Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:29:25 (1256)

1998-11-18 14:29:25# 123. lþ. 26.3 fundur 192. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:29]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Námslánum er ætlað að nægja til greiðslu húsnæðiskostnaðar og annarrar framfærslu námsmannsins. Auk þess er lánað 45% til viðbótar ef námsmaðurinn hefur börn á framfæri.

Það sem hefur breyst á síðustu árum er að komnar eru húsaleigubætur, 7.500 kr. á mann og síðan eru 4.500 kr. til viðbótar fyrir hvert barn. Þetta er nýtt. Auk þess eru vaxtabætur, sem eru kannski frekar sjaldgæfar þar sem námsmenn kaupa yfirleitt ekki íbúðir. Síðan er skattkerfið með bætur til þeirra sem hafa lág laun, sem námsmenn hafa yfirleitt, og meðlög hafa verið hækkuð verulega. Þetta leiðir til þess að einstæð móðir með tvö börn er með 170 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði allt árið um kring og hefur ekki efni á að gerast þingmaður af því að hún mundi lækka í ráðstöfunartekjum. Ég held að mjög brýnt sé að endurskoða reglur um námslán og taka tillit til allra bóta alls staðar frá úr öllum kerfum.