Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:03:23 (1208)

1998-11-17 19:03:23# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:03]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að taka fram að afstaða mín til stórfellds flutnings til Reykjavíkur er mjög neikvæð. Ég vil ekki sjá þessa flutninga, ég vil sjá jafnvægi í byggð landsins. Ég held að Reykvíkingar vilji almennt ekki sjá byggð úti á landi hverfa. Það kostar auk þess mjög mikið þjóðhagslega að byggja tvöfalt fyrir þá sem flytja til höfuðborgarsvæðisins og það er kostnaður sem þjóðfélagið verður að bera, eins og hér hefur margoft komið fram.

Nú hefur þetta ástand varað mjög lengi og við höfum reynt að beita gegn því ýmsum meðulum. Spurning er hvort við beitum réttu meðulunum til að lækna sjúklinginn. Er sjúkdómsgreiningin rétt?

Herra forseti. Mig langar til að tala dálítið um sjálfsvirðingu fólks og frumkvæði þess. Ef ég starfa við eitthvað þá þarf ég að hafa þá tilfinningu að starf mitt skili einhverju til þjóðarbúsins, að ég sé að gera gagn. Það er mjög mikilvægt. Hafi ég það á tilfinningunni að ég geri ekki gagn þá verð ég leiður, svartsýnn og bölsýnn.

Við skulum hugsa okkur óðalsbónda við síðustu aldamót. Við skulum hugsa okkur hann með beingreiðsluávísun í höndunum. Ávísun frá ríkinu upp á 120 þús. kr. á mánuði. Hugsum okkur að þessi ágæti óðalsbóndi, stoltur eins og hann var, hefði eftir að hafa skoðað reikninga sína komist að raun um að búið framleiddi minna en ekki neitt, þ.e. að ávísunin væri hærri en tekjur hans, framleiðsla búsins væri minni en ekki neitt. Tekjur búsins eru minni en beingreiðsluávísunin sem hann fékk.

Hvernig telja hv. þm. að þessum óðalsbónda hefði orðið við? Ég held að þetta sé kjarni þess við erum að tala um. Styrkjakerfið hefur komið því inn hjá fólki að það sé að framleiða minna en ekki neitt og stundi ekki heilbrigða atvinnustarfsemi.

Nú í haust heimsótti hv. efh.- og viðskn. Siglufjörð. Þar fórum við á Síldarminjasafnið og mér varð starsýnt á þau tákn sem þar gaf að líta. Tákn um bjartsýni, framtak, stórhug og frumkvæði þess fólks sem bjó á Siglufirði hér fyrr á öldinni, 1920--1930. Mér var tjáð að vegurinn um Siglufjarðarskarð hefði verið lagður af einkaaðilum. Það var ekki horft til ríkisins, til vegáætlunar eða sveitarfélagsins. Nei, fyrirtækin í bænum sendu starfsmennina upp í Skarð til að bera grjót í handbörum þegar landlega var og ekkert að gera á plönunum. Þetta var stórhugur, þetta var frumkvæði og þarna höfðu menn trú á sjálfum sér. Mér skilst að menn hafi líka lagt rafmagn á eigin spýtur.

Herra forseti. Vandi sveitanna og þéttbýlisins er mismunandi. Staða búgreina er mismunandi. Sauðfjárræktin stendur mjög illa og mjólkurbúskapurinn stendur ekki alveg eins illa, en illa samt. Svína- og kjúklingarækt stendur að ég held nokkuð betur og það er svo merkilegt að þessar atvinnugreinar standa í öfugu hlutfalli við styrkina sem þær fá. Þéttbýlisstaðir úti á landi standa mjög mismunandi líka. Sjávarútvegspláss standa mörg hver ágætlega, sérstaklega á Austfjörðum. Á Íslandi eru hins vegar landbúnaðarpláss sem standa mjög illa eins og landbúnaðurinn.

Ég held að landsbyggðin sé sjúk eftir hálfrar aldar forsjá ríkis og bændaforustu. Eftir miðstýringu fjármagns, þ.e. bankakerfisins í Reykjavík, miðstýringu sjávarútvegs, þar sem öllu er stýrt með lögum frá Alþingi og miðstýringu orkubúskapar þar sem allt er virkjað frá einu fyrirtæki, sem merkilegt nokk er staðsett í Reykjavík. Landsbyggðin er sjúk vegna barlóms og kveins eins og hér hefur komið fram.

