Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:27:40 (1216)

1998-11-17 19:27:40# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf dálítið gaman af því að hlýða á hv. þm. Pétur Blöndal vegna þess að það blása yfirleitt nýir vindar í umræðum þegar hv. þm. talar. Og þó að skýringar hans á hlutunum eigi kannski til að vera dálítið einfaldar og hann einfaldi tilveruna dálítið þá kann ég vel við að heyra þá rödd í þinginu.

Ég verð að viðurkenna það líka, virðulegi forseti, að ég náði ekki alveg öllu sem fram kom í ræðu hv. þm. og m.a. því að hann var, að mér skildist, að tala um að samgöngur gætu leitt til ills þannig að menn mundu fara að versla í Kringlunni í stað þess að versla í sínum heimabæ, ef ég hann skildi hann rétt. Hann ætlaði reyndar síðar í sinni ræðu að fjalla um samgöngur sem gætu orðið til góðs, en sennilega datt eitthvað út úr þeirri ræðu.

Virðulegi forseti. Það sem mér þótti áhugaverðast í þessari ræðu var hugmynd hans um það sem hann kallaði Krafla hf., Nesjavellir hf. o.s.frv. Þess vegna langaði mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. hvort hann væri að tala um að hann vildi einkavæða orkuframleiðslu í landinu með öllum tiltækum ráðum. Ég get tekið undir það með hv. þm. að ég er ekki í nokkrum vafa um að það gæti orðið til þess að lækka orkuverð í landinu. Ef við mundum einkavæða og opna meira á það að menn gætu framleitt hér rafmagn þá mundi það leiða til þess að orkuverð í landinu mundi lækka sem kæmi landsbyggðinni til góða. En mig langaði að heyra í hv. þm. meira um þessa hugmynd því mér finnst hún áhugaverð.