Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 16:22:39 (1187)

1998-11-17 16:22:39# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að þegar kvóti er fluttur frá einu byggðarlagi til annars þá hefur það ekki bara áhrif til aukningar í því byggðarlagi sem nýtur kvótans heldur hefur það skerðingaráhrif í því byggðarlagi sem missir kvótann. Þegar Guðbjörgin fór frá Ísafirði til Akureyrar hafði það auðvitað þau áhrif að tekjumöguleikar Ísafjarðar minnkuðu en tekjumöguleikarnir í Eyjafirði jukust.

Það sem skilur á milli þorskaflahámarksins og kvótakerfisins, aflamarkskerfisins, er það að þorskaflahámarkið felur þó í sér einhverja möguleika fyrir þau byggðarlög sem næst búa fiskimiðunum. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að það eigi að vera eitt af markmiðum hvers fiskveiðistjórnarkerfis að þeir sem nær miðunum búa njóti þeirrar nálægðar í einhverjum mæli, að menn fái að njóta staðarkosta sinna. Öðruvísi mun okkar þjóðfélag ekki þróast í átt til aukinnar hagkvæmni. Þannig mun þetta gerast í landbúnaði. Þetta gerist í iðnaði. Þetta gerist í þjónustu og þetta gerist í sjávarútvegi. Að sjálfsögðu mun umhverfið hafa einhver áhrif á þetta. Hvaða möguleika eiga staðir eins og Vestfirðir ef þeir fá ekki einu sinni að njóta nálægðarinnar við fiskimiðin? Út á það gengur öll þessi umræða, þ.e. einmitt að gefa þessum stöðum úti um landið möguleika til að njóta sinna eigin staðarkosta. Þess vegna finnst mér eðlilegt að við skoðum það alveg sérstaklega að fiskveiðistjórnarkerfi, þorskaflahámarkskerfi sem hefur verið að skila prýðilegum árangri fyrir vissan hluta fiskveiðiflotans, verði þróað áfram til að skapa nýtt svigrúm fyrir ýmsa minni báta sem hafa orðið illa úti í kvótakerfinu og gefa þeim möguleika á að vinna sig áfram, líkt og minni bátana, því þeir þurfa líka á slíku lífsrými að halda.