Herra forseti. Við sjáum fram á gífurlega flutninga fólks. Það nægir að horfa á mynd á bls. 220 í þáltill. Það er skelfileg mynd. Ef maður reiknar hana nokkur ár fram í tímann þá horfir við landauðn, landauðn úti á landi. Það má ekki gerast. Það þarf nefnilega ákveðinn lágmarksfjölda í hverri sveit. Ef of fáir búa í sveitinni þá flytja þeir burt vegna þess að þeir eru fáir og það er hættuleg staða.

Hvers vegna flytur fólk af landsbyggðinni? Þetta er að sjálfsögðu ákveðin alþjóðleg þróun. Þetta er ákveðin þróun, þetta er tíska. Þetta er sókn fólks í að njóta margháttaðra gæða, njóta fjölbreyttari menningarneyslu eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi fyrr í dag. Fólk vill flytja í fjölbreytt menningarsamfélag og forðast einhæft atvinnulíf og auk þessa bætast við mörg önnur atriði. Ef annað hjóna býr úti á landi þá þarf makinn líka að finna vinnu við sitt hæfi þar. Oft á tíðum leyfir einhæft atvinnulíf það ekki. Börnin þurfa að stunda skóla, eins og hér hefur margoft verið nefnt, sem er bæði dýrt og klýfur fjölskylduna. Það er því mjög margt sem ýtir á að menn flytji á mölina.

En ég held að hér sé einnig um sjálfsvirðingu þegnanna að ræða, eins og ég gat um í upphafi. Fulltrúar þessa fólks tala endalaust um vandræði og barlómurinn hefur hljómað í áratugi. Þetta dregur kjark úr fólki, jafnvel þó að allt gangi vel.

Auk þessa hefur verið farið út í kolvitlausar framkvæmdir. Ég geri ráð fyrir að þegar íbúi í einhverju sveitarfélagi horfir upp á að í sveitarfélaginu hans sé verið að fara út í framkvæmd sem engan veginn gengur skynsamlega upp, þá skammist hann sín fyrir það. Hann þarf að hlusta á háðsglósur vina og vandamanna sem búa annars staðar um þessa fáránlegu framkvæmd. Þetta er mjög slæmt fyrir sjálfsvirðingu hans.

Ég nefni það að Landsvirkjun er að sjálfsögðu staðsett í Reykjavík, miðstýringaráráttan er alveg endalaus. Hugsum okkur, hv. þm., ef við við hefðum Kröflu hf. eða Búrfell hf. eða Nesjavelli hf., ekki í eigu Reykjavíkur. Hugsum okkur það.

Við getum litið á ríkisbankakerfið. Ef maður í Vestmannaeyjum leggur inn þúsundkall í Landsbankann, þá fer sá þúsundkall til Reykjavíkur til vinnslu, kostar þar 5--6% í mannafla og vinnslu og svo getur vinurinn í Vestmannaeyjum auðfúslega fengið hann að láni, þ.e. það sem eftir er af honum. Allt veldur þetta þenslu í Reykjavík.

Það er vöxtur hins opinbera og miðstýringaráráttan sem veldur þessu. Stærstu lífeyrissjóðir landsins eru í Reykjavík jafnvel þó þeir séu með félagsmenn um allt land. Ég nefni Lífeyrissjóð verslunarmanna, ASÍ og Vinnuveitendasambandið, þetta er allt til húsa í Reykjavík og hefur mikið batterí þó að þeir fjalli um kaup og kjör fólks um allt land. Það er þessi miðstýringarárátta sem ég held að sé að fara með landsbyggðina.

Bættar samgöngur hafa einnig skaðað landsbyggðina. Það er svo merkilegt að markaðssvæði Kringlunnar, markaðssvæði verslunar í Reykjavík stórjókst þegar samgöngur bötnuðu. Nú fara menn frá Höfn í Hornafirði og allt norður frá Dalvík til Reykjavíkur til innkaupa. Þetta hefur líka mjög mikil áhrif á stöðu verslunar í dreifbýlinu og úti á landi. Hvalfjarðargöngin bæta enn um en góðar samgöngur geta líka haft góð áhrif, eins og ég kem að hér á eftir.

Síðast en ekki síst hefur staða landbúnaðar og það óskaplega styrkjakerfi sem þar hefur verið byggt upp skaðað landsbyggðina mjög mikið.

Herra forseti. Sú tillaga sem við höfum hér fyrir okkur er mjög góð og á bak við hana liggur mikil vinna úr góðum gögnum. Markmiðin eru göfug. En mér finnast úrræðin ansi lúin. Þetta er sama gamla tuggan: Miðstýring, miðstýring, miðstýring. (Gripið fram í: Hvernig getur tillagan þá verið góð?) Allt sem fylgir henni er gott og gögnin sem liggja fyrir eru mjög góð, þ.e. bókin sem slík er góð. (Gripið fram í: Hvað er ekki miðstýrt? Pappírinn?)

