Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 20:19:34 (1223)

1998-11-17 20:19:34# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[20:19]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Nú hefur lengi dags verið rætt um þessa till. til þál. um stefnu í byggðamálum næstu fjögur árin og er það að vonum, svo mjög sem þetta mál er í deiglunni í þjóðfélaginu um þessar mundir. Það hefur ekki farið mjög mikið fyrir því á undanförnum árum en greinilegt er að pólitísk umræða er í æ ríkari mæli að snúast í þá átt að þessi málefni verða meira í brennidepli eftir því sem tímar líða og mér sýnist að svo geti farið að þetta verði eitt af stærri málunum í næstu kosningabaráttu og gæti minnt að mörgu leyti á kosningabaráttuna 1987, fyrir nærri tólf árum, en þá voru byggðamál mjög í umræðunni eins og þeir muna sem voru viðriðnir stjórnmál á þeim tíma.

Því miður varð kannski ekki mikill árangur af umræðunni þá til lengri tíma litið en segja má að það skilaði sér kannski í aðgerðum á næstu árum á eftir sem að mörgu leyti voru erfið ár fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni, aðgerðum sem þurfti að grípa til sem voru a.m.k. að sumu leyti óvinsælar, kannski að sumu leyti ónauðsynlegar eða óskynsamlegar. Ég held engu að síður að þær hafi í meginatriðum verið nauðsynlegar miðað við hvernig staðan var á þeim tíma og hvernig mál hefðu orðið ef ekki hefði verið brugðist við eins og gert var. Ég vona að umræðan núna lendi ekki í svipuðum sporum og gerðist fyrir rúmum áratug og fjari út án mikilla áhrifa til lengri tíma litið og vænti þess að menn hafi þá reynslu, einkum í ljósi byggðaþróunarinnar á þeim áratug sem liðinn er, að það er ekki hægt að slá slöku við í þessum efnum. Það kemur einfaldlega fram í breytingum og íbúaþróun innan lands sem kemur illa við alla, bæði byggðarlögin á landsbyggðinni og líka byggðarlögin á höfuðborgarsvæðinu og fólkið sem býr á þessum stöðum.

Mig langar að rifja það aðeins hér upp að erlendis hefur nokkuð mikið verið fjallað um þessi mál og stjórnvöld hafa rekið, einkum í Evrópu, byggðastefnu sem segja má að hafi verið myndarleg að mörgu leyti. Það er einn af hornsteinum í stefnu Evrópusambandsins að líta til þess að nota ríkisvaldið sem tæki til þess að stemma stigu við þróun af þessu tagi og í ríkjum eins og Bretlandi er mikið rætt um þessi mál þessi árin. Þar má nefna stefnu ríkisstjórnarinnar sem komst til valda í fyrra um valddreifingu í Bretlandi með stofnun þings í Skotlandi og ráðgefandi þings í Wales og beinum kosningum til þeirra þinga. Það er byggt á þeirri hugsun að færa þurfi vald, ábyrgð og verkefni frá miðstjórnarvaldi og til þeirra sem vandinn brennur á og fela þeim að leysa hann eða glíma við hann. Menn færa þau rök fyrir því að þeir séu best til þess fallnir sem vandinn brennur á að vinna sig út úr honum.

Í vor átti ég þess kost að fara til Skotlands og kynna mér hvernig staðið hefur verið að byggðamálum þar, Skotlandsmálaráðuneytið. Það var býsna fróðleg ferð, svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið, sérstaklega þegar horft er til þess hvernig umræðan hér innan lands hefur verið um orðið ,,byggðastefna``. Fyrir allnokkru endurskoðuðu Bretar sína byggðastefnu, það var eftir að Margrét Thatcher var komin til valda, og ákváðu að byggja hana á því að byggja upp meiri svæðisstjórnun en verið hafði, þ.e. minni miðstýringu og færa viðfangsefnin í hendur þeirra sem búa á þeim stöðum sem áttu undir högg að sækja. Í öðru lagi ákváðu þeir að setja allmikið fjármagn í þetta verkefni, í þriðja lagi að beina því fyrst og fremst að því að byggja upp atvinnufyrirtæki eða styrkja þau til sinnar starfsemi og þá einkum minni fyrirtæki og í fjórða lagi að byggja upp ráðgjafarþjónustu.

