Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:22:42 (1253)

1998-11-18 14:22:42# 123. lþ. 26.3 fundur 192. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna eru ákvæði um fjárhæð og úthlutun námslána. Lögin framselja stjórn LÍN vald til að ákveða fjárhæð námslána og úthlutunarreglur, þar með taldar reglur um hvað telja skuli til tekna við útreikning námslána en tekjur eins og þær eru skilgreindar af stjórn sjóðsins koma til frádráttar við útreikning á námsláni. Samkvæmt úthlutunarreglunum skulu tekjur eins og þær eru skilgreindar af stjórn sjóðsins því koma til frádráttar. Þetta ákvæði er nánar útfært og þar kveður á um það að tekjuskattsstofn námsmanna og maka teljist tekjur til frádráttar. Af því leiðir að allar skattskyldar tekjur samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, koma til frádráttar námsláni, þar með taldar húsaleigubætur. Þá hefur stjórn sjóðsins ákveðið frítekjumark, um 180 þús. kr. en 50% allra tekna umfram þá fjárhæð skerða námslánin. Húsaleigubætur eru skattskyldar tekjur. Bæturnar koma því til frádráttar útreikningi námslána sem nemur 50% líkt og gildir um hverjar aðrar tekjur. Vaxtabætur aftur á móti teljast ekki til tekna og koma því ekki til frádráttar.

Með öðrum orðum má því segja að tekjulægstu námsmennirnir á leigumarkaðnum búi við það að húsaleigubætur sem þeir fá séu skattlagðar meðan námsmenn sem betur eru stæðir og eiga sitt eigið húsnæði fá vaxtabætur sem eru skattfrjálsar, auk þess sem við útreikning námslána er litið á húsaleigubætur sem tekjur sem skerða lánin.

Ég hef hér útreikning sem er raunverulegt dæmi hjá námsmanni. Hann borgar í húsaleigu tæpar 30 þús. kr. og er með í húsaleigubætur tæpar 13 þús. kr. og ef þessi námsmaður vinnur sér inn 185 þús. yfir árið er skerðing á heildarláni yfir skólaárið vegna húsaleigubóta rúmar 76 þús. kr. Þetta er nærri því eins mánaðar námslán hjá námsmanni.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, af því að hæstv. ráðherra hefur til þess vald, að spyrja hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að húsaleigubætur námsmanna verði teknar út úr tekjustofni til skerðingar á útreikningi námslána þannig að jafnræði ríki milli námsmanna sem búa í eigin húsnæði og þeirra sem eru á leigumarkaðnum.