Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:25:42 (1254)

1998-11-18 14:25:42# 123. lþ. 26.3 fundur 192. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Vorið 1994 samþykkti stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna einróma að einfalda úthlutunarreglur sjóðsins varðandi tillit til tekna námsmanna við ákvörðun námslána og hafa reglurnar hvað þetta varðar verið óbreyttar síðan. Þessi einföldun fól í sér að telja skyldi til tekna við útreikning námslána allar tekjur sem mynda skattstofn og aðrar ekki.

Meginbreytingin frá þeim reglum sem áður giltu fólst í því að húsaleigubætur eða húsaleigustyrkir frá hinu opinbera skyldu teljast til tekna eins og önnur félagsleg aðstoð, svo sem atvinnuleysisbætur. Á móti kom að barnabætur og barnabótaauki taldist ekki lengur til tekna við útreikning námslána. Fyrir utan það að einfalda regluverkið og gera það aðgengilegra fyrir námsmenn var samþykkt stjórnarinnar frá árinu 1994 ótvírætt til hagsbóta fyrir námsmenn með börn á framfæri sínu.

Könnun á vegum sjóðsins sl. vor sýndi að húsnæðiskostnaður námsmanna er mjög breytilegur, ekki síst þeirra sem búa í leiguhúsnæði. Svo dæmi sé tekið reyndist meðalleiga barnlausra námsmanna vera 22.600 kr. á mánuði samkvæmt úrtaki sjóðsins. Hæsta leigan á mánuði var á hinn bóginn 45 þús. kr. og sú lægsta 2.500 kr.

Í ljósi breytilegs húsnæðiskostnaðar var þeirri hugmynd hreyft í stjórn lánasjóðsins að veita viðbótarlán til þeirra námsmanna sem sýna fram á mikinn húsnæðiskostnað. Ekki náðist að útfæra þessa hugmynd fyrir endurskoðun úthlutunarreglnanna sl. vor en hún kemur væntanlega aftur til athugunar við næstu endurskoðun reglnanna.

Í ljósi þess að margt mælir með því að lánasjóðurinn skilgreini tekjur með sama hætti og skattyfirvöld er svar mitt við fyrirspurn hv. þm. neitandi. Ég tel á hinn bóginn eðlilegt að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna kanni til hlítar þá hugmynd að veita viðbótarlán vegna mikils húsnæðiskostnaðar. Einnig tel ég eðlilegt að við næstu endurskoðun á reglunum um Lánasjóð ísl. námsmanna verði frítekjumarkið skoðað.