesturbænum. En það er ekki sanngjarnt að það fólk sem byggir afskekktustu svæðin skuli jafnframt borga hæstu skattana, hæsta raforkuverðið, þurfa að kosta mestu til að mennta börnin sín, oftast í burtu frá sér, því miður o.s.frv. Það er ekki réttlátt fyrirkomulag. Þessu vil ég breyta og ég er orðinn leiður á því að menn skuli láta sér nægja að tala um það.