Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 20:03:22 (1222)

1998-11-17 20:03:22# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[20:03]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu annars vegar ársskýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 1997 og hins vegar till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001. Bæði skjölin eru hin merkustu og vil ég hafa nokkur orð um bæði tillöguna og skýrsluna.

Ársskýrsla Byggðastofnunar sýnir mjög mikla breytingu á starfi stofnunarinnar og er óhætt að segja að grundvallarmunur hafi orðið á afstöðu stjórnenda þessarar stofnunar til verkefnisins, sem er að stuðla að æskilegri byggðaþróun fyrir landið allt. Þarna er um erfitt og viðamikið verkefni að ræða og verður að líta yfir meira en eitt ár til þess að meta árangurinn. Það fer hins vegar ekki á milli mála að stjórn Byggðastofnunar hefur markað mjög merkar breytingar sem ég tel að muni, þegar fram líða stundir, hafa veruleg áhrif á þróunina.

Fyrst og fremst tel ég mikilvægt að draga fram atvinnuþróunarstarfið í landshlutunum sem Byggðastofnun hefur lagt mikla áherslu á og skapað alveg nýtt umhverfi á þeim vettvangi. Sú stefnumótun sem felst í að færa verkefni Byggðastofnunar út fyrir höfuðborarsvæðið, sú ákvörðun að færa þróunarsvið stofnunarinnar til Sauðárkróks mun skipta miklu máli og ekki síður sú ákvörðun stjórnarinnar sem er kynnt hér í skýrslunni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn Byggðastofnunar samþykkir að verða við óskum Fjórðungssambands Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélags Austurlands um að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Austurlands yfirtaki starfsemi Byggðastofnunar á Egilsstöðum og Ísafirði. Enn fremur að þróunarsvið Byggðastofnunar yfirtaki starfsemi Byggðastofnunar á Sauðárkróki. Þessi skipan mála komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júní nk. Forstjóra ásamt formanni og varaformanni er falið að annast samninga um málið.``

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessari samþykkt stjórnar Byggðastofnunar. Hún sýnir að ríkur vilji er til að breyta um takt í rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Ég tel að með því að færa starfsemi Byggðastofnunar út til landshlutanna og með því að atvinnuþróunarfélögin yfirtaki þessi verkefni muni verða hægara um vik að takast á við margvísleg viðfangsefni. Fleiri orð mun ég ekki hafa um ársskýrsluna en vil endurtaka að hún sýnir að vel sé að málum staðið.

Herra forseti. Ég hef áður sagt að þáltill. um stefnu í byggðamálum sem hér er til umræðu marki tímamót að vissu leyti. Tillagan er mjög vel undirbúin eins og rækilega hefur komið fram og það er mjög athyglisvert og út af fyrir sig stórpólitísk tíðindi að engin gagnrýni hefur komið fram á tillöguna af hálfu stjórnarandstöðunnar. Segja má að um tillöguna ríki allt að því sátt. Hér hafa komið athugasemdir um stefnuna á undanförnum árum og vandamálin sem við okkur blasa í byggðamálum en tillagan virðist falla í mjög góðan jarðveg hér á Alþingi.

Þegar litið er yfir viðfangsefnið blasir við annars vegar verulegur vandi í byggðamálum, sem óþarft er að bæta við orðum um eftir umræðuna í dag, en hins vegar blasir við að efnahagur okkar er að komast úr þeim öldudal sem við höfum barist í á síðustu árum. Það skapar okkur möguleika til þess að standa fyrir miklum og öflugum aðgerðum og auðveldar okkur að snúa vörn í sókn. Við verðum að gæta þess að ræða ekki eingöngu um vandamálin. Þetta eru allt þjóðfélagsleg viðfangsefni sem við tökumst á við með tillögu þessari en aðalatriðið er að í dag treystum við okkur í stórhuga aðgerðir til þess að hamla gegn þessari óæskilegu byggðaþróun. Það er allt gert á grundvelli þess árangurs í efnahagsmálum sem við höfum náð. Þetta vil ég sérstaklega undirstrika.

Tillagan gerir ráð fyrir að tekið verði á fjölmörgum þáttum. Um er að ræða aðgerðir á sviði nýsköpunar í atvinnulífinu, á sviði menntunar, þekkingaröflunar og menningar, til jöfnunar lífskjara og aðgerðir til bættrar umgengni í landinu sem vissulega þarf að leggja ríka áherslu á.

Ég vil, herra forseti, fara nokkrum orðum um einstaka þætti, meginverkefnin í þeirri aðgerðaáætlun, má segja, sem tillagan gerir ráð fyrir.

Nýsköpun í atvinnulífinu er ekki einföld. Við þekkjum það. Íslendingar hafa vissulega haft ríkan vilja til að byggja upp atvinnulífið, reyna að efla það með öllum tiltækum ráðum og byggja á nýtingu auðlinda okkar til lands og sjávar. Það hefur staðið verulega á því að koma á nýsköpun í atvinnulífinu. Engu að síður hefur það breyst mjög mikið og hratt hin síðari ár, fyrst og fremst vegna þess að við höfum getað skapað atvinnulífinu betri skilyrði.

Eitt af því sem nefnt er í tillögunni og ég tel að skipti mjög miklu máli er að efla hinar svokölluðu þróunarstofur í landsfjórðungunum og efla atvinnuþróunarfélögin. Ég held að mikilvægt sé, til þess að draga vel menntað og áhugasamt og duglegt fólk út á land, að efla fyrirtæki eins og þróunarstofur þar sem reynt er að nýta tækni og vel menntað fólk til átaks og uppbyggingar í atvinnulífinu og einnig til að standa við bakið á þjónustufyrirtækjum og opinberum stofnunum. Með því að leiða saman þessa krafta og með því að gera það á þeim forsendum sem tillagan gerir ráð fyrir þá tel ég að þarna séu möguleikar.

Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun standi við bakið á eignarhaldsfélögunum með fjárframlögum eins og hér hefur komið fram, og noti að 300 milljónum til þeirra aðgerða. Ég tel að þar sé gengið inn á braut sem er fullkomlega heilbrigð á grundvelli þeirra hugsjóna sem flokkur minn byggir á, að efla framtak einstaklingsins og reyna að skapa markaðsaðstæður í kringum atvinnustarfsemina. Þess vegna held ég að uppbygging og styrking eignarhaldsfélaganna, sem síðan eru þátttakendur í atvinnulífinu, skipti miklu máli.

Ég held að þörf sé á að undirstrika rækilega það sem kemur fram í þessari tillögu sem er þó ekkert auðvelt mál, að fjölga opinberum störfum úti í landshlutunum. Hins vegar þarf stöðugt að vera á verði þannig að hvert einasta ráðuneyti, hver einasta stofnun, hafi mjög ríkt í huga að reyna slíkt þar sem hægt er. T.d. er ætlunin að koma betra lagi á innheimtu sektargreiðslna og þvílíkra hluta. Það mun skapa nokkur störf, aðallega við tölvuvinnslu, innheimtu og útsendingu á rukkunum. Þetta er hægt að gera hvar sem er á landinu. Með því að nýta svona möguleika þá safnast þegar saman kemur.

Einnig vil ég nefna varðandi nýsköpun og eflingu atvinnulífsins að það þarf með skipulegum hætti að vinna að staðarvalsrannsóknum þannig að í landshlutunum og á svæðunum sé ljóst hvaða möguleikar eru til staðar til að nýta möguleika, auðlindir og vinnuafl.

Menntun, þekking og menningarstarfsemi er auðvitað ánægjulegur þáttur í þessari tillögu. Sérstaklega vil ég nefna menninguna. Uppbygging ferðaþjónustunnar er að mínu mati að verulegu leyti byggð á því að við getum teflt fram íslenskri menningu og byggt upp sögustaði sem aðdráttarafli fyrir ferðaþjónustuna. Þetta þarf auðvitað að gera með mjög skipulegum hætti og þetta hefur verið gert mjög myndarlega. Þá vil ég nefna staði eins og Hóla í Hjaltadal, Reykholt og fleiri staði mætti nefna. Þarna hefur farið fram uppbygging og rannsókn á fornleifum. Sögustaðir þessir eru mikilvægur þáttur í menningu okkar og við eigum að gera allt sem hægt er til að standa við bakið á þeim sem á þessum stöðum búa og vilja og hafa sýnt að þeir séu færir um að byggja upp ferðaþjónustu með áherslu á íslenska menningu.

[20:15]

Ég má til með að nefna einnig að endurbygging gamalla húsa er nefnd hér og það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi að það væri hluti af byggðaþróunaráætlun að leggja áherslu á endurbyggingu gamalla húsa og stuðla að fornleifarannsóknum. En þetta eru mikilvægir þættir sem við megum ekki vanmeta og þess vegna fagna ég því að það skuli vera hér inni í þessum tillögum.

Jöfnun lífskjara er mikilvægt og sífellt viðfangsefni. Þar er af mörgu að taka en ég vil nefna aðeins eitt sem er mjög rætt og ekki einfalt mál að leysa, en það er orkuverðið, jöfnun orkuverðs. Í tillögunni er lýst ákveðnum aðferðum við að reyna að styrkja stöðu orkufyrirtækjanna úti um hinar dreifðu byggðir þar sem orkuverðið er hátt. En sem betur fer, og það þarf að undirstrika, eru margar hitaveitur t.d. og það eru til rafveitur sem standa sig vel og hafa lágt orkuverð, ekkert síður en á höfuðborgarsvæðinu þannig að það er ekkert einhlítt í þessu. Þess vegna held ég að enn ríkari ástæða sé þá til þess að við stöndum að því, eins og var gert með símkostnaðinn, að fundnar verði leiðir til þess því sem næst sama orkuverð sé í landinu, sérstaklega raforkuverð, og að reynt verði að skjóta þeim stoðum undir hitaveiturnar að þær geti selt orkuna við lágu verði. Þetta skiptir miklu máli og það kemur fram í þessari rannsókn sem tillagan byggir á og hefur verið rómuð hér mjög, að orkuverðið er einn af allra mikilvægustu áhrifavöldum þess að byggðaþróunin hefur verið eins og hún er.

Virðulegi forseti. Ég verð að fara að stytta mál mitt. Það hefði mátt segja margt fleira um þessa tillögu en ég vil bara undirstrika að hún skiptir okkur miklu máli, ekki bara úti á landi, ekki aðeins hina svokölluðu landsbyggð, heldur skiptir það höfuðborgarsvæðið miklu máli að vel takist til. Í dag koma fram þær upplýsingar í fjölmiðlum um að 60% af atvinnuleysi í landinu sem mælist --- sem er mjög lágt reyndar sem betur fer --- er á höfuðborgarsvæðinu. Við sem höfum hlustað á óskir sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu þekkjum það að þeir hafa miklar áhyggjur af þróun þjónustu á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hinn mikli massi af fólki sem hefur færst hingað á höfuðborgarsvæðið þarf þjónustu og sveitarfélögin hafa ekki verið og eru ekki fær um að taka við þessu eins og þarf. Þess vegna er enn ríkari ástæða til að landsmenn allir sameinist á grundvelli þessarar tillögu, ekki bara landsbyggðarbúarnir heldur einnig höfuðborgarbúarnir, um að taka á. Hún er raunhæf og við höfum efnahagslegar forsendur til þess að vinna að henni.