Útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:17:11 (1250)

1998-11-18 14:17:11# 123. lþ. 26.2 fundur 34. mál: #A útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. menntmrh. fyrir svörin, og verð að segja að þau eru stórum jákvæðari en svör sem ég fékk við sams konar spurningum sem ég lagði fram í fyrra. Ríkisútvarpið virðist því eitthvað hafa tekið við sér.

Það er rétt sem hér kom fram að ákveðnir blettir í Reykjanesbæ virðast vera dauðir þegar um er að ræða útsendingar, sérstaklega ríkissjónvarpsins. Fólk hefur keypt sér magnara, það hefur keypt sér sérstök loftnet en ekkert hefur dugað. Að vísu var ég ekki ein af þeim sem var spurð þegar þessi könnun var gerð, sem hæstv. ráðherra vitnaði hér til, en ég verð að segja að ég skil vel að standa skuli í fólki ef það á að fara að leggja til sérstaklega, einu sinni enn, nýtt loftnet til að geta séð ríkissjónvarpið sem það borgar mánaðarlega af sömu upphæð og aðrir landsmenn.