Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 18:32:59 (1200)

1998-11-17 18:32:59# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[18:32]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins fyrst vegna tillögunnar og þess að skammt sé eftir af núverandi kjörtímabili, þá vil ég vekja athygli á því að hér er um að ræða ályktun Alþingis sem næsta ríkisstjórn yrði náttúrlega bundin af hver sem hún yrði með sama hætti og núverandi ríkisstjórn. Málið er í því farinu.

Varðandi fjárlagafrv. vil ég segja að það hefur áður verið sagt að vegna þessarar tillögu og líkinda á því að hún verði samþykkt þarf að huga að breytingum á fjárlagafrv. eins og það liggur núna fyrir. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ekki er tekið tillit til þessarar tillögu þar og þarf því að gera breytingar þar á.

Varðandi hið þriðja sem nefnt var, stóriðju á suðvesturhorninu, þá vek ég athygli á því að í tveimur tilvikum af þremur er um að ræða stækkun á verksmiðjum sem fyrir voru, annars vegar í Straumsvík og hins vegar á Grundartanga, þar sem um sérstaka hagkvæmni var að ræða og hefði ella ekki komið til og ekki um það að ræða að sú stækkun ætti sér stað annars staðar. Aðeins í einu tilviki var um nýja starfsemi að ræða sem þó naut góðs af þeim aðstæðum sem þarna höfðu verið skapaðar vegna annarra slíkra verksmiðja.

Varðandi síðasttalda atriðið sem hv. þm. nefndi, þá hygg ég að sú afstaða sem þar er lýst eigi ekki að koma honum neitt á óvart. Hún hefur komið fram áður af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við teljum út af fyrir sig ekki neina nauðsyn á að ákveða það nú hvort þessi samningur verði undirritaður eða ekki. Það er ekkert sem knýr á um það fyrir 15. mars nk. Það er heldur ekkert sem í raun knýr okkur til þess að undirrita þennan samning ef hann gengur gegn hagsmunum Íslands. Við í þessu landi erum fyrst og fremst kjörin til að gæta hagsmuna Íslands og það gerum við.