Útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:09:25 (1247)

1998-11-18 14:09:25# 123. lþ. 26.2 fundur 34. mál: #A útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:09]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Áður en ég vík að einstökum spurningum vil ég fyrst fara almennt orðum um þetta mál. Ákvarðanir um framkvæmdir, endurnýjun og viðhald í dreifikerfi Ríkisútvarpsins hafa dregist á þessu ári vegna samningaviðræðna við Landssíma Íslands um rekstur dreifikerfis Ríkisútvarpsins. Þessum viðræðum er nú að ljúka og ljóst er að sú meginbreyting verður að verulegur hluti stofndreifingar verður héðan í frá um ljósleiðara Landssímans. Þessi breyting eykur öryggi og gæði í stofndreifingu Ríkisútvarpsins og þýðir að móttökuskilyrði munu þegar batna víða.

Í framhaldi af þessari breytingu er gert ráð fyrir stóraukinni fjárfestingu í sendum og endurvörpum Ríkisútvarpsins víða um land sem mun enn bæta móttökuskilyrðin. 55 millj. kr. eru áætlaðar til þessa verkefnis á næsta ári. Alls er áætlað að verja 175 millj. kr. á næstu fimm árum til endurnýjunar á sendum og endurvarpskerfi í dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Um 80% þeirrar fjárhæðar mun varið til senda og endurvarpa í dreifbýli.

Varðandi stöðuna á Suðurnesjum þá skil ég vel að menn sætti sig illa við að ná ekki með tækjum sínum þeim myndum og því hljóði sem þeir kjósa. Í svari Ríkisútvarpsins við fyrirspurn minni í tilefni af fyrirspurn hv. þm. kemur fram að um sé að ræða tæknileg úrlausnarefni sem lúti að dreifingarmynstri á milli sjónvarpsins, Stöðvar 2 og Sýnar að því er sjónvarpssendingar varðar. Geisli sjónvarpsins á Reykjanes hefur almennt verið um 10 desibilum veikari en geisli Stöðvar 2 frá upphafi en þó eru mælingar taldar sýna að viðmiðunarmörkin séu viðunandi þegar litið er á þetta með mælitækjum. Vafalaust getur það þó bitnað mismunandi á einstökum notendum ef geislinn er ekki sterkari en hér var lýst.

Hvað varðar sendingar á FM-bylgjum Ríkisútvarpsins, hljóðvarpsins, þurfa menn að sjálfsögðu að huga að því ef göt eru í þeim sendingum. Mælingar eru stundaðar til þess að bregðast við ef sérstök vandamál koma upp. Ríkisútvarpið lét framkvæma skoðanakönnun í mars sl. til að kanna viðhorf fólks á Suðurnesjum til móttökuskilyrða og fá önnur viðmið en beinar mælingar.

Við 1.801 útsendingarseðli barst aðeins 51 svar. Þátttakan var því 2,8% og hefur lítill áhugi á þátttöku í þessari könnun orðið Ríkisútvarpinu nokkurt umhugsunarefni. Menn velta því fyrir sér þar hvernig túlka eigi hana, hvort fólk sætti sig almennt við skilyrðin og hafi því ekki kosið að svara. Af þeim fáu svörum sem bárust töldu 60% viðtakenda útsendingargæði sjónvarpsins viðunandi hjá sér en 40% óviðunandi.

Þeir sem töldu útsendingargæði sjónvarpsins hjá sér óviðunandi voru spurðir hvort þeir væru tilbúnir að greiða 5--10 þúsund kr. fyrir nýtt loftnet, ef viðunandi gæði fengjust þannig. Ef þess þyrfti með yrði sérstakur endurvarpssendir settur upp í Reykjanesbæ. Af þeim sem svöruðu eru 44% tilbúnin að kosta þessu til, en 56% ekki. Þetta eru m.a. þær aðgerðir sem Ríkisútvarpið hefur hugað að í þessu tilviki, að setja upp sérstakan endurvarpssendi í Reykjanesbæ. Ef móttakendur eru ekki tilbúnir að fjárfesta í nýjum loftnetum til að nýta sér þessa þjónustu þá er spurning hvort í þá framkvæmd skuli ráðist.

Varðandi þriðju spurninguna er ég þeirrar skoðunar að menn eigi að sjálfsögðu ekki að greiða fyrir aðra þjónustu en þeir fá. Þetta mál er hins vegar þannig að oft á tíðum er ákaflega erfitt að sannreyna það í einstökum tilvikum. Við megum ekki gleyma því að þegar um sjónvarps- og útvarpssendingar er að ræða þá þarf ekki aðeins sendandinn að hafa tækjabúnað sinn í lagi, heldur einnig móttakandinn. Þarna er um þannig viðskipti að ræða að menn þurfa einnig að hafa góð móttökutæki til þess að geta notið þessarar tækni sem skyldi. En þetta er úrlausnarefni fyrir Ríkisútvarpið í einstökum tilvikum og þá verða menn líka að sannreyna það sem haldið er fram.

Varðandi fjórðu spurninguna er ég reiðubúinn til að stuðla að því að þessar stöðvar vinni saman að því að bæta þjónustu sína.