Þessi stefnumörkun hefur skilað verulega góðum árangri í Skotlandi sem er tiltölulega strjálbýlt land á evrópska vísu og bjó við tiltölulega óhagstæða þróun á áratugunum þar á undan. Þeim hefur tekist í raun að stöðva þá þróun sem var í gangi og snúa henni við þannig að farið er að fjölga á sumum stöðum á því svæði sem þeir skilgreina undir sína byggðastofnun, þ.e. Hálöndin og eyjarnar fyrir utan Skotland. Og ef litið er á svæðið í heild þá hefur það sótt á á undanförnum árum í stað þess að láta undan síga, eins og áður var.

Byggðastofnun þeirra sem þeir endurskipulögðu þegar þeir endurskipulögðu sína stefnu fær allmikið fé. Hún fékk á síðasta starfsári, 1997--1998, tæpa 9 milljarða ísl. króna til umráða. Þetta er allmikið fé þegar til þess er horft að starfssvæði byggðastofnunarinnar nær yfir svæði þar sem 370 þúsund íbúar búa. Við getum borið þetta saman við Byggðastofnun á Íslandi sem nær yfir starfssvæði þar sem um 100 þúsund manns búa. Hún fær um 200 millj. kr. á fjárlögum ár hvert. Það eru 200 millj. kr. annars vegar borið saman við 9 milljarða kr. hinsvegar, en íbúafjöldinn er þá um 100 þúsund í öðru tilvikinu og 370 þúsund í hinu. Þó að tekið sé tillit til þess er fjárhæðin sem veitt er til verkefnanna miklu hærri í Skotlandi en gerist hér á landi.

Auðvitað er forsendan fyrir því að ná árangri sú að hafa peninga og vilji menn virkilega ná árangri í þessum efnum þá verða þeir að leggja fram allnokkuð fé í því skyni og þá ekki bara til þess að nota peningana til þess að fjármagna aðgerðir sem eiga að styrkja viðkomandi svæði, andspænis því að á hinum svæðunum sem eru ekki talin falla undir Byggðastofnun þurfi ekki að gera neitt. Staðreyndin er nefnilega sú að við erum alltaf að taka ákvarðanir á Alþingi og annars staðar sem styrkja ákveðin svæði á landinu og þá fyrst og fremst höfuðborgarsvæðið. Við getum kallað það með fullum rétti byggðaaðgerðir. Þetta eru oft aðgerðir sem hafa mikil fjárútlát í för með sér. Og aðgerðir eins og þær sem Bretar hafa gripið til eru í raun gagnverkandi aðgerðir til þess að reyna að hamla á móti áhrifum hinna ákvarðananna um uppbyggingu og fjárfestingu á vaxtarsvæðunum.

Þeir höfðu sem sé á síðasta starfsári sínu um 9 milljarða kr. til ráðstöfunar og um 60% af því rann til atvinnuþróunarverkefna og rann svo á endanum inn til fyrirtækja til að styrkja þau til að koma á fót nýjum störfum eða starfsemi sem skapaði ný störf. Þannig að þeir beina fjármagninu að mestu leyti inn í atvinnulífið.

Það er líka mjög athyglisvert að þeir láta ekki þessa byggðastofnun sína starfa miðstýrt á sínu svæði heldur skipta þeir starfssvæðinu upp í tíu atvinnuþróunarfélög og síðan eru það stjórnir yfir hverju atvinnuþróunarfélagi sem taka ákvarðanir um ráðstöfun síns hluta af þessu fé.

Ég vil nefna sem dæmi eitt atvinnuþróunarfélag sem nær yfir eyjarnar vestur undan Skotlandi, þær sem kallaðar eru Suðureyjar. Þar búa um 30 þúsund manns. Það er svipaður fjöldi og býr í því kjördæmi sem lagt er til að stofna úr Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Þetta 30 þúsund manna svæði fékk í sinn hlut um 580 millj. kr. af þessum 9 milljörðum kr. Auk þess fengu þeir um 120 millj. kr. frá Evrópusambandinu sem mótframlag í hluta þeirra verkefna sem þeir höfðu stofnað til með 580 millj. Þetta atvinnuþróunarfélag á Suðureyjum hafði því um 700 millj. kr. úr að spila á síðasta starfsári, 1997--1998, til að byggja upp atvinnu á sínu svæði.

