Svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:47:21 (1237)

1998-11-18 13:47:21# 123. lþ. 26.91 fundur 108#B svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ágætt hjá hæstv. utanrrh. og formanni Framsfl. að koma hingað og ætla að kenna þingmönnum mannasiði, kenna þeim hvernig þeir eiga að haga sér í þinginu. Það er prýðilegt að fá lexíu frá honum í þeim efnum. En er hæstv. utanrrh. ekki að tefla á röngu skákborði? Ætti hann ekki frekar að beina umvöndunum sínum til eins af þeim mönnum sem hann hefur undir sínu skjóli, þ.e. hæstv. viðskrh.?

Hverjar eru staðreyndir málsins? Þær eru þessar: Ráðherrum ber skylda til að svara innan tiltekins tímafrests. Fyrirspurnin sem við erum hér að ræða kom fram fyrir einum og hálfum mánuði. Tilskilinn tímafrestur er löngu liðinn. Svarið hefur ekki borist. Hæstv. utanrrh. ætti því frekar að kenna hæstv. viðskrh. hvernig hann á að haga sér í þinginu til þess að fullur sómi sé að.

Það liggur fyrir að svarið sem hæstv. viðskrh. hefur þegar undirbúið og fengið frá viðskiptabönkunum barst fyrir lifandis löngu til hans. Það svar sendi hæstv. ráðherra til Ríkisendurskoðunar sem sendi það til hans fyrir tíu dögum síðan. Hæstv. ráðherra hefur haft full tök á að leggja það svar fyrir þingheim. Það hefur hann ekki gert. Um hvað fjallar þessi spurning? Um starfslok bankastjóranna, starfslokakjör bankastjóranna þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum. Kynni það að vera að hæstv. ráðherra þætti óþægilegt að fá þær upplýsingar fram á vettvang fjölmiðla rétt áður en hann fer í varaformannskjör í Framsfl. þegar við blasir að allir aðrir starfsmenn bankanna fengu að sjálfsögðu engin svona kjör?

Herra forseti. Ég sætti mig ekki við að málið sé afgreitt með þessum hætti. Hæstv. forseti hefur upplýst að gögnin sem hæstv. ráðherra þarf til að leggja fyrir þingið séu í höndum hans og ég krefst þess að hæstv. forseti gangi eftir því að ráðherrann sinni lögboðinni skyldu og afhendi þinginu þessi svör.