Útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:20:32 (1252)

1998-11-18 14:20:32# 123. lþ. 26.2 fundur 34. mál: #A útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þeim orðum sem hér féllu geta þess að í þessari könnun var verið að spyrja um hvort fólk væri reiðubúið til þess, ef svo bæri undir, að kaupa nýtt loftnet og þá yrði hægt að taka á þessu máli með öðrum hætti. Það kom fram í þeirri könnun að meiri hlutinn var ekki tilbúinn til þess, fyrir utan það hve fáir tóku þátt í könnuninni eða svöruðu, enda er hún ómarktæk eins og fram hefur komið. En þetta sýnir bara að leitað hefur verið margra leiða til að reyna að bæta úr þessu. Þetta er tæknilegt úrlausnarefni fyrst og fremst og þá hljóta menn að velta fyrir sér öllum þeim tæknilegu úrræðum sem fyrir hendi eru og m.a. því hvort setja beri upp sérstaka endurvarpsstöð í Reykjanesbæ sjálfum en þá verða menn að nota sérstakar sjónvarpsgreiður til þess að ná í þá stöð. Þetta er meðal þeirra þátta sem Ríkisútvarpið hefur kannað.

Að sjálfsögðu hlýtur það að vera markmið Ríkisútvarpsins að sjá til þess að sem flestir geti notið sæmilega þeirrar þjónustu sem það veitir. Og staðreyndin er að hér á landi ná 99,9% þjóðarinnar í sjónvarpið og er það með mestu dreifingu sem er að finna í nokkru landi.

Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi vék sérstaklega að, þ.e. samvinnu við Íslenska útvarpsfélagið hf., þá er það svo að Ríkisútvarpið og Íslenska útvarpsfélagið hf. hafa nú þegar samvinnu víða um land um samnýtingu á aðstöðu. Og það verður að telja eðlilegt og æskilegt að geti bæði félagið og stofnunin leyst úr þessum vanda á Suðurnesjum með frekari samvinnu, þá ber að sjálfsögðu að stuðla að því.