Gert er ráð fyrir því í 1. liðnum að opinberir starfsmenn eigi að stunda nýsköpun og auka fjölbreytni. Í vinnu frá 9 til 5. Ég hef enga trú á slíku. Það getur verið að aðrir hafi trú á því. (Gripið fram í: Segir þetta í tillögunni?) Það stendur í tillögunni að unnið skuli markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni. Þróunarstofur verði efldar og þannig treystur grundvöllur til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni. --- Á þróunarstofunum starfa væntanlega opinberir starfsmenn.

Gert er ráð fyrir að lánastarfsemi verði rekin á arðsemisgrundvelli. Það er algjörlega óþarfi og nóg til af peningum. Ef hún á að fara í samkeppni við allar hinar lánastofnanirnar þá er þetta algjör óþarfi. Þannig að mikið af þessum tillögum eru gamlar lummur. Reyndar er eitt og annað sem ég gæti fallist á, t.d. 6. liðurinn, að lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni. --- Þetta hef ég margoft bent á. En sumt eru nú hreinlega sovét-úrræði, eins og 12. liðurinn, lækkun kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis o.s.frv.

[19:15]

Herra forseti. Hvað er til ráða? Hvernig getur þróunin orðið? Ég tel að sú breyting sem gerð var á gjaldskrá Landssímans sé ein almesta og mikilvægasta breytingin fyrir landsbyggðina og sú netvæðing sem menn hafa stundað, þetta skiptir verulegu máli. Ég tel að fjarnám muni breyta verulega miklu og jafnvel ef við legðum mikla áherslu á fjarnám, almenna áherslu á gerð námsefnis í fjarnámi, þá muni það gagnast landsbyggðinni langmest, þ.e. ef við gerum það almennt, bjóðum það út t.d. Slíkt efni mætti vinna úti á landi eins og annars staðar. Það mundi gagnast foreldrum með börn úti á landi þar sem börnin geta stundað bæði framhaldsnám og háskólanám í fjarnámi, bara heima hjá sér eða í næsta barnaskóla. Fjarnámið getur verið geysilega öflugt tæki fyrir landsbyggðina. (JónK: Það er í tillögunni.) Það er reyndar í tillögunni, já. Hún er ekki alvond.

Svo er það fjarvinnsla. Ég hef bent t.d. á að með þessari nýju tækni getur fólk úti á landi stundað símavörslu fyrir Flugleiðir eða fyrir ferðaskrifstofur. Það má veita þá þjónustu norður á Siglufirði þess vegna. Akitektar og verkfræðingar geta búið á einhverjum fallegum sveitabæ úti á landi og unnið fyrir aðila í Reykjavík og jafnvel í New York eða Los Angeles.

Það verður spennandi að sjá hvað gerist með einkavæðingu bankanna, hvort þessi miðstýringarárátta klofni ekki upp þegar þeir þurfa að fara að huga að því að veita almennilega þjónustu og hvort þá verði ekki stofnaðir bankar úti á landi. Það hefur reyndar verið gert. Þar eru sparisjóðir, en þeir eru frekar litlir.

Ég tel að menn ættu að taka upp hugmyndir Stefáns Ólafssonar, sem hér hefur verið margnefndur, á síðu 21 þar sem hann ræðir um byggðastefnu í anda markaðshyggju í stað byggðastefnu í anda ríkisforsjár. Við höfum hingað til haft byggðastefnu í anda ríkisforsjár og það hefur gefist eins og við sjáum, með stórfelldum fólksflutningum. Nú held ég að við ættum að prófa byggðastefnu í anda markaðshyggju. Minnka ríkisvaldið og þar með miðstýringuna, leggja niður Byggðastofnun, sérstaklega lánveitingaþáttinn og styrkveitingaþáttinn. Kannski mætti ráðgjafarþátturinn standa. Svo mætti skoða þjónustulund opinberra aðila.

Herra forseti. Ég held að það sé mjög brýnt að fá einstaklinga úti á landi til að sýna frumkvæði, láta þá líta upp úr betliskálinni og trúa á mátt sinn og megin. Horfa ekki bara til ríkis og sveitarfélaga um úrræði og möguleika. Ráða sjálfir fram úr vanda sínum, stofna fyrirtæki og nýta kosti heimabyggðar sinnar. Og minnka ríkisforsjána.