Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:26:21 (1215)

1998-11-17 19:26:21# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ef ég skil hv. þm. rétt þá skilur á milli okkar spurningin um hvernig gert verði. Hvort það verði gert af hendi ríkisins ofan frá, miðstýrt og skipulagt með ríkisforsjá, með sovétisma, eða hvort það verði gert með frumkvæði einstaklinga sem reyna þá að bjarga sér og reyna að velja sínar vörur ódýrt.

Ég tel að einstaklingur geti alltaf gert hlutina betur en ríkið. Ef menn fá ekki svona niðurgreiðslur og fá ekki rafmagnið á svona lágu verði þá mundu þeir örugglega krefjast þess að fá að virkja rétt við túnfótinn og gera kröfur til ríkisins um að fá að virkja þar, sem væri mikið ódýrara eins og kom fram einmitt í frammíkalli rétt áðan.

En á meðan þessu er öllu stýrt ofan frá og einhverjir menn við skrifborðin í Reykjavík ákveða hvernig skuli fara, hvernig skuli virkjað, hvernig skuli niðurgreitt og hvar skuli leita að heitu vatni, þá gerist náttúrlega ákaflega lítið. Ég hef því miður, herra forseti, ekki trú á slíkum vinnubrögðum.