[20:30]

Berum þetta nú saman við hið nýja kjördæmi, Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra þar sem svipaður fjöldi býr og á Suðureyjum við Skotland og spyrjum okkur bara: Teljum við að við næðum árangri í byggðaþróun ef við hefðum 700 millj. kr. til umráða á þessu svæði á ári hverju til að byggja upp atvinnufyrirtæki, skapa fjölbreytt störf o.s.frv.? Ég er alveg viss um að hver einasti maður mundi svara því játandi, að menn tryðu því að við mundum ná miklum árangri og snúa búsetuþróuninni við ef við gerðum þetta eins og Bretar gera.

En hvað skyldu Íslendingar verja miklum fjármunum til þessa svæðis? Það er aðeins hluti af 200 millj. Við setjum 200 millj. á landið allt fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Við getum reiknað hlut Vesturlands, Vestfjarða og Norðurland vestra af þeim 200 millj. kr. sem ríkið veitir til Byggðastofnunar ár hvert, þ.e. miðað við íbúafjölda. Sá hlutur yrði um þriðjungurinn af þeim 200 millj., kannski um 60 millj. Í stað þess að setja 700 millj., eins og Bretar gera, þá eru kannski um 60 millj. kr. hér á landi. Þá er ekki að furða, þegar menn skoða þessar tölur, að árangurinn sé misjafn, góður þar sem menn gera þetta af alvöru en slakur þar sem menn hafa ekki gert þetta af sæmilegum krafti.

Ég vek athygli á þessu af því að mér finnst mjög athyglisvert hvernig Bretar hafa unnið þetta. Þeir hafa stjórn í þessum atvinnuþróunarfélögum sem forvalta þetta mikla fé --- ólaunaða og skipa hana að mestu leyti mönnum úr atvinnulífinu. Það eru einungis tveir af tíu manna stjórn sem koma frá sveitarstjórnunum en átta af tíu koma úr atvinnulífinu. Ég held við eigum að læra af því sem aðrir hafa gert með góðum árangri í þessum efnum. Það má segja um þá þáltill. sem hér liggur fyrir og það sem ákveðið hefur verið í stjórn Byggðastofnunar á síðustu tveimur, þremur árum, að við höfum verið að fikra okkur í þessa áttina. Ég tel það alveg tvímælalaust að stjórn Byggðastofnunar hafi verið á réttu spori á undanförnum árum. En ég vil segja jafnframt að ég tel að krafturinn í þessum verkum sé allt of lítill. Hann er allt of lítill fyrst og fremst vegna þess að menn setja ekki það fjármagn í hlutina sem þarf til þess að geta náð almennilegum árangri.

Þetta vildi ég taka fram, herra forseti, en sé að ég hef ekki ræðutíma til annars en koma inn á þetta eina atriði. Það er miklu fleira sem ég hefði gjarnan vilja ræða almennt um byggðamálin, en ég vil aðeins nefna eitt og það eru leikreglurnar sem við setjum okkur með lögum á Alþingi. Þær eru að mínu viti í allt of ríkum mæli sniðnar að þörfum þeirra sem eru margir og standa betur að vígi en eru hins vegar andstæðar þeim sem eru fámennir og standa höllum fæti. Það má nefna ýmis atriði því til stuðnings. Nærtækast er að nefna annars vegar fiskimiðin, sem eru auðlind þeirra sem búa á landsbyggðinni og forsenda þess að fólk býr þar, og hins vegar þær auðlindir sem menn hafa á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. heita vatnið. Auðlindin á landsbyggðinni er skilgreind sem þjóðareign sem öllum stendur til boða að nýta en heita vatnið er skilgreint sem séreign þeirra sem hér búa og þar er auðvitað tvennu ólíku saman að jafna.