Svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:44:57 (1236)

1998-11-18 13:44:57# 123. lþ. 26.91 fundur 108#B svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég skil vel að formanni Framsfl., utanrrh., falli það ekki að sitja hér og hlusta á gagnrýni á hvernig staðið hefur verið að málum af hálfu eins ráðherra hans gagnvart einni lítilli fyrirspurn. Ég er hins vegar afar ósátt við viðbrögð hans þegar hann kemur hér í ræðustól Alþingis og gefur það til kynna að jafnaðarmenn standi fyrir einhverjum sérstökum ,,neikvæðum`` umræðum um vinnubrögð ráðherra eða annarra í þessum ræðustól.

Jafnaðarmenn eru sterkur þingflokkur. Þeir eru stærstir stjórnarandstöðuflokkanna. Þeir hafa hlutverki að gegna í aðhaldi á ríkisstjórn og þeir axla vissulega þá ábyrgð á sama hátt og Framsfl. gerði á síðasta kjörtímabili og lét þá oft í sér heyra um það sem honum fannst miður fara.

Hér hefur komið fram að það hefur dregist í einn og hálfan mánuð að svara fyrirspurn um mál sem liggur skýrt fyrir hjá viðskiptabönkunum og ætti þess vegna að taka eina viku að svara. Það er verið að kvarta undan því með réttu.

Það hafa líka komið fram athugasemdir um bréfaskipti sem hafa átt sér stað milli ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar um þetta svar og það var rætt í síðustu viku. Það eru fullréttmætar athugasemdir sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur komið fram með að það eigi að skoða það hvort Ríkisendurskoðun eigi að vera að skipta sér fyrir fram af svörum framkvæmdarvaldsins.

Herra forseti. Ég tel mjög eðlilegt að forsn. taki það fyrir hver eigi að vera þáttur ríkisendurskoðanda í máli sem þessu og okkur getur greint á um stöðu ráðherra eða möguleika til svara. Það er fullkomlega eðlilegt að gagnrýna það að þetta svar skuli hafa tekið einn og hálfan mánuð og ómaklegt að koma með athugasemdir á jafnaðarmenn með þeim hætti sem hér var gert.